Það þarf ekki löglærðan mann til að sjá hve undarleg Landsdómsmálaferlin gegn Geir H. Haarde voru. Leikmenn sjá það líka. Ferðin var hafin með miklum bægslagangi og margföldum sakargiftum. Þegar upp var staðið stóð eitt atriði eftir sem talið var saknæmt en ekki refsivert. Það var að Geir H. Haarde hefði viðhaft sama vinnulag og forverar hans á stóli forsætisráðherra.
Var ekki Ólafur Thors forsætisráðherra einum fimm sinnum? Hann hefur þá líklega oft gerst brotlegur rétt eins og þeir aðrir sem gegnt hafa þessu embætti. Var það ekki líka á sínum tíma talið nauðsynlegt vinnulag í svokölluðum vinstri stjórnum að leyna viðkvæmum upplýsingum í varnarmálum fyrir ráðherrum Alþýðubandlagsins? Ekki man ég betur. En það er svo sem engin afsökun að tína þetta til, – á það er auðvelt að fallast.
Það er rétt sem Össur Skarphéðinsson hefur sagt að þegar ljóst var að í það stefndi að Geir H. Haarde einn yrði sóttur til saka og stefnt fyrir Landsdóm hefði átt að gera fundarhlé á Alþingi og menn að reyna að ná áttum. Það er seint séð, en betur hefði það verið gert.
Upphaflega átti að stefna fjórum ráðherrum fyrir Landsdóm. Með klókindum í atkvæðagreiðslu sáu nokkrir þingmenn Samfylkingar til þess að fyrrverandi formaður þeirra flokks slyppi en Geir yrði einn látinn svara til saka. Skömm þeirra verður í minnum höfð.
Allir vita að í samsteypustjórnum eru formenn flokkanna sem stjórnina mynda jafnábyrgir fyrir stefnu og öllu starfi sinnar ríkisstjórnar. Þeir bera fulla og óskipta pólitíska og siðferðilega ábyrgð. Skiptir þá engu máli hvaða ráðherraembættum þeir gegna. Ábyrgðin er jöfn..Þessvegna bar formaður Samfylkingarinnar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nákvæmlega sömu ábyrgð og Geir H. Haarde. Ekki meiri, en heldur ekki minni. Hún slapp með skrekkinn eins og sagt er. Hennar fólk sá til þess.
Höfuðskömmin í öllu þessu máli og aðdragandanum er samt sú að þeir sem báru ábyrgð á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna hafa ekki verið látnir bera ábyrgð á því hneyksli. Þeir afhentu vildarvinum sínum , sem ekkert kunnu á banka nema að taka út úr þeim peninga, ríkisbankana. Og þeir tóku svo sannarlega út úr bönkunum eins og öll þjóðin veit. Þeir tæmdu þá.
Muna menn ekki að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í svokallaðri Einkavæðingarnefnd hafði þá sómatilfinningu til að bera á sínum tíma að segja sig úr nefndinni og gaf þá skýringu að hann hefði aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum? Hann þarf að segja okkur betur frá því. Honum ber borgaraleg skylda til þess. Vonandi eru ekki allir búnir að gleyma þessu.
Það var upphaf ógæfu og efnahagshruns hjá þessari þjóð að stjórnmálaforingjar afhentu vildarvinum sínum, sem voru óreiðumenn, ríkisbankana á silfurfati. Allt það mál er enn óuppgert. Því miður.
6 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
26/04/2012 at 11:55 (UTC 0)
Sem annar tveggja oddvita ríkisstjórnarinnar bar ISG fulla ábyrgð til jafns við Geir H. Haarde.
Birna skrifar:
26/04/2012 at 11:28 (UTC 0)
Kallast það ekki dylgjur þegar verið er að saka fólk um eitthvað en engin rök fylgja. Það gleymist alltaf í þessari umræðu að í rannsóknarskýrslu Alþingis var sagt að þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu sýnt vítaverða vanrækslu í starfi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var ekki ein af þeim. Einhverra ástæðna vegna ákvað samt þingmannanefndin að það ætti að ákæra hana líka og auðsjáanlega voru sumir sammála þeirri túlkun og sumir ekki. Ég hef aldrei skilið það hvers vegna er dylgjað um að þeir sem voru sammála rannsóknarskýrslunni höfðu pólitískt samráð um það í staðinn fyrir heilbrigða skynsemi og eigin dómgreind. Ég er mjög sammála rannsóknarskýrslunni í þessum efnum og það er alveg á hreinu að ekki er ég í pólitísku samráði. Mín sannfæring kemur vegna starfa Ingibjargar Sólrúnar sem ég tel að hafi alla tíð verið heilsteypt og heiðarleg og stöðu hennar í ríkisstjórninni þar sem hún var utanríkisráðherra. Hún var ekki staðgengill forsætisráðherra og hún fór ekki með efnahagsmál. Ég hef ekki enn séð haldbær rök fyrir því hvers vegna átti að ákæra ISG nema þau að hún var formaður Samfylkingarinnar og átti þess vegna að segja Björgvini fyrir verkum sem er eimmitt það sem er verið að gagnrýna í dag, að formenn stjórnmálaflokkanna eru að taka ákvarðanir sín á milli án aðkomu viðeigandi ráðherra. Og svo er það með rannsóknarnefndina, var hún þá líka með pólitískt samráð þar sem hún komst að sömu niðurstöðu og þessir þingmenn Samfylkingarinnar sem er verið að ásaka um óheiðarleika?
Spritti skrifar:
26/04/2012 at 01:50 (UTC 0)
Og svo kostar þessi vitleysa stóran skilding. Hefði frekar verið nær að eyða þeim peningum í að gefa fátækum fjölskyldum eitthvað í matinn og borga kannski eins og eina húsaleigu fyrir nokkra sem eru að lenda á götunni. Bara svona hugmynd sko…
Haukur Kristinsson skrifar:
25/04/2012 at 23:48 (UTC 0)
Takk fyrir svarið, Eiður.
Eiður skrifar:
25/04/2012 at 22:53 (UTC 0)
Þetta er ekki nýtt. Farðu bara á vef Alþingis og skoðaðu hvernig þingmenn greiddu atkvæði.
Haukur Kristinsson skrifar:
25/04/2012 at 21:50 (UTC 0)
„Með klókindum í atkvæðagreiðslu sáu nokkrir þingmenn Samfylkingar til þess að fyrrverandi formaður þeirra flokks slyppi en Geir yrði einn látinn svara til saka.“
Er þessi djarfa fullyrðing rétt, Eiður? Eða eru þetta dylgjur?
Þetta skiptir miklu máli fyrir þá sem hafa stutt Social Democrata á Íslandi.
Please, svaraðu þessu fljótlega, en ekki eftir nokkra daga.
Ef það gengur ekki, „forget it.“