«

»

Molar um málfar og miðla 860

Þetta sendi Molavin (12.03.2012) og notaði fyrirsögnina Málfarsklám: Það er bottomlænið… voru lokaorð viðmælanda fréttastofu Útvarps í kvöld, mánudag þegar hann átti við að eitthvað væri kjarni málsins eða niðurstaða þess. Þeir sem koma fram í fjölmiðlum fyrir hönd félaga eða fyrirtækja þurfa að vanda mál sitt, undirbúa sig fyrir viðtalið og vera meðvitaðir um það í upptöku að mállýti eða alvarlega slettur varpa rýrð á málstað þeirra. Hroðvirkni er því miður allt of áberandi í vinnubrögðum á Íslandi. Fréttamaður hefði líka getað klippt þetta málfarsklám burtu og sagt í lokaorðum um leið og viðmælandi var afkynntur, að þetta teldi hann vera meginatriði málsins.” Hafðu þökk fyrir sendinguna, Molavin.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (13.03.2012) var sagt að stórt gat hefði komið á gjaldeyrishöftin og að stoppa þyrfti í gatið/götin. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Að hans dómi hefði verið eðlilegra mál að tala um að styrkja gjaldeyrishöftin eða herða gjaldeyrisreglurnar sem nú er í gildi. Það er svolítið langsótt að tala um gat á höftum. Orðið glufa sem reyndar einnig var notað er ögn skárra.

Áreiðanlega hefur mörgum borgurum þessa lands brugðið í brún að heyra forstjóra Kauphallarinnar á Íslands harma það opinskátt, skýrt og skorinort að komið skyldi í veg fyrir að braskarar gætu grætt á lagagloppu og reglugerðarglufum um gjaldeyrishöft og grafið þannig undan íslenskum fjármálamarkaði , – og efnahagslífi en öðlast í leiðinni illa fenginn gróða. Það var eiginlega hálf óhugnanlegt að hlusta á manninn. Jafnslæmt var að hlusta á fjölmiðla lepja upp væl annarra yfir því að hafa ekki fengið að græða á mistökum sem greinilega voru gerð þegar reglur voru settar um gjaldeyrishöft. Þetta var heldur dapurleg upplifun allt saman. Steingrímur J. var eiginlega eini maðurinn sem hélt höfði í þessari fjölmiðlaumræðu.

Yfirlit Ingólfs Bjarna um störf Landsdóms í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (14.03.2012) var prýðilegt. Úttekt Kastljóssins á tölvuöryggi á Íslandi er til fyrirmyndar og þakkarverð. Umhugsunarefni að þetta skuli ekki hafa verið gert fyrr. Fólk og fyrirtæki verða hér að halda vöku sinni ef ekki á illa að fara. Gott framtak.

Það væri mjög til bóta ef tilkynnt væri jafnóðum í dagskrá Ríkissjónvarpsins hvenær þættir verða endursýndir sem ætlunin er að endursýna. Þetta er yfirleitt ekki gert. Varla getur verið að skipulagning dagskrár sé í slíkum handaskolum hjá Ríkissjónvarpinu að þetta sé ekki unnt. Norrænu stöðvarnar geta þetta og gera þetta. Hversvegna getur íslenska Ríkissjónvarpið þetta ekki? Þetta er í rauninni sjálfsögðu þjónusta við áskrifendur nauðungarsjónvarps.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>