«

»

Molar um málfar og miðla 848

Þágufallssýkin er lúmsk og læðist víða. Í leiðara Fréttablaðsins segir ( 20.02.2012): Mörgum grunaði að bankarnir stæðu illa. Þarna átti að segja: Marga grunaði að bankarnir stæðu illa. Í sama leiðara segir: Það var handfylli manna sem hafði aðgang að þeim upplýsingum sem fram komu á fundum samráðshópsins. Hvað er handfylli manna ? Molaskrifari getur ekki svarað því, en hér sýnist honum enskt orðalag vera hér á ferð. Þar er talað um a handful of og reyndar einnig a fistful of – hnefafylli. Við vitum hinsvegar að Steinn Steinarr sagði: Húsameistari ríkisins tók handfylli sína af leir …. Þar velkist enginn í vafa um merkingu orðsins handfylli Enskan er eins og syndin gagnvart móðurmálinu, lævís og lipur. svo aftur sé vísað til Steins.

Molavin sendi eftirfarandi (21.02.2012): ,,Mbl.is fjallar 21.02.12 um dóm yfir úraþjófi (sem vefsíðan segir hafa komið að ráninu – rétt eins og hann hafi átt þar leið um) og segir þar orðrétt: Ef hlaupið er á hundavaði yfir málflutning Margrétar Unnar Rögnvaldsdóttur aðstoðarsaksóknara hjá ríkissaksóknara, þá sagði hún flest liggja fyrir í málinu. Orðabókin segir um hundavað: að gera eitthvað hratt og illa, óvandlega, grunnfærnislega. Hundavaðsháttur þýðir óvönduð vinnubrögð. Það má segja að eigi við um svona fréttaskrif.

í fréttum Stöðvar tvö (20.02.2012) voru sagðar fréttir af framkvæmdum í Garðinum. Það vakti athygli Molaskrifara að fréttamaður sagði yfirleitt í Garði. Málvenja er að segja í Garðinum með ákveðnum greini eða segja suður í Garði. Í Keflavík tala menn um að fara út í Garð. Molaskrifari er ættaður úr Garðinum. Hann fer oft suður í Garð. Það er gott að búa í Garðinum, – ekki Garði.

Úr mbl.is (20.02.2012) Þrír voru fluttir á slysadeild á Egilsstöðum eftir að hafa velt bifreið skammt sunnan við Egilsstaði á öðrum tímanum í dag. Það þurfti þrjá til!

Athylgisverð frétt var í fréttum Stöðvar tvö (22.02.2012). Kristján Már Unnarsson sagði okkur frá því að Búrfellsvirkjun væri búin að vera skuldlaus í tvo áratugi og skilaði sjö milljarða tekjum á ári til þjóðarbúsins. Þegar verið var að ræða um og byggja Búrfellsvirkjun á sjöunda áratug síðustu aldar barðist Þjóðviljinn sálugi gegn virkjuninni með kjaft og klóm. Íslenskir kommúnistar voru andvígir Búrfellsvirkjun því hún átti að framleiða orku til stóriðju í Straumsvík. Virkjuninni var fundið allt til foráttu. Þar yrði aldrei hægt að framleiða rafmagn vegna ísingarvandamála og rennslistruflana á vetrum. Enn ganga sumir keikir sem stóðu að þessum skrifum. Skrif Þjóðviljans um Búrfellsvirkjun eru sígilt dæmi um það þegar sannleikanum er fórnað í fréttaflutningi á altari pólitískra stundarhagsmuna.

Magnað getur verið að lesa Moggann. Þegar misvitrir stjórnmálamenn og afspyrnuvond efnahagsstjórn hafa komið Grikklandi á vonarvöl þá djöflast Moggi gegn Evrópusambandinu af ofurkrafti. Evrópusambandið er að reyna að bjarga Grikklandi frá þjóðargjaldþroti. Veita neyðarlán og gangast fyrir niðurfellingu skulda. Það er vítavert að mati Morgunblaðsins. Morgunblaðið kennir Evrópusambandinu um ófarir Grikkja. Molaskrifara verður hugsað til þess að misvitrum stjórnmálamönnum tókst með vondri efnahagsstjórn að koma Íslandi næstum því í þjóðargjaldþrot. Þar kom Evrópusambandið hvergi nærri. Við vorum alveg einfær um þetta með aðstoð misviturra stjórnenda. Stundum hljóma skrifa Mogga þannig að það er engu líkara en að þar á bæ sé það ósk manna að Grikkland verði gjaldþrota.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón Sveinsson skrifar:

    Sæll. Og kærar þakkir enn og einu sinni fyrir skrif þín um málfar og miðla.
    Nú í dag mátti sjá þessa fyrirsögn á vef Morgunblaðsins : “ Valt þrjá hringi..“
    Þarna var verið að segja frá því að bíll hafði farið þrjár veltur við Oddsskarðasgöng.
    Seinna var reyndar sagt í fréttinni að bíllinn hefði farið þrjár veltur, sem að mínu mati rétt orðalag.
    Kveðja J. Sv.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Ístru’flanir við Búrfell voru að sönnu staðreynd og mjög alvarlegt mál á sínum tíma og kostaði offjár að fást við þær á upphafsárum virkjunarinnar. Þær eru hins vegar ekki vandamál lengur þegar komnar eru margar virkjanir ofar við ána sem miðla rennslinu og þá sérstaklega Sultartangavirkjun. En á fyrstu árum Búrfellsvirkunar var stríðið við ísinn umtalsvert. Og um það stóð umræðan áður en nokkrum manni datt í hug að virkja ofar við ána. En því eru menn löngu búnir að gleyma.

  3. Sveinbjörn B. Sveinsson skrifar:

    Hvað hundavaðið varðar þá virðist sem almennur skilningur sé orðinn sá að farið sé hratt yfir sögu, jafnvel að farið sé grunnt í mál. Og það má sjá með einfaldri leit á Google.
    http://www.ruv.is/frett/bokmenntir/jolaljod-a-ljodajolum
    http://www.mbl.is/greinasafn/grein/804629/
    http://mbl.is/greinasafn/grein/1028862/
    http://mbl.is/folk/frettir/2011/10/28/farid_yfir_sogu_thjodar_a_hundavadi/

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>