«

»

Molar um málfar og miðla 891

Maður sem rætt var við á Bylgjunni ( 21.04.2012) talaði um að bera í barmafullan lækinn. Þetta virðist vera að breiðast út því nýlega vakti Molalesandi athygli á þessari afbökun. Þetta er í anda Bibbu á Brávallagötunni sem leikkonan ágæta Edda Björgvins gerði fræga á sínum tíma. Við tölum um að bera í bakkafullan lækinn, en segjum hinsvegar, – glasið er barmafullt. Barmur á glasi, lækjarbakki.

Úr mbl.is (21.04.2012) : Strokkur gaus fyrir Wen og og Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Geysi nú skömmu fyrir hádegi.. Ekki er Molaskrifari sáttur við forsetninguna á þegar talað er um frægasta goshver heims, Geysi. Raunar eru orðin á Geysi öldungis óþörf í þessari setningu.

Það er jafnan talið fremur lítilmótlegt í rökræðum þegar farið er að tala um líkamsvöxt, hvort menn séu litlir eða stórir, feitir eða mjóir, svo og þegar farið er að uppnefna fólk. Það er yfirleitt til marks um rökþrot, málefnalega uppgjöf. Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sunnudaginn 22. apríl er stækkunarstjóri Evrópusambandsins Stefan Füle kallaður Stefán fúli. Þetta eru rök Morgunblaðsins í umræðunum um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Stundum er Mogginn eins og hortugur strákur á málfundi í fyrsta bekk gagnfræðaskóla í gamla daga. Þetta er ekki fyndið. Mogginn er orðinn verri en gamli kommúnistaþjóðviljinn var, þegar hann var hvað verstur.

Visir.is (21.04.2012): Ölvaður klessti á ljósastaur … segir í fyrirsögn. Barnamálið blómstrar í sumum vefmiðlum.

Maður getur varla orða bundist yfir snilld þeirra sem setja saman dagskrá Ríkissjónvarpsins. Enn einu sinni. Það er laugardagskvöld (21.04.2012) . Fyrst er lapþunnur Evróvisjóngrautur ( Þetta er beautiful song , fallegt lag , sagði einn snillingurinn þar) í tæpan klukkutíma. Síðan söngkeppni skólanema, – ágætt sjónvarpsefni á síðdegi eða fyrir hádegi á sunnudegi, – ekki á laugardagskvöldi. Ekki boðlegt.

Aðalfyrirsögn í heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu (21.04.2012) er Hágæða húvörur. Verið að auglýsa krem sem ætluð eru til að bera á húðina. Undarlegt hvernig svona villa í fyrrisögn með stóru letri kemst alla leið á prent.

Á vef Ríkisútvarpsins er að finna reglur um fréttir og dagskrárefni tengt þeim. Þessar reglur virðast hafa verið hátíðlega undirritaðar af Páli Magnússyni útvarpsstjóra 1. maí 2008.
Í upphafi reglnanna segir: Útvarpsstjóri setur starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem vinna að fréttaskrifum, fréttaflutningi og tengdu dagskrárefni eftirfarandi reglur:
Í 8. tölulið þessara reglna segir svo:
„Beinar auglýsingar mega ekki birtast í fréttum og fréttatímum. Varast skal óbeinar auglýsingar í fréttum og öðru dagskrárefni. Öllum sem lúta eiga þessum reglum er óheimilt að taka þátt í auglýsingum, kynningar- eða almannatengslastarfi fyrir aðra en Ríkisútvarpið. (Leturbreytingin er mín)”
Hversvegna lætur útvarpsstjóri það viðgangast að Andri Freyr Viðarsson sem annast fréttatengdan þátt á Rás tvö fimm daga vikunnar og vikulegan fréttatengdan þátt í Ríkissjónvarpinu komi fram í auglýsingum í sjónvarpi (til dæmis 22.04.2012). Það er einkar óheppilegt hjá stofnun eins og Ríkisútvarpinu að reglur skuli settar sem síðan eru þverbrotnar í allra augsýn. Þá er eins gott að afnema reglurnar. Um sumt er eins og stjórnleysi ráði ríkjum í þessari mikilvægu þjóðarstofnun.

Frakkar gengu að kjörborðinu í morgun. var sagt í tíufréttum Ríkisútvarpsins (22.04.2012). Eðlilegra hefði verið að segja í fréttum að morgni kjördags í Frakklandi: Frakkar ganga að kjörborðinu í dag.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Það er margt skrítið í kýrhausnum, Brandur.

  2. Brandur Fróði Einarsson skrifar:

    Fólk er farið að tala um að upplifa og endurupplifa. Hvernig er það hægt?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>