Í miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins (12.03.2012) var talað um mann sem lent hefði í sjálfheldu á brimgarði við Hafnarfjarðarhöfn. Þarna hefði átt að tala um brimbrjót eða brimvarnargarð. Brimgarður er ,,samfelld brimröst eða brimveggur einkum við strönd,” segir orðabókin.
Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins sýndi þjóðinni í dag að hún kann hvorki þingsiði né mannasiði. Kunni hún þessa siði, virðir hún þá ekki. Hún fékk hins vegar óskiljanlega sérmeðferð í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins. Hún bar þungar sakir á forsætisráðherra sem ekki fékk að svara fyrir sig og ekki varð betur heyrt en að hún færi mjög á svig við sannleikann sé miðað við það sem áður var fram komið í þingfréttum sjónvarpsins. Fréttastjórn í Efstaleiti er ábótavant í mörgu að ekki sé meira sagt.
Guðbrandur sendi eftirfarandi ábendingu (11.03.2012): http://www.visir.is/gylfi–frabaert-ad-leggja-eitt-besta-lid-heims-af-velli/article/2012120319857
Ég hef stundum áður minnst á hvernig menn eru farnir að nota „af“ í staðinn fyrir „að“. Hér er eitt gott dæmi.” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Því miður verður æ algengara að sjá þessum forsetningum ruglað saman.
DV skýrir frá því (12.03.2012) hversvegna landslýður fær ekki að sjá réttarhöldin í Landsdómi í beinni útsendingu í sjónvarpi . Fréttastjóri Ríkisútvarpsins óskaði ekki eftir leyfi til beinna útsendinga fyrr en eftir að dómurinn var tekinn til starfa. Þá var of seint í rassinn gripið, eins og sagt er. Sé þetta rétt er það enn eitt einkennið um alvarlega veikleika í yfirstjórn Ríkisútvarpsins. Einhversstaðar væru menn færðir til í starfi eða látnir fjúka af veigaminni sökum, ef satt er.
DV greinir einnig frá því sama dag að almannatengillinn Gunnar Steinn Pálsson hafi verið einkabílstjóri Hreiðars Más Sigurðssonar er hann yfirgaf Þjóðmenningarhúsið á svörtum eðaljeppa eftir að hafa verið yfirheyrður í Landsdómi. Sami Gunnar Steinn var einn helsti skipuleggjandi fyrstu kosningabaráttu Ólafs Ragnars á sínum tíma. Fullyrt hefur verið í eyru Molaskrifara að sá hinn sami hafi átt sinn þátt í að koma undirskriftasöfnun Ólafs Ragnars á koppinn fyrir nokkrum vikum, hvort sem það er nú satt eður ei.. Svona eru tengsl útrásarvíkinga, umba þeirra og forseta Íslands með margvíslegum hætti. Gunnar Steinn hefur oftlega verið kallaður maðurinn sem gerði Ólaf Ragnar að forseta.
Það er rétt sem kom fram hjá Vilhjálmi Bjarnasyni í Silfri Egils að sumir nefndarformenn á Alþingi eru farnir að haga sér og bera sig til í fréttum eins og þeir séu ráðherrar eða ráðaherraígildi. Þetta er óþörf nýbreytni sem ráðherrarnir í ríkisstjórn Íslands eiga ekki að láta viðgangast. Þetta var einkar áberandi í fréttum á mánudag (12.03.2012)
Hrósa ber fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir það að útvarpsfréttir hefjast nær undantekningarlaust á réttum tíma svo ekki skakkkar einni sekúndu. Molaskrifari sannreynir þetta oft með því að hlusta samtímis á útvarpsfréttir og sjónvarpsfréttir BBC World eða BBC One. Upp á sekúndu samstíga. Öruggt að stilla klukkuna eftir því. Þetta gildir hinsvegar ekki um Ríkissjónvarpið í sama mæli , því þar raska íþróttaþættir og auglýsingar oft réttu upphafi frétta.
Þessu væri þó vandalaust að breyta ef vilji væri fyrir hendi. Bara nota sömu klukku og útvarpið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar