«

»

Molar um málfar og miðla 890

Í dag fékk þjóðin að sjá alveg nýja hlið á rómaðri íslenskri gestrisni. Íslenskir stóreignamenn , með forstjóra og fulltrúa Morgunblaðsins í broddi fylkingar bönnuðu forsætisráðherra Íslands og gesti forsætisráðherrans Wen Jiabao forsætisráðherra Kína að skoða Kerið í Grímsnesi. Forstjóra Morgunblaðsins og félögum hans er nefnilega illa við ríkisstjórn Íslands og ríkisstjórn Kína. Þessvegna máttu þeir ekki skoða þessa náttúruperlu. Molaskrifari er á því að þessi fáránlega framkoma réttlæti að Kerið verði tekið eignarnámi og það verði gestum og gangandi aðgengilegt í framtíðinni að teknu tilliti til eðlilegra verndarsjónarmiða. Kannski stefna þeir félagar á frekari landvinninga. Hvernig væri til dæmis að kaupa Ásbyrgi og loka því fyrir öllum nema þeim sem landeigendur hafa velþóknun á? Þessi framkoma var fjármálafurstunum til skammar.

Í upphafi sexfrétta Ríkisútvarpsins (18.04.2012) var sagt: Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Aroni Karlssyni, syni Kalla í Pelsinum… Syni Kalla í pelsinum! Eiga allir landsmenn að þekkja þann mann? Hversvegna þurfti að ættfæra þann sem ákærður var ? Stundum er eins og skorti verkstjórn á þessari fjölmennustu ritstjórn landsins. Til hvers er fréttastjóri? Við höfum reyndar heyrt svona ættfærslur í fréttum Ríkisútvarpsins áður, muni Molaskrifari rétt. Það var þegar greint var frá skipun Þorsteins Davíðssonar í dómaraembætti. Þá var sérstaklega tekið fram að hann væri sonur Davíðs Oddssonar. Þetta er með ólíkindum.

Náði að forða stórslysi segir í fyrirsögn á dv.is (19.04.2012) um bílstjóra sem með snarræði og yfirvegun kom í veg fyrir slys þegar honum tókst að halda rútu með 68 ungmenni innanborðs á réttum kili þegar bremsurnar biluðu. Molaskrifari er á því að hér hefðu betur farið á að segja: Kom í veg fyrir stórslys. Ríkissútvarpið notaði sama orðalag og dv.is og bætti um betur og sagði að rútan hefði misst bremsurnar. Í fréttum Stöðvar tvö (19.04.2012) Var sagt: … þegar hemlar biluðu. Gott orðalag.

Alvarleg mistök áttu sér stað á Rás eitt í Ríkisútvarpinu að morgni fyrsta sumardags. Þá er fastur liður að leika vor- og sumarlög milli klukkan átta og níu. Þetta er hluti af sumardeginum fyrsta. Meðal annars sungu Tryggvi Tryggvason og félagar nokkur kunn lög og var það allt samkvæmt venju. Þeim ágæta þul Atla Frey Steinþórssyni varð það hinsvegar á að segja tvisvar, ef ekki oftar, að hljóðritun tónlistarinnar sem flutt var hefði verið gerð í Ríkisútvarpinu. Nú er útvarpsstjóri, eða yfirstjórn Ríkisútvarpsins, sem kunnugt er búinn að bannfæra orðið Ríkisútvarp. Enda þótt það sé heiti stofnunarinnar að lögum. Það heyrist ekki lengur á öldum ljósvakans, – heldur heitir stofnunin Rúv. Stundum heitir hún reyndar líka félagið í munni ráðamanna í Efstaleiti! Hér hefði þulur því átt að segja að hljóðritunin hefði farið fram hér (hikk) á Rúv, eins og dynur í eyrum sjónvarpsáhorfenda svona tíu- fimmtán sinnum á kvöldi. Þetta er auðvitað alvarlegt mál. Molaskrifari hefur að auki grun um að um ítrekað ,,brot” sé að ræða sem gerir málið enn alvarlegra. Útvarpsstjóri hlýtur að grípa til sinna ráða. Það er ekki hægt að láta svona agabrot viðgangast.

Þetta fékk Molaskrifari sent:,,Sumir gera greinarmun á nauðlendingu og óhappi, sem verður við lendingu flugvélar. Síða er spurning hvað er að hnekkjast á? (hlekkjast??)“
Innlent | mbl | 18.4 | 18:54Nauðlending á Reykjavíkurflugvelli Lítil flugvél nauðlenti á Reykjavíkurflugvelli nú fyrir stundu. Enginn slasaðist.
Molaskrifari þakkar sendinguna.

Breivik var að uppfylla fantasíu, segir í fyrirsögn á mbl.is (18.04.2012). Ekki vel orðað.

Fíkniefni á grænlenskum togara, sagði í fyrirsögn á mbl.is (19.04.2012). Hér hefði farið betur á að segja: Fíkniefni í grænlenskum togara.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það hefði verið eðlilegt að segja að þeir feðgar hefðu sætt rannsókn, en ófaglegt að tala um Kalla´í Pelsinum. Stend við það. Þetta vekur annars spurningar um nafnbirtingar´t.d. í þeim tilvikum þar sem menn aðeins sæta rannsókn en eru ekki ákærðir.

  2. Jón H. Brynjólfsson skrifar:

    Sæll, Eiður.

    Mér finnst þetta einkennileg skrif um ættfærslurnar, sem þú kallar svo, í Ríkisútvarpinu. Kannski hefði farið betur á því að kalla Kalla í Pelsinum fullu og réttu nafni en engu að síður er þetta landsþekktur maður sem er jafnan kallaður þetta. Málið snýst um það að þeir feðgar voru báðir til rannsóknar í málinu, eins og margoft hefur komið fram, þótt aðeins sonurinn væri á endanum ákærður. Mér hefði fundist það léleg fréttamennska að láta föðurins í engu getið þarna.

    Hitt hefði mér þótt enn verri fréttamennska, ef þess hefði ekki verið getið að Þorsteinn Davíðsson er sonur Davíðs Oddssonar. Davíð er og var ekki hver sem er og því var haldið fram að Þorsteinn hefði verið skipaður í embættið vegna þess hver faðir hans var. Er ósköp auðvelt að skilja hvernig mönnum datt það í hug þar sem Þorsteinn kom ekki vel út úr hæfnismati á sínum tíma i samanburði við aðra umsækjendur. Faðernið var sem sagt fréttin – og fréttin snerist um klíkuskap og spillingu – hvort sem eitthvað var hæft í því eða ekki. Átti þá að láta eins og ekkert væri og nefna ekki Davíð? Það hefði að sjálfsögðu verið út í hött, hreinlega handónýt fréttamennska og afskaplega einkennileg tillitssemi við þessa feðga.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>