«

»

Molar um málfar og miðla 855

Efst á forsíðu dv.is hefur að undanförnu verið auglýsing sem hlýtur að flokkast sem misheppnaður brandari. Hún er svona: Hafðu það kósý! Ný sending af ethanól örnum. Auglýsandinn er fyrirtækið Rúm Gott í Kópavogi. Ítrekað hafa orðið eldsvoðar og slys vegna ethanól eldstæða. Þessvegna ætti kannski að segja að þessi auglýsing sé hættuleg. Nema auðvitað að fólk vilji hafa það kósý á sjúkrahúsi, en Molaskrifari reiknar ekki með því.

Fjölmiðlar vinna sumir hverjir ötullega að því að útrýma þeim mun sem er á því að kjósa og greiða atkvæði. Á Alþingi er kosið í ráð og nefndir. Þar eru greidd atkvæði um lagafrumvörp og tillögur.
Í Morgunblaðinu (01.03.2012) er sagt frá því í forsíðufyrirsögn að í dag eigi að kjósa um afturköllun ákærunnar á hendur Geir H. Haarde. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að tala um að greiða atkvæði um afturköllun ákærunnar. Rétt var farið með þetta í morgunfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag.

Fór svo að lokum að boð upp á fimmtíu og fimm milljónir og eitt hundrað þúsund krónur frá einstaklingnum var slegið. Þetta er úr frétt á dv.is um nauðungaruppboð á húsi þar sem einstaklingur bauð á móti banka. Boð var ekki slegið. Húsið var slegið hæstbjóðanda. Þarna hefði átt að standa: Fór svo að lokum að húsið var slegið einstaklingnum sem bauð 55 milljónir króna.

Ekki er Molaskrifari sáttur við orðalagið samkvæmt Sameinuðu þjóðunum sem notað var í seinni fréttum Ríkissjónvarps (29.02.2012) er vitnað var í talsmann samtakanna. Þetta orðalag heyrist því miður æ oftar, – til dæmis að sagt sé: Samkvæmt lögreglunni.

Aftur og aftur gerir Molaskrifari athugasemdir við áfengisauglýsingar Ríkissjónvarpsins. Hversvegna líðst stjórnendum Ríkissjónvarpsins að brjóta landslög í augsýn alþjóðar, dag eftir dag, árið um kring? Það er verið að auglýsa áfengan bjór þegar bjórflöskur og freyðandi öl er lengi, lengi á skjánum oft á kvöldi. Hér breytir engu þótt orðið léttöl birtist með örsmáu letri í tvær sekúndur eða svo neðst í skjáhorni. Með þessu staðfesta ábyrgðarmenn Ríkisútvarpsins,og íslensk stjórnvöld, að á Íslandi er landlægt virðingarleysi fyrir lögum og reglum. Stjórnendur Ríkisútvarpsins eru fremstir í röð þeirra sem gefa lögum landsins langt nef og segja: Lögin gilda ekki um okkur. – Molaskrifari spyr: Eru ráðherarnir sem bera ábyrgð á Ríkisútvarpinu bæði blindir og heyrnarlausir ? Eða skortir þá kjark til að takast á við liðið sem er við stjórnvölinn í Efstaleiti ? Til hvers kýs Alþingi Ríkisútvarpinu stjórn? Varla til að loka augunum fyrir augljósum lögbrotum.

Alltaf er gaman að sjá í fréttum menn sem maður hefur ekki heyrt af langa lengi. Þannig var skemmtilegt að lesa um Pétur Ingason sem nú er búsettur á Southhampton á Englandi en heldur nú upp á 60 ára brúðkaupsafmæli með konu sinni Sigrúnu Eydísi Jónsdóttur. Frá þessu var sagt á baksíðu Morgunblaðsins fyrir helgina. Pétur var einn af ágætum kostgöngurum hjá móður minni um skeið fyrir meira en sextíu árum. Þar voru margir sómamenn. Pétur var þá í flugvirkjanámi hjá Flugfélagi Íslands, en hefur síðan farið víða og lifað viðburðaríku lífi. Til hamingju ágætu hjón!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Einar skrifar:

    Southampton er skrifað með einu h.

  2. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir,Jón.

  3. Jón G. Friðjónsson skrifar:

    Ágætar athugasemdir, réttmæt gagnrýni.

  4. Eiður skrifar:

    Sennilega væri það skömminni skárra.

  5. Þorsteinn Steinar Jónsson skrifar:

    Núverandi auglýsingabann er í rauninni óframkvæmanlegt og býður upp á alls konar tvískinnung, ekki sízt vegna erlendra fjölmiðla sem landsmenn hafa óheftan aðgang að. Vegna þess að áfengisauglýsingar eru ekki til samkvæmt íslenzkum lögum, gilda heldur engin ákvæði um það t.d. á hvaða tíma sólarhrings þær megi sýna eða að hverjum þær megi beinast.

    Lagt hefur verið til á Alþingi að auglýsingar á léttu áfengi verði leyfðar, en á móti sett ströng skilyrði um að slíkum auglýsingum verði ekki beint sérstaklega að börnum og unglingum.

    Væri það ekki skárri lausn en núverandi ástand?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>