«

»

Molar um málfar og miðla 894

Hér hefur stundum verið vikið að áfengisauglýsingum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar tvö sem linnulaust fremja lögbrot með því í að auglýsa bjórdrykkju undir því yfirskini að verið sé að auglýsa svokallað léttöl sem er undir 2,25 % að styrkleika. Þetta er réttlætt með því að orðið léttöl sjáist skrifað með örsmáu og illa sýnilega letri í skjáhorni í sekúndu eða sekúndubrot. Gallinn er bara sá að í mörgum sjónvarpstækjum sést orðið léttöl ekki eða aðeins hluti af því vegna þess að það skerst utan af myndinni í tækinu og hún skilar sér ekki í fullri stærð á skjáinn. Þetta vita auglýsendur. Ef verið væri að auglýsa léttöl ætti orðið léttöl að standa skrifað stórum stöfum þvert yfir skjáinn. Svo er auðvitað ekki því það er ekki verið að auglýsa léttöl heldur sterkan bjór. Langlundargeð yfirvalda gegn þessum síendurteknu lögbrotum sem framin eru inni á heimlum okkar eru ótrúleg.

Það þýðir væntanlega að ráðherrar í þessari ríkisstjórn munu leiða sjálfan sig fyrir Landsdóm vegna þess að þeir hafa ekki haldið ríkisstjórnarfundi um mikilvæg mál, … skrifar einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á heimasíðu sinni (24.04.2012).
Ágúst Ragnarsson sendi Molum eftirfarandi (24.04.2012): Viðtal við Össur á Eyjunni.
,,Geir voru dæmdar 24 milljónir króna í málskostnað, en í yfirlýsingu sinni sagði hann að málsvarnarlaun hans hafi numið 40 milljónum. Honum vantaði því 16 milljónir upp á til að standa straum af kostnaðinum við réttarhöldin.”
Hvað er hægt að gera í þessu? Molaskrifari getur nú ekki svarað því. Honum sýnist reyndar á Eyjunni að þessi ummæli séu frekar frá fréttaskrifara Eyjunnar en höfð beint eftir Össuri. Það er hinsvegar býsna algengt að sjá þetta orðalag.

7,5 ára dómur fyrir ranga beygju, segir í fyrirsögn á mbl. is (24.04.2012). Samkvæmt því sem segir í fréttinni er verið að tala um sjög og hálfs árs fangelsisdóm. Þessi fyrirsögn er út í hött. Við skiptum ekki árinu í hundraðshluta eða tíundu parta.

Molalesandi sendi Molum þetta skjáskot úr Dv.is (24.04.2012) http://myndahysing.net/upload/81335313418.png Hann segir m.a.: Ég sendi þér hér skjáskot af þessum hroða sem vefmiðill DV býður fólki upp á, svo ekki sé minnst á það hvort þetta eigi yfirleitt erindi til almennings. Dæmin eru mörg og ljóst að gæðum í blaðamannastétt hefur hrakað gríðarlega á umliðnum árum.
Molaskrifari hefur nú reyndar séð verri hroða en þetta, en er sammála því að efni þessarar fréttar á ekkert erindi á prent. En sumt fólk hefur greinilega mikla þörf fyrir að komast á prent. Það er haldið óslökkvandi prentþorsta.

Af mbl.is (26.04.2012): Nú standa yfir framkvæmdir á byggingunni sem stendur á milli Hótel Borgar og Apóteksins við Austurvöll. Molaskrifari er ekki sáttur við að talað sé um framkvæmdir á byggingu. Eðlilegra væri að tala um framkvæmdir við byggingu. Líklega eru það aðeins elstu menn sem muna að húsið sem í fréttinni er kallað Apótekið var lengst af kennt við Reykjavíkurapótek og þar áður Nathan & Olsen , – tvo Dani sem stofnuðu heildsölu á Íslandi sem enn er starfandi. Á vef þess fyrirtækis segir: 1916
Nathan & Olsen reisti fyrsta stórhýsið í Reykjavík. Húsið er á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis og var lengi kallað Nathan & Olsen húsið. Það var teiknað af Guðjóni Samúelssyni og þótti mjög glæsilegt. Þess má geta að þetta var fyrsta húsið í Reykjavík sem lýst var með rafmagnsljósum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Spritti skrifar:

    hahaha… Þetta er auðvitað hárrétt hjá þér. Senda liði fyrir landsdóm strax.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>