Í morgunþætti Rásar tvö (17.02.2012) var talað um greiðslugetu bróðursins. Þetta grunnatriði málfræðinnar er kennt í grunnskólum landsins, – skyldi maður ætla. Í þessum sama þætti voru enskusletturnar á sínum stað hjá hinum sérstaka slúðurfregnritara Ríkisútvarpsins á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna sem talaði um dinner þar sem diskurinn kostaði 38 þúsund dollara.
Sá prýðilegi fréttaþulur/maður Broddi Broddason má til með að venja sig af þeim ósið að gefa okkur til kynna með raddblæ hvað honum finnst um tölur í fréttum sem hann les. Okkur kemur nákvæmlega ekkert við hvaða skoðun fréttaþulur hefur á tölunum sem hann les. Hann á að halda þeirri skoðun fyrir sig.
Nokkur umræða hefur orðið í fjölmiðlum um atkvæðagreiðslu við samþykkt frumvarpsins sem Hæstiréttur fjallaði um í vikunni. Við atkvæðagreiðslu eiga menn þrjá kosti. Með, móti, greiða ekki atkvæði eða sitja hjá eins og sagt er. Fjölmiðlar hafa greint frá því að hinn nýbakaði flokksforingi Lilja Mósesdóttir hafi hinsvegar valið fjórða kostinn. Hún hljóp úr þingsal meðan atkvæðagreiðslan fór fram. Heitir það ekki pólitískur heigulsháttur, ef satt er ?
Í Fréttablaðinu segir (17.02.2012): Kvikmyndaskóli Íslands verður í vor vígður inn í alþjóðasamtök helstu kvikmyndaskóla heimsins Cilect. Kvikmyndaskólinn fær aðild að alþjóðlegum samtökum. Hann verður ekki vígður inn í eitt eða neitt. Fáránlegt er að tala um vígslu í þessu sambandi.
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1400 (17.02.2012) var sagt frá nýjum stúdentagörðum sem rísa munu skammt frá Háskóla Íslands á gatnamótum þar sem mætast Oddagata, Sturlugata og Sæmundargata. Þar verða stúdentagarðarnir staðsettir eins og fréttamaður komst að orði. Þarna hefði, eins og nær ævinlega, verið betra að sleppa orðinu staðsettir.
Áskell sendi Molum eftirfarandi (17.02.2012): Eftirfarandi orð var að finna í bréfi frá lögfræðingi: greiðsluaðlögunarumleitanir . Þetta minnir ögn á Vaðlaheiðarvegamannaverkfærahurðargeysmsluskúrslykil …. Satt segirðu !
Molaskrifara varð það á að hlusta svolítið á Útvarp Sögu á föstudagsmorgni. Hvað eftir annað var því logið að hlustendum að þrotabú Landsbankans hefði lánað kaupendum Iceland matvörukeðjunnar í Bretlandi 300 milljarða ! Hrein ósannindi. Í fréttum hefur margsinnis komið fram að að til stendur að þrotabúið láni fimmtung verðsins til kaupanna eða 50 milljarða. Trúið varlega því sem hið heyrið í þessum fjölmiðli. – Þangað hringdi maður þennan morgun til að bjóða fram aðstoð sína til að skrá fólk á undirskriftalista um að skora á Ólaf Ragnar að bjóða sig fram aftur. Hringja bara í Jón Val í síma 616 9070 og hann skráir hvern sem er. Undirskriftasöfnunni er lokið. Samt er undirskriftasöfnuninni ekki lokið. Endalaust rugl undir forystu gamalla stjórnmálamanna , Útvarps Sögu og forstjóra Fjölskylduhjálpar Íslands.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
7 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Jón H. Brynjólfsson skrifar:
22/02/2012 at 01:18 (UTC 0)
Það er kannski léttvægt en mér finnst leiðinlegt að sjá hina fáránlegu útfærslu „Vaðlaheiðarvegamannaverkfærahurðargeysmsluskúrslykil“ á því ágæta orði Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúr.
Jón Valur Jensson skrifar:
20/02/2012 at 03:18 (UTC 0)
Þarna átti vitaskuld að standa, í innleggi mínu:
… ímynda sér, að þessu átaki í undirskriftum sé lokið, …
… í stað flýtisvillunnar!
Halldór Carlsson skrifar:
19/02/2012 at 23:57 (UTC 0)
Ólafur Ragnar er útsmoginn tækifærissinni og einn helsti aðdáandi sjálfs sín.
lítill gervikóngur sem elskar athygli.
daður hans við fjárglæframenn og Kínaþjónkun hans verða honum til ævarandi skammar
Eiður skrifar:
19/02/2012 at 22:30 (UTC 0)
Eiður Guðnason þarf ekki að ímynda sér, að þetta átak í undirskriftum sé lokið, segir Jón Valur Jensson. Réttara hefði líklega verið að segja: … að þessu átaki sé lokið. Ólafur Ragnar skipulagði þessa söfnun og valdi sjálfur nána vini og samverkamenn til að stjórna .þessu. Hann ætlaði sér sér að ná að minnsta kosti 40 þúsund nöfnum. það gengur ekki eftir , – jafnvel þótt Útvarp Saga reki áróður allan liðlangan daginn. Vonbrigði, mikil vonbrigði.
Jón Valur Jensson skrifar:
19/02/2012 at 21:37 (UTC 0)
Rúvarar á Ríkisstjórnarútvarpinu skrökvuðu því, þvert gegn betri vitund, nú um miðja vikuna, að þessu átaki væri lokið, en það er enn í gangi, enda ekki fyrr en á morgun, mánudaginn 20. febrúar, að mánuður verður liðinn frá upphafi þess!
Eiður Guðnason þarf ekki að ímynda sér, að þetta átak í undirskriftum sé lokið, þótt hann trúi helzt engu orði mínu. Hann getur einfaldlega farið inn á vefsíðuna askoruntilforseta.is og séð hana þar í fullum gangi, þvert gegn vonum hans sjálfs! Nú hafa 31.215 skrifað undir – já, bætzt hefur við í dag, Eiður!
Eiður skrifar:
19/02/2012 at 11:53 (UTC 0)
Rétt er það að algengt er orðið að tala um ,,vígslu“ þegar ný húsakynni eða mannvirki eru tekin í notkun þótt enginn vigður maður komi þar við sögu og engin vígsla fari fram. Stend við að það að það er fáránlegt og ekki vitræn myndlíking að tala um vígslu þótt skóli fái aðild að samtökum svipaðra skóla. Þú mátt kalla það sparðatíning, en orðalgið er engu að síður út í hött.
Halldór Carlsson skrifar:
19/02/2012 at 11:06 (UTC 0)
,, .. Fáránlegt er að tala um vígslu í þessu sambandi.“
þetta er sk. ,,sparðatíningur“, þarna er vígsla greinilega myndlíking,
og ekkert að þessu orðalagi.
þetta er að vísu oftar notað um það þegar eitthvað er notað í fyrsta skipti.
menn mættu hiklaust nota meira af slíkum líkingum, einsog var mönnum fyrri alda tamtá tungu, í stað einhæfs stofnanamáls
fleiri skemmtileg dæmi:
Nýr leikskóli vígður í Garðabæ
Listasafni Reykjavíkur barst gjöf á sama tíma frá Landsbankanum, forláta Petrof flygill, sem var vígður með viðburðinum
Nýr samkomusalur vígður
(Google)