Á þensluárunum miklu fyrir hrun voru sjónvarpsstöðvarnar með fasta þætti þar sem bindislausir strákar, svartklæddir, oftast í svörtum skyrtum, ræddu spekingslega um fjármál og fjárfestingar og höfðu skýrar skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Ráðleggingum rigndi í allar áttir. Þeir voru alvöruþrungnir og þóttust forvitri. Molaskrifari var við störf erlendis talsvert af þessum tíma og missti því (líklega sem betur fer!) af þessu merka efni. En í ljósi alls sem siðan hefur gerst leggur Molaskrifari til að þessir þættir verði endursýndir. Þeir yrðu líklega betra skemmtiefni en nokkuð sem grínhöfundar og grínleikarar samtímans gætu boðið okkur. Gætu jafnvel orðið ódýrt Áramótaskaup í Ríkissjónvarpinu.
Molavin sendi eftirfarandi (25.02.2012):,, Frétt á dv.is hefst svo: Mexíkóskir vísindamenn telja sig vera á barmi þess að finna bóluefni sem nota má gegn heróínfíkn… Ég þykist vita að þarna hafi í erlendu fréttinni verið sagt: On the brink of… Hins vegar kannast ég ekki við notkun þessa líkingarmáls í svo jákvæðri merkingu á íslenzku. ,,Á barmi gjaldþrots“ er algengt, ,,á barmi taugaáfalls“ eða ,,á barmi glötunar.“ Það hefði óneitanlega hljómað betur ef sagt hefði verið að vísindamennirnir væru nálægt því að finna umrætt bóluefni. Margir virðast starfa við að þýða erlendar fréttir en betra er þegar þær eru endursagðar og þá með íslenzka málvenju í huga.” Kærar þakkir fyrir sendinguna, Molavin.
Urrandi stemming í Klettagörðum er fín fyrirsögn á mbl.is (26.02.2012) en fréttin er um hundasýningu í Klettagörðum.
Frumlegheitin voru í öndvegi í Silfri Egils (26.02.2012): Þingmennirnir Jón Gunnarsson, Mörður Árnason, Þór Saari og Vigdís Hauksdóttir. Ja, hérna. Svo var auðvitað rætt við enn einn hókus- pókus manninn, enn einn Ali Babann, sem ætlar að afskrifa skuldir án þess að nokkur finni fyrir því. Hann kvartaði undan því að hagfræðingar skildu yfirleitt ekki þessar hugmyndir. Hagfræðingar eru ekki einir um það. Í þættinum sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, að svo slæmt væri ástandið hér að mjög fáir hefðu efni á að fara erlendis (svo!), fara til útlanda, átti hún við. Nýlega kom fram í fréttum að næstum tveir af hverjum þremur Íslendingum hefðu farið til útlanda í fyrra og níu af hverjum tíu ferðast innanlands. Suma þingmenn varðar ekkert um staðreyndir. Sjá frétt: http://ruv.is/frett/heldur-fleiri-til-utlanda-2011
Stjórnendur og þátttakendur í umræðuþáttum mega gjarnan hafa í huga að þegar tveir ( eða fleiri ) tala samtímis heyrum við sem heima sitjum ekki eitt einasta orð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar