Þessa dagana er úr vöndu að ráða á Bessastöðum á Álftanesi.
Hin vandlega hannaða atburðarás, áætlunin um það hvernig framboðsmál forsetans áttu að þróast hefur ekki gengið eftir. Öflug sérfræðiaðstoð sem áður hefur reynst vel skilaði ekki árangri.
Einhvern veginn svona átti hin hannaða atburðarás að þróast:
Áramótaávarp í véfréttarstíl, svo undirskriftasöfnun sem þekktir menn stæðu að. Safna átti 40 þúsund helst 50 þúsund undirskriftum að sögn hinna galvösku húskarla á Bessastöðum áður en herförin hófst. Svo ætlaði forseti að fara að vilja þúsundanna sem vildu hafa hann áfram á Bessastöðum. Og bjóða sig fram í fimmta sinn. Fórnfýsin alveg að fara með hann.
En til eru þau fræ sem aldrei verða blóm. Þannig fór um fræin sem forsetinn sáði á Nýársdag. Hin vandlega hannaða atburðarás gekk ekki eftir. Þetta klúðraðist eiginlega allt. Enda var forsetinn á Suðurskautslandinu að skoða keisaramörgæsir með vini sínum Al Gore og öllu hinu fína fólkinu, – þotuliðinu sem er að bjarga veröldinni með ferðalögum og fyrirlestrum. Undirskriftirnar löfðu í 30 þúsundum, – af 230 þúsund manns sem eru á kjörskrá. Vonbrigðin voru mikil. Það breytir engu þótt einn aðalleikandinn í hinni hönnuðu atburðarás hafi lýst sérstakri og ómældri ánægju með undirskriftirnar. Hve þær voru margar. Hann var yfir sig ánægður með hvernig þetta klúðraðist. Sú afstaða lýsir bara vel þeirri hógværð og lítillæti sem einkennir sanna stuðningsmenn forsetans. Í því efni hafa þeir dregið dám af húsbónda sínum.
Nú er sagt að legið sé undir feldi á Bessastöðum. Hanna verður nýja atburðarás. Sömu ráðgjafar og áður verða væntanlega kallaðir til Bessastaða. Og það þótt fyrri ráð þeirra hafi gefist misjafnlega. Þeir fundir verða þó varla færðir til bókar á heimasíðu forsetaembættisins þar sem allt á að vera svo opið og gegnsætt.
En meðan þessu fer fram á Álftanesi stækkar óðfluga sá hluti þjóðarinnar sem gerir sér grein fyrir því að verið er að hafa okkur að fíflum. Og þegar í leiðara Moggans forsetinn er hafður að háði og spotti þá vitum við að okkar manni á Bessastöðum líður verulega illa. Eitt er að láta skamma sig, en það voðalegasta sem getur hent nokkurn forseta er að láta gera grín að sér í fjölmiðlum dag eftir dag. Það er að gerast núna. Sirkusinn heldur áfram.
Skildu eftir svar