Hefur Ríkissjónvarpið sýnt okkur fréttaskýringaþætti um forsetakosningarnar í Frakklandi? Ekki minnist Molaskrifari þess. Fréttaskýringar af erlendum vettvangi og heimildamyndir eiga ekki upp á pallborðið hjá Ríkissjónvarpinu. Það er miður.
Skiljanlega hafa listamenn á Akureyri brugðist illa við kjánaskap forstöðumanna Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri þegar plastmál með varalit var keypt á 105 þúsund krónur. Það var menningarstofnunin Ríkisútvarpið sem stóð fyrir uppboðinu á plastmálinu. Þessi stofnun allra landsmanna ætti að hafa þá sómatilfinningu til að bera að standa ekki að svona bjánagangi.
Stundum er erfitt að skilja alþingismenn. Í einu af óteljandi andsvörum í málþófi (17.04.2012) sagði þingmaðurinn Ásbjörn Óttarsson að ráðherrakapallinn um áramótin hefði verið algjör frasi. Þetta er illskiljanlegt en með góðum vilja má ætla að þingmaðurinn hafi átt við farsa (grínleik) en ekki frasa (orðatiltæki). Menn eiga ekki að sletta nema skilja sletturnar.
Beygingarfælni var það þegar þulur með hestamynd í Ríkissjónvarpinu (18.04.2012) talaði um Leó á Ormur frá Sigmundarstöðum. Leó á Ormi frá….
hefði verið betra.
Ekki hlegið af Clippers lengur, segir í fyrirsögn á visir.is (17.04.2012). Talað er um að hlæja að einhverju, ekki af einhverju.
Vatíkanið ávítir róttækar nunnur, segir í fyrirsögn á mbl.is (19.04.2012). Ætti að vera: Vatíkanið ávítar róttækar nunnur.
Ranglega var ritað á skjá Ríkissjónvarps (18.04.2012) að bókmenntaþátturinn Kiljan hæfist klukkan 20 05. Rétt var að þátturinn átti að hefjast klukkan 21 05. Engin leiðrétting. Engin afsökun. Ekki frekar en venjulega.
„Núna finnst mér hann gjörsamlega vera að fríka út”. Svona orðaði formaður Framsóknarflokksins hugsun sína að sögn DV. Hann var að tala um utanríkisráðherra. Hann vandar málfar sitt flokksformaðurinn.
Dauðarefsing er ekki í boði í Noregi, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (18.04.2012). Það var og. Í sama fréttatíma var sagt að Laugardalslaugin í Reykjavík yrði opnuð fyrir almenningi á morgun. Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja að laugin yrði opnuð fyrir almenning eða opnuð almenningi á morgun.
Sýrlendingar svíkja vopnahléið, segir í fyrirsögn á mbl.is (19.04.22012). Eðlilegra væri að segja: Sýrlendingar rjúfa vopnahléið.
Í auglýsingum í Ríkisútvarpi frá bílasölunni Heklu (18.04.2012) var ítrekað sagt á Stykkishólmi. Föst málvenja er að segja í Stykkishólmi. Engin ástæða er til að breyta því. Ef einhver döngun væri í auglýsingadeild Ríkisútvarpsins væri svona lagað leiðrétt áður en það er lesið fyrir alþjóð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
21/04/2012 at 00:08 (UTC 0)
Svo vildi til Kristján að ég sá þessa mynd líka og hef nefnt hana hér. Heimildamyndir eru ekki innan sjónsviðs eða áhugasviðs þeirra sem ákveða hvað sýnt er í Ríkissjónvarpinu. Það er ekki gott því sjónvarp er öflugur fræðslumiðill.
Kristján skrifar:
20/04/2012 at 18:13 (UTC 0)
Ég sá athyglisverða heimildarmynd um Bobby Fischer á skandinavískri stöð um daginn. Þar kemur Ísland auðvitað við sögu. Sú mynd hefur ekki verið sýnd, hér á RÚV, eða hvað ? Það hafa ekki allir aðgang að erlendu stöðvunum.