Áskell skrifar (24.02.2012): ,,Rútan valt þrjá hringi, sagði í fyrirsögn mbl.is
Er betra að segja að rútan hafi farið þrjár veltur? Mér finnst það – eða skiptir þetta engu máli? Molaskrifari er Áskeli sammála. Þrjár veltur er betra.
Á mbl.is (25.02.2012) er birt tímabær aðvörun frá landlækni þar sem almenningur er varaður við allskyns gylliboðum sem vaða uppi í auglýsingumn. Þar eru oft svokallaðir sölumenn snákaolíu á ferð sem bjóða mixtúrur , pillur eða elexíra sem eiga að lækna flest ef ekki öll mein. Auglýsingar af þessu tagi vaða uppi í flestum fjölmiðlum, – meira að segja í Ríkissjónvarpinu. Langalgengastar eru þær þó líklega í Útvarpi Sögu. Þar eru reyndar heilu þættirnir sem fjalla um allkyns efni sem eiga að ráða bót á meinum. Hér er frétt um málið mbl.is: http://mbl.is/frettir/innlent/2012/02/25/landlaeknir_varar_vid_gyllibodum/
Sumir auglýsingahöfundar og sum fyrirtæki læeggja sig fram um að nota óvandað mál. Til dæmis þeir sem bera ábyrgð á heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu (25.02.2012) sem hefst á þessum orðum: Outlet sprengja í Cintamani Outletinu …. Svei ! Í heilsíðuauglýsingu í helgarblaði DV segir: Ég, Magnús Steinþórsson gullsmíðameistari er að kaupa gull, gullpeninga,…..Hversvegna ekki: Ég, Magnús Steinþórsson gullsmíðameistari kaupi gull, gullpeninga … Betra. Þetta hefur oft verið nefnt hér áður.
Víða er það svo í sjónvarpi þegar fluttar eru fréttir á táknmáli þá eru fréttirnar einnig lesnar upphátt. Ríkissjónvarpið mætti að skaðlausu taka sér það til fyrirmyndar. Lítið mál og einfalt í framkvæmd.
Í sexfréttum Ríkisútvarps (25.02.2012) var talað um að fá skip í stað Herjólfs sem risti minna. Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að tala um skip sem risti grynnra. Þetta var endurtekið í sjónvarpsfréttum klukkan sjö en leiðrétt í tíufréttum útvarps.
Prýðilega framsett frétt var á Stöð tvö (25.02.2012) þar sem kom fram hve langt, eða öllu heldur hve stutt, væri hægt að aka fyrir fimm þúsund krónur þegar bensínverð hækkar ört. Það var hinsvegar ekki eins gott þegar fréttamaðurinn talaði um hundrað níu tíu og þrjá kílómetra akstur. Það hefði átt að vera: … hundrað nítíu og þriggja kílómetra akstur.
Í stutta kynningu á Rás eitt á leikriti Andrésar Indriðasonar á laugardagskvöldi (25.02.2012) tókst að koma nokkuð mörgum málvillum, – ótrúlega mörgum.
Það er sjálfsagt í lagi að tala um bakuggann í íslenskri menningu , og þó, eins og gert var í ágætum þætti á Rás eitt (26.02.2012). Molaskrifari heldur að átt hafi verið bakfiskinn í íslenskri menningu fremur en bakuggann. Burðarás íslenskrar menningar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
29/02/2012 at 23:35 (UTC 0)
Kærar þakkir , Ari. Auðvitað á að lesa úr skammstöfuninni Rúv. Ekki segjum viðp tédé (t.d.) eða ofl (o.fl.).
Ari skrifar:
29/02/2012 at 23:19 (UTC 0)
Í öllum fjölmiðlum nýlega var frétt um ofbeldismál og þar kom fram undantekningalítið götuheitið Skútuhraun. Rúv fór eitt með rétt mál, en gatan heitir Skútahraun, gatan í iðnaðarhverfinu í Hafnarfirði er kennt við skúta en ekki skútu! Ekki dregur þetta úr mikilvægi Rúv hvað málfar varðar, þetta er enn eitt dæmið þar sem rúv stendur betur en hinir miðlarnir. Málfari mun hnigna ef frjálshyggjupostularnir fengju sínu fram og legðu niður Rúv. (já ég veit að þetta heitir Ríkisútvarpið en ég nenni ekki að skrifa það í hvert skipti á netið, rúv er skammstöfun og lesist sem Ríkisútvarpið , ekki RÚV 🙂 )
Guðlaugur Sigurðsson skrifar:
27/02/2012 at 12:56 (UTC 0)
Á http://www.visir.is var fyrirsögn:
Vísir – Hefur þú séð 7 ára pilt í grennd við Sundlaugina í Kópavogi?
Bíð eftir að sjá: „Köttur í vanskilum“, þegar auglýst verður að köttur sé fundinn…