Hversvegna birtir auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins auglýsingar sem eru með jafn augljósum ritvillum og þessi sjónvarpsauglýsing (26.04.2012): Nú Fer Hver Að Verða Síðastur? Svarið er: Þeir sem stjórna auglýsingadeildinni fara ekki eftir þeim reglum sem gilda um birtingu auglýsinga í þessum fjölmiðli almennings.
Molavin sendi eftirfarandi (25.04.2012): ,,Smartland Mörtu Maríu“ er nafn á slúðurburði Morgunblaðsins á Netinu. Þar segir í fyrirsögn í dag, 25.4.2012: Heimili Carrie Bradshaw selt. Þessi brenglun hugtaka, húss og heimilis, er í stíl við margt annað á þessari síðu, og það er engu líkara en margir, sem á síðustu árum hafa gert blaðamennsku að lífsstíl sínum, api þekkingarleysið hver eftir öðrum.” Molaskrifari þakkar sendinguna. Gott er að eiga góða að.
Sagt var í fréttum Ríkissjónvarps (25.04.2012) um nýkjörinn biskup: Agnes þakkar löngum starfsferli innan kirkjunnar því að hún náði kjör. Molaskrifari hallast að því að hér hefði átt að segja: Agnes þakkar … það að hún náði kjöri.
Það eru ekki aðeins fréttamenn sem sumir eiga erfitt með að átta sig á merkingarmun sagnanna að kaupa og versla. Í fréttum Ríkissjónvarps (25.04.2012) sagði viðmælandi fréttamanns: Við erum að versla vöruna beint frá framleiðanda. Við erum að kaupa vöruna átti hann við. Hvimleitt.
Farmiðasalinn Iceland Express auglýsir næstum á hverju kvöldi ferðir sem kallaðar eru hópaferðir. Málvenja er að tala um hópferðir. Ekki treystir Molaskrifari því fyrirtæki yfir þröskuld sem ítrekað birtir auglýsingar sem stangast á við góða málvenju.
Auglýsingadeild Ríkissjónvarpsins þarf að eignast almanak. Að kveldi 25. apríl var auglýst í sjónvarpinu Páskatilboð á svokölluðum rafskutlum. Páskadagur var 8. apríl.
Molaskrifari þreytist ekki á að benda á það hann kallar óþarfa og vonda þolmyndarnotkun. Þetta er úr Morgunblaðinu (26.04.2012) Skipið var dregið af dráttarbátnum Auðuni frá bryggjunni í Gufunesi …. Miklu betra hefði verið að segja: Dráttarbáturinn Auðunn dró skipið frá bryggjunni í Gufunesi … Seinna í þessari sömu frétt Morgunblaðsins segir: Þór lá bundinn við höfnina í Gufunesi. Skip eru ekki bundin við höfn. Skip eru í höfn. Skip eru bundin við bryggju í höfn. Í næstu setningu segir (rökrétt framhald vitleysunnar en samt órökrétt). Skipið slitnaði frá höfninni nokkrum sinnum … Skip slitna ekki frá höfn. Skip geta slitnað frá bryggju, slitið landfestar.
Enginn sjónvarpsþáttur fær jafndýrar og langar dagskrárauglýsingar og hið sjálfhverfa Andraland Ríkissjónvarpsins. Hvað veldur?
Orðfæð hrjáir fjölmiðlamenn. Tískuorðtak nú um stundir er að eitthvað sem er á næsta leiti sé að bresta á. Allt brestur nú á. Í mbl.is (26.04.2012) segir að senn sendi fyrirtæki gæludýrafóður á markað í Bandaríkjunum og Kanada . Um það segir mbl.is: … er fyrsta stóra sendingin á Bandaríkja- og Kanadamarkað alveg að bresta á.
Þakkarvert væri ef málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins sæi til þess að umsjónarmenn morgunútvarps Rásar tvö hættu að bjóða hlustendum upp á vikulegan skammt af slúðurslettusúpu frá Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna, eða frá ellei eins og sagt er þar á bæ.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar