«

»

Molar um málfar og miðla 893

Af mbl.is (23.04.2012). Fréttin er um karlakóramót á Ísafirði: Mótið tókst frábærlega vel að því er haft er eftir Harðari Högnasyni, formanni Heklunefndar, á Vestur.is, fréttavef Vestfjarða. Líklegra þykir Molaskrifari að umræddur maður heiti Hörður, frekar en Harður. – En hvað um það Hörður, harðari , harðastur. Mér er nú rétt sem ég sjái hann Matthías Johannessen ef það hefði verið lagt á hann í hans ritstjóratíð að lesa þessi ósköp í Netmogga. Þetta er reyndar ekki eina dæmið um að þeim sem skrifa mbl.is gangi illa að beygja mannanöfn. Í mbl. is (24.04.2012) stendur: Þverholtabúið var í eigu Jóhannes Kristjánsson athafnamanns í Lúxemborg, Ekki fleiri orð um það.

Á sunnudagskvöldið (22.04.2012) var sagt við okkur fjórum sinnum á tveimur mínútum með sömu tilgerðaráherslunum , hér (hikk) á RÚV, – er ekki mál að linni? Hvernig væri að fá góða þuli eins og Sigvalda Júlíusson eða Atla Frey Steinþórsson til að kynna dagskrá Ríkissjónvarps. Þeir eru frábærir þulir.
Afkastabloggari og álitsgjafi skrifar: Er eitthvert vit í að flytja inn poppara sem voru vinsælir einu sinni – mega sjálfsagt sjá fífil sinn fegurri – og gera varla annað en að spila gömlu lögin sín? Hér er farið rangt með alkunnugt orðtak. Að muna sinn fífil fegurri, eða hafa séð sinn fífil fegurri, – að hafa átt betri daga áður fyrr , hafa einu sinni verið vinsælir.
Aðalfyrirsögnin á forsíðu DV (23.04.2012) er: Sturla heldur heimili sínu. Hér er ruglað saman orðum. Hús er eitt. Heimili er annað. Manninum tókst að halda húsinu sínu, koma í veg fyrir að það yrði tekið af honum og selt á nauðungaruppboði. Molaskrifara hefur verið bent á að á vefnum www. Iceland.org er sagt að húseigandinn hafi bjargað húsinu frá nauðungaruppboði. Eðlilegast hefði e.t.v. verið að segja að húseigandinn hafi komið í veg fyrir nauðungaruppboð á húsinu.
Á forsíðu Fréttablaðsins (23.04.2012) segir: Gyða Katrín Guðnadóttir sigraði Eskimo/next-fyrirsætukeppnina sem haldin var í Hörpu … Þetta er algeng villa, – það sigrar enginn keppni. Það er hinsvegar hægt að sigra í keppni , vinna sigur í keppni.
Nú um stundir brestur allt á. Það er að bresta á að Geir komi hér inn, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (23.04.2012) í Þjóðmenningarhúsi þegar Geir H. Haarde var rétt ókominn. Koma hans var sem sé að bresta á! Eða var Geir að bresta á ?
Greinilegt er að BYKO og Húsasmiðjan eru að búa sig undir aukna samkeppni frá Bauhaus byggingavörurisanum sem innan skamms opnar verslun við Vesturlandsveg því bæði fyrirtækin auglýsa nú allt hvað aftekur. Bauhaus er líka í auglýsingaherferð og hún byrjar ekki vel. Byrjar með enskuslettum. Bauhaus auglýsir Drive-in timbursölu. Ef þetta nýja fyrirtæki hefði metnað til gera vel mundi það til dæmis geta auglýst. Bauhaus , – timbursala. Þú ekur í gegn.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>