Slor er slóg, innyfli fiska. Tvísagt var í fréttum Ríkissjónvarps (22.02.2012): Það sem áður var talið óætt slor … Þetta var sagt í fréttayfirliti á undan og eftir fréttum. Verið var að tala um grásleppu. Sá sem skrifaði þetta afhjúpar hyldýpi fáfræði. Lesari virtist reyndar litlu fróðari. Grásleppa hefur aldrei verið talin slor á Íslandi. Það var ekki fyrr en farið var að veiða grásleppu eingöngu hrognanna vegna að fiskinum var hent. Þegar Molaskrifari var strákur suður í Garði um og fyrir miðja síðustu öld var grásleppan hirt og étin. Ýmist var hún étin ný eða hún var söltuð eða látin síga. Síst smakkaðist hún soðin, ný. Molaskrifara fannst lítið til um að þurfa líka að éta hveljuna sem búið var að bursta og skafa körturnar af, en undan því varð ekki komist. Og varð bara gott af. Nú þykir þetta krás í Kína. Söltuð grásleppa er herramannsmatur og sigin grásleppa lostæti, ekki síst vafin í álpappír og grilluð. Þeir sem fást við fréttaskrif þurfa að þekkja meira en daginn í dag og gærdaginn af afspurn. Grásleppa er sko ekkert slor.
Úr mbl.is (21.02.2012) : Þar sem enn er hægt að kaupa íslenskar gulrætur er um að gera að prófa þessa einföldu og góðu gulrótarsúpu,“ segir Ebba Guðný í nýjum þætti af Pure Ebba hér á MBL Sjónvarpi. Hér er mbl.is að segja frá íslenskum matarþætti íslenskum fjölmiðli og kallar þáttinn Pure Ebba. Það er ekki íslenska.
Góð umfjöllun Jóhannesar Kristjánssonar í Kastljósi (23.02.2012) um Dróma. Hrós fyrir það Ekki verður sagt að talsmaður Dróma hafi haft sannfærandi og trúverðuga útgeislun á skjánum..
Úr mbl.is (22.02.2012). Úr frétt um alvarlegt járnbrautarslys: Fólk var í kremju og öskraði í örvæntingu. Vinsamleg tilmæli til ritstjórnar mbl.is: Ekki láta þá sem tala og skrifa barnamál skrifar slysafréttir, eða fréttir yfirleitt. Í fréttinni er líka talað um að lesin hafi verið á fullu stími, sem er líka barnamál. Lest sem er á 20 km hraða er hreint ekki á fullum hraða eða stími eins og mbl.is kallar það. sjá . http://mbl.is/frettir/erlent/2012/02/22/keyrdi_a_fullum_hrada_a_vegg/ .
Í yfirlit um veður á landinu við lok áttafrétta í Ríkisútvarpinu 822.02.2012) var sagt: Gert er ráð fyrir …… skúrir eða slydduél. Hér hefði verið betra að segja: … skúrum eða slydduéljum.
Úr mbl.is (22.02.2012): … til að notfæra sér að hitastig loftslags hefur aukist –
hitastig loftslags = lofthiti.
Meira úr mbl.is (22.02.2012): Franska þorpið Courbefy er til sölu en í því eru 19 byggingar og sundlaug. Á sínum tíma bjuggu um 200 manns í þorpinu en það er nú að stærstu leyti yfirgefið. Þorpið er staðsett í Limousin-héraðinu í suðurhluta Frakklands. Í staðinn fyrir að segja að stærstu leyti yfirgefið, hefði verið betra að segja til dæmis : … að mestu mannlaust. Svo þarf ekki að segja að þorpið sé staðsett í … . Nægt hefði að segja: Þorpið er í …
Sumir þingmenn eru öðrum orðsnjallari. Við atkvæðagreiðslu (22.02.12) um að kalla stjórnlagaráð , svokallað, saman að nýju sagði þingmaðurinn Vigdís Hauksdóttir er hún gerði grein fyrir atkvæði sínu að málið mundi valda miklum hamförum !
Svavar Halldórsson fréttamaður fær prik fyrir umfjöllun sína um Kaupþingssvindlið í fréttum Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöld (22.02.2012)
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar