«

»

Molar um málfar og miðla 867

Gísli Sigurgeirsson sendi Molum eftirfarandi bréf (20.03.2012): ,,Heill og sæll – og bestu þakkir fyrir pistlana þína.
Ungur tónlistarmaður náði að koma frá sér eftirfarandi gullkornum í viðtali á Rás 2 á dögunum: Það eiga mörg vötn eftir að renna til sjávar ….,Ágreiningar hafa verið lagðir til hliðar… ,Styrjaldir fóru á hliðina…Þegar hér var komið slökkti ég á tækinu og lái mér hver sem vill.
Ég velti aðeins fyrir mér Björgu og björginni. Það pirrar mig hvernig fjölmiðlamenn fara með ágætt samheiti björgunarsveitanna, Landsbjörg, eins og um kvenmannsnafn sé að ræða. Við drögum ekki björgu í bú, eða hvað? Ég heyrði Brodda snilling frá Silfrastöðum leiðrétta þetta í kynningar- ,,svuntu“ í gær, en síðan tók fréttabarn við þræðinum og setti á hann ótal hnökra!
Kveðja góð
Gísli Sigurgeirsson – Molaskrifari þakkar Gísla bréfið.

Sprengjubrot þustu í allar áttir , sagði í texta í fréttatíma Stöðvar tvö (20.03.2012). Þarna hefði átt að segja , – sprengjubrot þeyttust í allar áttir. Í þessum sama fréttatíma kom í ljós að fréttamaður sem sagði frá auðu verslunarhúsnæði við Laugaveg veit ekki að húsnæði er hvorugkynsnafnorð sem aðeins er til í eintölu. Það var raun að heyrast stúlkuna klæmast á þessu.

Þorkell sendi Molum eftirfarandi (20.03.2012): Týnir ekki upp óhreina sokka forsetans
http://www.visir.is/tynir-ekki-upp-ohreina-sokka-forsetans/article/2012120329976
Fyrirsögn á visir.is
Af lestri fréttarinnar má ráða, að sú ágæta kona Michelle Obama tíni sokka forsetans ekki upp af gólfunum í 1600 Pennsylvania Avenue í Washington. Reglurnar um ypsilonið blessað hafa löngum vafist fyrir landanum og efalítið verður svo áfram. Lakast er þegar merking orða gjörbreytist eftir því hvort notað er einfalt ,,i“ eða ,,í“ ellegar ypsilon. Annað þekkt dæmi er leiti og leyti, sem er sitt hvað eins og við báðir vitum. – Molaskrifari þakkar sendinguna.

Fréttamenn vitna svo oft í orð Halldórs Laxness um að bráðum komi betri tíð með blóm í haga að það fer eiginlega um mann hálfgerður aulahrollur í hvert skipti sem þetta er sagt í fréttum. Einhver slitnasta klisja sem um getur. (Kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins 20.03.2012)

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>