«

»

Molar um málfar og miðla 892

Skrifað er á pressan.is (22.04.2012): Sænskur lögreglumaður sem stöðvaði ökumann sem ók án bílbeltis, stakk upp á að fá salat gegn því að sleppa að skrifa sektarmiða. Ökumaðurinn kærði lögregluna vegna atviksins. Hér hefði átt að standa: Ökumaðurinn kærði lögreglumanninn, ekki lögregluna.
Molalesandi sendi skrifara skjáskot af frétt í dv.is og undirstrikaði nokkrar villur. http://myndahysing.net/upload/201335115329.png. Það er ekki bara að fréttin sé illa skrifuð heldur er fréttin í ýmsum atriðum röng. Um það getur Molaskrifari borið því hann var meðal gesta í þessu kvöldverðarboði til heiðurs kínverska forsætisráðherranum. Í fyrsta lagi hófst kvöldverðurinn ekki klukkan hálf sex. Þetta átti að hefjast með ,, stuttri móttöku” klukkan hálf sex. Kínverski ráðherrann kom hinsvegar ekki fyrr en klukkan kortér yfir sex. Þá hófst kvöldverðurinn. Ráðherrann kom frá Bessastöðum í Kolabrautina. Hann hafði verið á eftir áætlun þangað og fór frá Bessastöðum seinna en ráð var fyrir gert. Flutningur óperunnar hófst ekki fyrr en klukkan átta. Þarna var því ekki um neinn árekstur að ræða. Í fréttinni segir: Wen Jiabao lét sér ekki segjast heldur stóð samkvæmt upplýsingum DV nánast upp á slaginu”. Forsætisráðherrann stóð upp og yfirgaf salinn um klukkan kortér yfir átta. Við sem erum að burðast við að kaupa DV eigum heimtingu á vandaðri vinnubrögðum en þetta. http://www.dv.is/frettir/2012/4/22/wen-jiabao-sleppti-eftirrettnum/
Tvennt virðist gestgjöfunum, þ.e. okkur hafa farist fremur klaufalega í sambandi við heimsókn forsætisráðherra Kína. Hið fyrra er að hafa ekki samband við forstjóra Moggans um að fá að skoða Kerið hans. Vitað er að auðmennirnir sem eiga Kerið höfðu fyrir löngu takmarkað þar aðgengi, það gerðu þeir að líkindum ólöglega, en þeir sætta sig vel við að Vegagerðin, við skattborgarar, stöndum straum af kostnaði við gerð bílastæða þar. Hitt var að ef fjórir kínverskir myndatökumenn höfðu einhverskonar forgang áttu fjórir íslenskir myndatökumenn að hafa sama rétt. Það er bara aumingjaskapur í samningum um fyrirkomulag heimsóknarinnar að ekki skyldi þarna jafnræði. Í samningum um svona mál skilja Kínverjar ekkert annað en að menn standi fastir fyrir, láti ekki beygja sig til að samþykkja bersýnilega ósanngjarnar kröfur. Molaskrifari þekkir það af eigin raun.
Dæmalaus nesjamennska og kjánaskapur í fjölmiðlum er það þegar talað er um Wen Jiabao forsætisráðherra Kína sem alveg sérstakan ,,vin” Ólafs Ragnars Grímssonar! Hvað ætli þeir hafi hist oft, tvisvar , kannski þrisvar?
Ríkissjónvarpið leggur gríðarmikla áherslu og mikla fjármuni í að auglýsa hina sjálfhverfu þætti sem stjórnandinn kennir við sjálfan sig af einstöku lítillæti og kallar Andraland. Svo mikið er kappið að sunnudaginn 22. apríl voru áhorfendur hvattir til að horfa á þáttinn á sumardaginn fyrsta! Sumardagurinn fyrsti var 19. apríl. Nema átt hafi verið sumardaginn fyrsta árið 2013?
Í auglýsingum Ríkisvarpsins (22.04.2012) voru auglýstar krúttlegar cupcakes. sem tiltekið bakarí hefur á boðstólum. Auglýsingadeildin brýtur reglur Ríkisútvarpsins, – enn einu sinni. Auglýsingar eiga að vera á íslensku.
Í fréttum Stöðvar tvö (22.04.2012) var tvísagt síðasta haust. Það er engu líkara en fjölmiðlamenn upp til hópa kunni ekki að segja í fyrra haust.
Á matseðlinum er humarsúpa og svo erum við með íslenskt lambalæri og svo erum við með grillaðan langreið, sagði Grímur … (mbl.is 22.04.2012) Vestmannaeyingar eru að halda veislu í Færeyjum. Rétt er að halda því til haga að langreyður er kvenkynsorð og skrifað með – y – . Langreið gæti hinsvegar verið langferð á hestum. Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa frétt ætti að vita vetur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>