«

»

Molar um málfar og miðla 857

Molalesandi sendi þetta (04.03.2012): ,,Slettur úr erlendum málum eiga sjaldnast rétt á sér, ef vilji er til að vanda íslenskt mál. Meinlausar eru sletturnar kannske í tali en fara nær undantekningalaust afar illa í rituðum texta. Og þeim mun fráleitara og langsóttara er að grípa til útlendra sletta þegar nærtækt er lipurt íslenskt orð sömu merkingar.

Dæmi: Eitt af þeim útlendu orðum sem sífellt má heyra staglast á er komment, comment; menn tala í tíma og ótíma um að kommenta eða kommentera á þetta eða hitt. Þannig segir t.d. bloggari nokkur í lok pistils síns: Hægt er að kommentera á færsluna inn á facebook. Og fjölmiðill úti á landi, þar sem góð íslenska er rótgróin, talar sífellt um að kommenta .
Skyldi þeim þykja þetta fínt?
Ekki þarf að hugsa sig um lengi til að muna eftir því frábæra orðtaki að tjá sig um e-ð. Viltu tjá þig um þetta? Geturðu tjáð þig um málið? — Í samanburði við þessa fallegu sögn, að tjá, er ótrúlegt klúður að grípa til orðskrípanna kommenta eða kommentera, telji menn sig vera að tala eða skrifa íslensku.” Molaskrifari þakkar góða sendingu og þarfa áminningu.

Annar lesandi sendi þessa ábendingu. Fréttin er ættuð af mbl.is (04.03.2012) ,,Slasaður haförn var fangaður í morgun af ábúendum á Álfsstöðum II undir Vörðufelli á Skeiðum. Frá þessu er greint á fréttavefnum Sunnlenska.is og þar rætt við Sigmund Þorsteinsson, bónda á bænum, sem segir að fyrst hafi verið tekið eftir erninum í gær.

Sigmundur segir að þeim hafi virst hann eitthvað slappur og því ákveðið að leita að honum í morgun. Hann hafi síðan fundist innan um hest á einu túninu.” – Þetta sýnist nú vera hrein klaufavilla, vantar eitt – a , innan um hesta hefði þetta auðvitað átt að vera.

Alelda kjúklingur á Ísafirði. Fyrirsögn úr mbl. is (06.03.20129) Nálægt því að vera fyrirsögn ársins á mbl.is

Illa skrifuð frétt á visir.is (04.03.2012) um loftstein sem ferðaðist ! http://www.visir.is/loftsteinn-hrapadi-yfir-englandi/article/2012120309615

Molalesandi sendi þetta sem einnig er úr visir.is (04.03.2012) Hann segir um íþróttafrétt: : Í mjög fljótu bragði rakst ég á eftirfarandi:

,,Vinna sigur; sigra menn ekki lengur?
Gerði mark; hingað til hafa menn skorað mark.
Kveikti á ákv. viðv. bjöllum; Venjan er að hringja bjöllum.
Þeir uxu ásmegin; Þeim óx ásmegin er skiljanlegra.
Korter var liðin; Korter var liðið (hvorugkynsorð).
Hamraði boltanum: Hamraði boltann er laust við þágufallssýkina.” Molaskrifari þakkar sendinguna og tekur undir sumt að því bréfritaði segir.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>