«

»

Molar um málfar og miðla 854

 

Eitt af því sem Ríkissjónvarpið vanrækir er að sýna okkur vandaða fréttaskýringaþætti af heimsbyggðinni, – um þróun mála í veröldinni. Þannig þættir um erlend málefni voru á dagskrá hér á árum áður. Ekki lengur. Nóg framboð er af slíkum þáttum. Norrænu stöðvarnar sýna svona þætti reglulega. Það er helst að Bogi Ágústsson, reyndasti fréttamaður stofnunarinnar, hafi sýnt okkur slíkt efni. Áhugi þeirra sem ráða dagskránni í Ríkissjónvarpinu okkar beinist ekki í þessa átt. Þar hafa menn í mörgum efnum asklok fyrir himin.

 

Molavin sendi þetta (29.002.2012): ,,One dead after Coast Guard helicopter crash. Svona hljóðaði fyrirsögn í bandarísku blaði í dag (29.2.2012). Það er algengt í ensku máli að nota orðið after (eftir) þegar sagt er frá slysum. Ekki alltaf rökrétt, en engu að síður málvenja í enskumælandi löndum. Við erum ekki í hópi þeirra.

 

Í íslenzku máli er venjulega talað um að menn látist af slysförum, í slysum eða þegar slys verða. Það er banaslys þegar manneskja deyr af slysförum, eða eftir slysið. Í gær sagði í Stöðvar-2 frétt um voðaverk í skóla í Bandaríkjunum, að ungmenni hefðu særst eftir skotárás. Þó má ætla að það hafi gerzt í sjálfri skotárásinni en ekki eftir hana. Þarna er á ferð sú vaxandi árátta fjölmiðlafólks að þýða bókstaflega; orðabókarþýðing eins og það er kallað, í stað þess að koma innihaldi fréttarinnar til skila eftir íslenzkri málvenju. 

 

Þetta er auðvelt að lagfæra ef hinir reyndari á ritstjórnum og fréttastofum láta sig málfar hinna óreyndari varða – og ef hin sjalfsörugga, unga kynslóð fjölmiðlafólks vill þiggja leiðsögn.” Satt og rétt. Þakka ábendinguna.

 

 

Áskell sendi eftirfarandi (28.02.2012): ,,Á mbl.is er sagt frá könnun lögreglunnar í Reykjavík á umferðarhraða. Í fréttinni kemur fyrir nýyrðið afskiptahraði. Í fréttinni segir: … ók meira en þriðjungur ökumanna, eða 39%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Það jaðrar við að þetta nýja orð sé fyndið.” Satt segirðu, Áskell. Það er fyndið! Nema kannski í eyrum þeirra sem lögreglan gómar fyrir of hraðan akstur.

 

Það er ljóður á ráði sumra netmiðla að greina ekki milli erlendra og innlendra frétta. Slegið er upp slysafréttum frá útlöndum innanum innlendar fréttir á forsíðu á netinu og látið líta út sem þetta séu innlendar fréttir. Heldur hvimleitt.

 

Loks er birt hér glefsa úr mbl.is (28.02.2012). Er ekki rétt að kalla þetta framlag mbl.is til málvöndunar? Í nýjasta þættinum af PureEbba hér á MBL Sjónvarpi sýnir Ebba Guðný hvernig á að búa til þessa dásamlegu djúsa. „Þessir djúsar eru æðislega góðir til dæmis á morgnana eða þá sem hressing síðdegis,“ segir Ebba. „Svo finnst krökkum þeir alveg æðislegir,“ segir Ebba. Þetta bara alveg æðislegt!

Tvö tískuorð hljóma nú í fjölmiðlum í tíma og ótíma. Annað er vegferð. Nú eru allir á einhverri vegferð. Forsetinn segist vera á vegferð. Hann virðist hinsvegar hvorki vita hvert hann er að fara eða hvar hann er staddur. Pistlahöfundur sem flutt hefur pistla um skeið í Ríkisútvarpinu segist hafa verið á vegferð. Hitt er að detta inn. Nýkomnar vörur í verslun voru að detta inn. Sá sem kom í heimsókn var að detta inn úr dyrunum. Vonandi slapp hann ómeiddur. Þetta gengur yfir og gleymist. Nýtt tekur við sem fara mun sömu leið.

   Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Jón skrifar:

    “ Í gær sagði í Stöðvar-2 frétt um voðaverk í skóla í Bandaríkjunum, að ungmenni hefðu særst eftir skotárás. Þó má ætla að það hafi gerzt í sjálfri skotárásinni en ekki eftir hana.“
    Það var einmitt það sem gerðist. Öll þrjú létust af sárum sínum, ekki í sjálfri árásinni.

    Afskiptahraði er ekki það sama og hámarkshraði. Löggan skiptir sér ekki af fyrr en komið er nokkuð yfir hámarkshraða. Er ekki almennt miðað við að menn haldi sig innan við 100 á 90-vegum?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>