856
Úr mbl.is (01.03.2012): Meirihluti þingmanna samþykktu í dag að vísa tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að draga til baka ákæru á hendur Geir H. Haarde frá. Hér hefði átt að segja: Meirihluti þingmanna samþykkti … eða : Þingmenn samþykktu í morgun…
Í fréttum Stöðvar tvö (01.03.2012) var talað um að snuða á neytendum. Hér var greinilega ruglað saman því að svindla á neytendum og snuða neytendur sem er hið venjulega orðalag, – hlunnfara neytendur.
Um leið og maður pantar miða á sýningunni, – var sagt í Kastljósi Ríkissjónvarpsins (02.03.(2012). Hér hefði átt að segja: Um leið og maður pantar miða á sýninguna, — ekki satt?
Úr mbl.is (05.03.2012): Um er að ræða stærstu opnun ársins og þriðju stærstu opnun allra tíma á íslenskri kvikmynd. Þetta hefur alveg greinilega verið gríðarleg opnun. Allt opið upp á gátt!
Molaskrifari brá sér í leikhús og sá uppfærslu Þjóðleikhússins á leikriti Eugene O´Neills sem nú heitir Dagleiðin langa. Skemmst er frá því að segja að sýningin var upplifun. Verkið lætur engan ósnortinn og grípur mann sterkum tökum. Það liggur við að maður sé þreyttur að sýningu lokinni, en líka fullur aðdáunar því þarna eru á sviði sumir okkar allra bestu listamanna. Mæli hiklaust með þessari sýningu í Lindargötu Kassanum. Skil reyndar vel af hverju hún er sett á svið þar en ekki á stóra sviðinu í leikhúsbyggingunni. Þarna verður meiri nánd. Maður er í stofunni þar sem þessi mikla tilfinningasinfónía er leikin.
Í leikskrá segir að leikritið hafi áður verið sýnt í Þjóðleikhúsinu 1982 í þýðingu Thors Vilhjálmssonar og hét þá Dagleiðin langa inn í nótt sem er orðrétt þýðing á heitinu sem höfundur gaf verkinu, A LongDay´s Journey Into Night. Hversvegna var þýðing Thors ekki notuð núna heldur leikritið þýtt upp á nýtt? Og hversvegna er þess ekki getið í leikskrá að leikritið var líkasýnt í Þjóðleikhúsinu árið 1959 , þremur árum eftir að það var frumsýnt vestra. Þá hét það á íslensku Húmar hægt að kveldi. Sem er fallegasta heitið og nær inntaki verksins betur en hin tvö. Séra Sveinn Víkingur þýddi leikritið þá, er það fyrst var sýnt í Þjóðleikhúsinu. Stofnunarminnið í Þjóðleikhúsinu nær líkast til ekki aftur til ársins 1959. Stofnunarminni er hverri stofnun ómissandi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar