«

»

Molar um málfar og miðla 864

Úr frétt á mbl.is (18.03.2012): Mikið frost var á hálendinu og fór frost í Veiðivatnahrauni upp í 24 stig, en þar var kaldast í nótt. Frost fer ekki upp í 24 stig. Heldur niður í 24 stig. Kannski hefur sá sem þetta skrifaði aldrei séð nema stafrænan hitamæli, ekki mæli þar sem núllpunkturinn er nokkurn veginn við miðju súlunnar.

Vinur Molaskrifara bendir á eftirfarandi úr Fréttablaðinu (19.03.2012) Myndin segir frá Leenu sem fær óvænt símtal frá móður sinni sem liggur á banalegunni…… Molaskrifari þakkar sendinguna. Gott dæmi tilfinningaleysi fyrir tungunni. Annar vinur Mola spurði hvort þessi banalega gæti átt eitthvað skylt við kúlulegurnar frá Poulsen?

Mannbjörg varð þegar tveimur belgiskum ferðamönnum var bjargað í nótt, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (18.03.2012). Tveimur belgiskum ferðamönnum var bjargað í nótt., hefði verið eðlilegra mál. Ennfremur var ekki til fyrirmyndar að segja að mönnunum hafi verið flogið til Hafnar. Þyrla flutti mennina til Hafnar í Hornafirði.

Gott hjá Jóni Magnússyni fv. þingmanni að leiðrétta hina hvimleiðu málvillu að tala um að forða tjóni, eins og einn þátttakenda sagði í umræðunum í Silfri Egils (18.03.2012) , þegar átt er við að koma í veg fyrir tjón.

Lesandi sendi eftirfarandi (18.03.2012): ,,Ég hef sent þér tvisvar eða þrisvar ábendingar þegar mér hafa ofboðið ambögur krakkanna sem vinna á fréttastofunum.
Leit á textavarpið áðan þar var sagt frá því að þurft hafi tvær kosningar vegna kjörs 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins.” Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fólk er miklu upplýstara en flestir gefa þeim kredit fyrir, sagði Birgitta Jónsdóttir alþingismaður í fréttum Stöðvar tvö (18.03.2012) þegar verið var að segja frá stofnun nýrra stjórnmálasamtaka sem eiga að fækka stjórnmálaflokkum. Þessi nýju samtök mættu gjarnan hafa málvöndun á stefnuskrá sinni. Fólk er almennt betur upplýst en flestir telja, hefði þingmaðurinn til dæmis getað sagt.

Stöð tvö sagði frá uppskeruhátíð tónlistarskólanna í Hörpu (18.03.2012).Þar sem ungt fólk iðkaði tónlist. Sá atburður fór algjörlega framhjá Ríkissjónvarpinu.

MH sigraði heildarkeppnina var sagt í fréttum Stöðvar tvö (18.03.2012).

Í frétt á visir.is (18.03.2012)um aðstoð við að fylla út framtalseyðublöð var sagt: Meirihluti þeirra sem þurftu aðstoð var útlendingar. Betra: Meirihluti þeirra sem þurftu aðstoð voru útlendingar. Og:. Það hefur gengið rosalega vel, gengið hratt fyrir sig og við náð að aðstoða fleiri en við hefðum nokkurntíma óskað, segja stelpurnar. Líklega er hér átt við: Okkur tókst að aðstoða fleiri en okkur hafði órað fyrir. Meira úr sömu frétt: Almennur skilafrestur á skattframtölum er á fimmtudaginn … Skilafrestur er ekki á fimmtudaginn. Betra hefði verið að segja: Almennur skilafrestur rennur út á fimmtudag, eða: Almennur skilafrestur er fram til fimmtudags.

Hagkerfið er að blæða út, sagði hagfræðingur í fréttum Stöðvar tvö (19.03.2012). Líklega mættu sumir hagfræðingar bæta aðeins við sig í málfræði.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>