Gaman var að horfa á vandaða samantekt Andrésar Indriðasonar um Sigfús Halldórsson í Ríkissjónvarpinu (15.05.2012). Lögin hans Sigfúsar eru perlur og hann gaf þjóðinni perlufesti, – langa. Molaskrifara þykir líklegt af því sem hann þekkir til að flestar eldri upptökurnar sem við sáum í þættinum séu úr þáttum sem öðlingurinn Tage Ammendrup sem starfaði hjá sjónvarpinu frá því það tók til starfa og til dauðadags bar ábyrgð á og tók upp. Hann stjórnaði upptökum á meira en þúsund þáttum sem margir eru nú ómetnalegar samtímamyndir og menningarperlur í merkilegu safni Sjónvarpsins. Kannski var þarna til dæmis eina myndupptakan sem til er af Kristjáni Kristjánssyni óperusöngvara þar sem hann söng í Austurstræti og Sigfús var við píanóið. Þetta var góð skemmtan. Þökk þeim sem þar að stóðu.
– En svo má taka undir með þeim sem spurt hafa: Hvaða efni er Ríkissjónvarpið nú að sýna sem gefur svipaða samtíðar mynd og þættirnir hans Tage? Því er líklega fljótsvarað.
Margtuggið var í fréttum Ríkissjónvarps (15.04.2012) að dómari í íþróttakappleik hefði angað af áfengisfýlu. Fyrst notaði fréttaþulur þetta orðalag, síðan fréttamaður og loks sá sem rætt var við. Algengt er að tala um að menn angi af áfengi, en undarlega finnst Molaskrifara til orða tekið þegar talað er um að menn angi af áfengisfýlu !
Sighvatur Bjarnason sendi eftirfarandi (16.04.2012): ,,Á mbl.is í dag segir: Fyrstu lundar vorsins eru mættir til Vestmannaeyja.
Ég velti því fyrir mér hvort að eðlilegt sé að fjalla um dýr með þessum hætti þ.e. að þau mæti á tiltekin stað?
Eyjamenn tala reyndar um að ,,lundinn sé sestur upp“. – Molaskrifari þakkar sendinguna og bætir við, – ævinlega skal virða málvenju heimamanna þegar við verður komið.
Molaskrifari hefur áhyggjur af því að hann fylgist ekki nægilega vel með. Aftur og aftur og aftur talar Egill í Silfrinu um skrif eða mál sem hafi vakið mjög mikla athygli og Molaskrifari hefur hvergi heyrt minnst á eða vikið að. Annað hvort fylgist hann mjög illa með eða Egill notar einhverjar mælistikur honum óþekktar.
Á fréttavef dv.is (16.04.2012) er mynd af farþegaþotu sem merkt er farðmiðasalanum Iceland Express og undir myndinni stendur: Nauðlending í London. Þetta er villandi. Tafir urðu á flugi á vegum farmiðasalans Iceland Express þar sem þota frá Virgin flugfélaginu þurfti að nauðlenda á flugvelli í grennd við London.. Þessvegna þurfti vélin frá Iceland Express að lenda á öðrum flugvelli en til stóð. Nauðlendingin var Iceland Express óviðkomandi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
4 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
18/04/2012 at 09:47 (UTC 0)
Það þótti mér líka, Sverrir. Og ekki einu sinni, heldur tvisvar eins og þú segir. Láðist að nefna þetta.
Sverrir Friðþjófsson skrifar:
18/04/2012 at 09:44 (UTC 0)
Stórskemmtilegur þáttur – en vont fannst mér að sjá á skjánum Vilhjálmur frá Skálholti – í staðinn fyrir Skáholti – og það í tvígang.
Eiður skrifar:
17/04/2012 at 21:53 (UTC 0)
Satt segirðu.
Kristján skrifar:
17/04/2012 at 19:11 (UTC 0)
Já,þátturinn um Sigfús var stórskemmtilegur. Gaman var að fylgjast með fólkinu í Austurstræti þegar Kristján söng um Hönnu litlu. Mun áhugaverðara en margt annað sem boðið er upp á, hér á RÚV, t.d. Andraland og ruslþættir frá USA.