Auglýsingastofur eiga að vanda málfar í auglýsingum. Í Fréttatímanum (16.03.2012) er heilsíðuauglýsing frá íslenskum grænmetisframleiðendum. Við hana er margt að athuga. Þar er hvatt til þess að plastkössum sem notaðir eru undir grænmeti sé skilað. Í auglýsingunni segir: Ef þú skilar honum heilu og höldnu verða engir eftirmálar. Þetta er bull. Það er ekki hægt að skila kassa heilu og höldnu. Það er hinsvegar hægt að skila honum óskemmdum, heilum , óbrotnum og það er líklega það sem átt er við. Eftirmáli er sérstakur kafli í bókarlok, eftir að meginmáli bókar er lokið. Eftirmál eru hinsvegar afleiðingar einhvers sem gert er. Textahöfundur sem ekki gerir greinarmun á eftirmála og eftirmálum er ekki starfi sínu vaxinn. Þessi setning hefði verið betri svona: Ef kassanum er skilað óskemmdum verða engin eftirmál. Í auglýsingunni er líka talað um að stafla kassa. Það er hægt að stafla kössum en engin leið er að stafla einum kassa! Þar segir líka : Kassinn er grænn (síðast þegar sást til hans). Betra hefði verið: Kassinn var grænn síðast þegar sást til hans. Íslenskir garðyrkjubændur framleiða góðar vörur. Þeir eiga ekki að spilla fyrir sér með því að birta svona subbulegar auglýsingar. Hönnun þessarar auglýsingar hefur örugglega kostað garðyrkjubændur drjúgan skilding. Textahöfundur og prófarkalesari hafa ekki unnið fyrir kaupinu sínu.
Ekki veit molaskrifari hve margir hlusta á XA útvarpsstöðina, sem sendir út á tíðninni FM 88,5 . Stöðin er greinilega á vegum AA- samtakanna og sendir út það sem kallað er ,,tólf spora efni,” – um leiðir til að hjálpa fólki til að takast á við áfengisfíkn eða annan vímuefnavanda. Talsverður hluti af dagskránni er á ensku, – og eru gæðin þar svona upp og ofan. Töluvert er einnig lesið úr bókum AA samtakanna. Þar málfar einstaklega vandað og efnið mjög vel flutt. Aðrar stöðvar gætu tekið sér þetta til fyrirmyndar. Að ósekju mætti kynna þetta efni betur.
Tveir mennirnir eru nú yfirheyrðir var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.03.2012). Betra hefði verið að segja. Mennirnir tveir eru nú í yfirheyrslu, – eða; verið er að yfirheyra mennina tvo.
Segir ríkisstjórnina hafa misfarist allt sem hún hefur tekið sér fyrir hendur, segir í fyrirsögn á eyjan.is (15.03.202) og er þetta haft eftir Helga Magnússyni fráfarandi formanni Samtaka iðnaðarins. Þegar betur er lesið sést að Helgi hefur alls ekki orðað hugsun sína jafn klúðurslega og eyjan.is segir. Helgi segir að allt hafi misfarist sem ríkisstjórnin hafi tekið sér fyrir hendur. Það er málfræðilega rétt orðað hvort sem menn eru sammála Helga eður ei. Fyrirsögnin á eyjan.is er hins vegar vanhugsuð og illa samin.
Framkvæmdir hófust í janúar síðastliðinn, segir í frétt í Morgunblaðinu (16.03.2012). Þarna hefði átt að standa: Framkvæmdir hófust í janúar síðastliðnum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
3 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorgeir Tryggvason skrifar:
18/03/2012 at 18:02 (UTC 0)
Rétt er það, Íslenska auglýsingastofan mun þetta vera.
Eiður skrifar:
17/03/2012 at 17:58 (UTC 0)
Þakka þér skrifin Þorgeir. Rétt er að margir auglýsingahöfundar eru prýðilega máli farnir. Ég vissi ekki af þessari merkingu sem þú nefnir, en með því að nota stækkunargler er unnt að lesa eftirfarandi á vinstri spássíu. Letrið er svo smátt að það er eins og fólki sé alls ekki ætlað að lesa það. En mér sýnist standa þarna: ISLENSKA.SIA.IS SFC 58736 03/12 Ég er eiginlega jafn nær! Nema hvað 03/12 þýðir líklega mars 1912. Islenska ? Er þetta Íslenska auglýsingastofan? Af hverju ekki að gangast við króanum undir fullu nafni fyrirtækisins. Af jverju að merkja auglýsingu með ólæsilegu letri og hálfgerðu dulnefni. það skil ég ekki .
Þorgeir Tryggvason skrifar:
17/03/2012 at 17:13 (UTC 0)
Sæll Eiður
Allt er þetta satt og rétt með skilin á grænmetiskössum. Hins vegar er óþarfi að tjarga okkur sem vinnum við auglýsingaskrif öll með þeim pensli.
Auglýsingar í blöðum eru alla jafnan merktar auglýsingastofum. Það er gert með smáu letri lóðrétt á öðrum hvorum jaðri auglýsingarinnar. Sé engin merking er rétt að líta svo á að auglýsandinn sjálfur beri fulla ábyrgð á auglýsingunni.
Ég held reyndar að málfar á auglýsingaefni sé almennt nokkuð gott, nema þegar villum, talmáli og slíku er beitt á vísvitandi hátt. Um það má svo deila, en í sjónvarpsauglýsingum t.d. má alveg rökstyðja að leyfilegt sé að fólk tali eins og … ja, fólk talar.
Flest fyrirtæki sem skipta við auglýsingastofur eru mjög meðvituð um og viðkvæm fyrir að vont mál birtist undir þeirra nafni – réttilega og sem betur fer.