– Það sem mér fannst einna helst stinga mig í stúf frá því ég talaði við ykkur í síðustu viku, – sagði sérstakur slúðurfréttaritari Ríkisútvarpsins í Los Angeleles við hlustendur Rásar tvö í Ríkisútvarpinu í morgun (16.03.2012). Eru engin takmörk fyrir því hvaða málsóðaskap Ríkisútvarpið telur sér sæma að bjóða hlustendum? Eru þá ótaldar ótal enskuslettur sem einnig var að finna í þessum slúðurpistli. Er ráðamönnum Ríkisútvarpsins endanlega horfin öll velsæmistilfinning gagnvart móðurmálinu?
Lögfróður Molalesandi sendi eftirfarandi athugasemd (14.03.2012):
,,Ég tók eftir villu hjá fréttamanni Ríkisútvarpsins núna í kvöld þegar fjallað var um þinghald í máli þar sem krafist var áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir nokkrum Vítisenglum. Í lok fréttarinnar var talað um að maður hefði verið handtekinn í ,,dómhaldinu“. Hvorki í lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 né í lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991 er talað um orðið dómhald. Talað er um dómþing, þinghöld, eða fyrirtökur í slíkum tilvikum. Leitaði að orðinu ,,dómhald“ á vef Árnastofnunar. Leitin skilaði ekki árangri. Starfsmenn Ríkisútvarpsins virðast sumir ekki hafa nægilega þekkingu á lögfræðilegum hugtökum. Ef til vill ættu þeir að leita sér aðstoðar þegar kemur að þeim.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Vonandi tileinka þeir sem orðunum er beint til sér þessa réttmætu ábendingu. Hættan hér er sú að þeir sem skrifa telji sig vita svo vel að þeir þurfi ekki að leita ráða hjá einum eða neinum.
Kraumur úthlutað í dag segir í fyrirsögn á visir.is (14.03.2012). Þessi fyrirsögn er bara rugl. Verið er að tala um úthlutun úir tónlistarsjóði sem heitir Kraumur. Eðlilegt hefði verið að segja til dæmis: Úthlutað úr tónlistarsjóðnum Kraumi í dag.
Í fréttum Ríkissjónvarps (14.03.2012) var talað um erlend glæpasamtök sem eru að ná fótfestu hér á landi. Þar var talað um tvenn gengi. Molaskrifara hefði þótt eðlilegra að tala um tvö gengi. Í öðrum fréttum var talað um þrjú samtök þar sem eðlilegra hefi verið að tala um þrenn samtök.
Fáránlegar uppákomur þingmanna Framsóknarflokksins á Alþingi eru að verða daglegt brauð. Þeir eru að auka virðingu þingsins. Líklega hörðum höndum. Eins og fjölmiðlamenn sífellt segja. Erfitt er þó að sjá formann Framsóknarflokksins fyrir sér með sigggrónar hendur ! Daginn eftir að Vigdís Hauksdóttir varð sér til skammar fetaði hann í fótspor hennar, – fór að minnsta kosti í humátt á eftir henni. Staksteinahöfundur Mogga (15.03.2012) kemur formanninum til varnar og segir Sjálfstæðismenn mega þola það að forsætisráðherra kalli þá íhaldið. Molaskrifari man dálítið aftur í tímann í pólitík. Hann veit ekki betur en margir Sjálfstæðismenn séu stoltir af því að vera kallaðir íhaldsmenn. Orðið íhaldsmaður er nefnilega hreint ekki sjálfgefið skammaryrði þótt Staksteinahöfundur sé þeirrar skoðunar. Molaskrifari er íhaldsmaður í mörgum greinum. Og skammast sín ekkert fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
5 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
17/03/2012 at 10:23 (UTC 0)
Sammála. Svo er einnig sífellt talað um að vera að vinna vinnuna sína.
Málnotandi skrifar:
17/03/2012 at 09:44 (UTC 0)
Hef tekið eftir einu sem mér finnst leiðinlegt í máli fólks, en það er ofnotkun á ákveðnum greini: dæmi: í hjartanu sínu, í vinnunni sinni… og svo framvegis -endalaust í útvarpinu. Þetta er alfarið heimagert og ekki úr ensku, eins og flest af þessu tagi.
Tilgerðarlegur innileiki /væmni… held ég?
Þorvaldur S skrifar:
16/03/2012 at 17:52 (UTC 0)
Hefði verið betra að spyrja hvað konuvesalingurinn hefði átt við með því að eitthvað styngi hana í stúf?
Eiður skrifar:
16/03/2012 at 15:58 (UTC 0)
Mér fannst einna helst að konunni hefði komið eitthvað á óvart !
Sigurður Hreiðar skrifar:
16/03/2012 at 14:24 (UTC 0)
Hvað átti mannvesalingurinn við, með því að eitthvað stingi hann í stúf? — Þetta er álíka óskiljanlegt (mér) eins og í mbl.is fréttinni um daginn, þar sem einhver ákvað að „skakkast í leikinn“.