Þau vinnubrögð fréttastofu Ríkisútvarpsins að skýra frá flugóhappi á Reykjavíkurflugvelli (18.04.2012) og tilgreina tegund flugvélarinnar, áður en vitað var hve margir voru um borð í flugvélinni eða hvort alvarleg slys hefðu orðið á fólki, orka mjög tvímælis, að ekki sé meira sagt. Það var ekki fyrr en í lok fréttatímans að fram kom að tveir voru um borð í flugvélinni og sluppu báðir ómeiddir. Í rauninni eru þetta vítaverð vinnubrögð. Þegar um fréttir af slysum er að ræða er kapp best með forsjá. Í gamla daga var fréttamönnum kennt að fara mjög varlega í þessum efnum. Sú regla er ekki í heiðri höfð hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Nýlega var hér vikið að auglýsingu um lyf sem fullyrt var að bætti minni fólks. Í fréttum Stöðvar tvö (16.04.2012) var vakin athygli á auglýsingu frá fyrirtæki sem kennir sig við hópkaup. Þar var boðið upp á það sem kallað var blóðrannsókn og var sagt boðið á hálfvirði. Rætt var við sérfræðing í blóðmeinafræðum sem sagði fullyrðingar í þessari auglýsingu ekki standast neina skoðun. Gott hjá Stöð tvö, en athygli vöktu daufar undirtektir landlæknisembættisins. Það á vara neytendur við blekkingum og sölumannum snákaolíu sem stundum eru svo nefndir, – þeir sem selja ónýta vöru með gylliboðum.
Í fréttatíma Ríkissjónvarps (16.04.2012) var sagt frá nýrri ofurtölvu sem ræst hefði verið í Hafnarfirði (Endalok Hafnarfjarðarbrandaranna?) Í lok fréttarinnar var sagt að tölvan næði við mestu afköst 30 (eða 35) teraflops. Óinnvígðir áhorfendur voru engu nær. Þarna vantaði skýringu eða samanburð við eitthvað sem flest okkar þekkja. Það vantaði viðmið.
Ekki horfir Molaskrifari mikið á sjónvarpsstöðina ÍNN. Kemur þó fyrir að hann lítur á hvað þar er á boðstólum. Dagskráin höfðar sjaldnast til hans. Þó eru þar tvær nýlegar undantekningar. Í fyrra skiptið var verið að sýna mynd um íslenska náttúru, hálendið og fjalla um hvernig mætti bæði njóta landsins og nýta það til ferðalaga og veiðimennsku. Það sem Molaskrifari sá af þessari mynd var vel gert og áhugavert. Í síðara skiptið var verið að sýna prýðilega gerða mynd og fróðlega um ferðalag nokkurra Íslendinga um Kenýa. Þess var getið í lokin að myndin væri á vegum Ferðaskrifstofunnar Vita og skilmerkilega sagt frá tökumanni og þátttakendum. Engar slíkar upplýsingar komu hinsvegar á skjáinn í lok íslensku hálendismyndarinnar og var það miður. Það var hinsvegar hálf hallærislegt þann 16. apríl að auglýsa páskaferð til Írlands 4. til 9. apríl !
Allir að einbeita sér að því að eksekjúta sitt hlutverk, heyrðum við körfuboltaþjálfara segja við liðsmenn sína í fréttum Stöðvar tvö (16.04.2012). Getur vart talist til fyrimyndar
Friðrik þakkar Molaskrif og segir (16.04.2012): ,,iPod er þarfaþing. Mér hefur fundist vanta þjált og lýsandi orð yfir tækið. Sá á mjólkurfernu orðið tónhlaða, sem hugmynd, en fannst það þunglamalegt. Datt í hug hvort notast mætti við hlaðvarp, sem beygist eins og útvarp. Hef ekki séð það notað í þessu samhengi, þó svo kunni auðvitað að vera.” Hugmynd Friðriks er mér komið á framfæri. Molaskrifari hefur heyrt orðið hlaðvarp en er ekki alveg ljóst um hvað það hefur verið notað.
Hér var fyrir skömmu vikið að tveimur ferðum Molaskrifara til Norður Kóreu fyrir nokkrum árum. Í fréttum Ríkissjónvarps (16.04.2012) var sagt frá norður kóresku veitingahúsi sem opnað hefur verið í Amsterdam. Í ljósi reynslunnar mundi Molaskrifari forðast að seðja hungur sitt á þeim stað. Kaldar núðlur og logandi sterkt kimsje (kryddsúrsað Kínakál) eru ekki kjörréttir hans.
Gleðilegt sumar !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
19/04/2012 at 10:44 (UTC 0)
Rétt, Friðrik Smári.
Eiður skrifar:
19/04/2012 at 10:43 (UTC 0)
Molaskrifari gerir sér ekki grein fyrir hverju Snæbjörn er að vekja athygli á.
Snæbjörn Bj. Birnir skrifar:
19/04/2012 at 08:11 (UTC 0)
http://www.ruv.is/podcast
Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:
19/04/2012 at 01:05 (UTC 0)
Hvorki nafni minn né Molaskrifari hafa greinilega skoðað vefsvæði Ríkisútvarpsins sem skyldi. Uppi í hægra horni er flipi fyrir það sem kallað er hlaðvarp. Hlaðvarp er það sem á ensku er kallað Podcast.
Ég verð að mótmæla orðum nafna míns, enda þykir mér orðið tónhlaða alls ekki þunglamalegt og lýsa því afar vel hvaða tæki er um að ræða. Ég mæli með því að það verði notað um hvers kyns tónlistartæki sem hægt er að hlaða inn á tónlist. Gegnsætt og gott.
Þakka annars aftur, sem oftar, fyrir góða pistla.