«

»

Molar um málfar og miðla 896

Úr mbl.is (27.04.2012): Söngkonan Björk hefur aflýst tveimur tónleikum til viðbótar í Buenos Aires í Argentínu vegna hnúðs á raddböndum. Börk aflýsti ekki tveimur tónleikum. Hún aflýsti tvennum tónleikum og vonandi nær hún skjótum bata.

Við erum stödd á Stykkishólmi sagði fréttamaður Stöðvar tvö (26.04.2012) í upphafi þáttarins Ísland í dag. Málvenja er að segja í Stykkishólmi og Stöð tvö hefur ekkert umboð til að breyta því.

Flugvélar fuku í loftinu, segir í snilldarfyrirsögn á mbl.is (26.04.2012)

Það er ekki vandað orðalag að segja samkvæmt lögreglu eins og sagt var í fréttum Ríkisjónvarps (26.04.2012) Betra væri: Að sögn lögreglunnar.

Ein af stjörnum Útvarps Sögu, frægur verðbréfasali, Guðmundur Franklín, kynnti fréttamönnum stjórnmálaflokk sinn í dag (26.04.2012). Í tíufréttum Ríkissjónvarps beindi fréttamaður spurningu til Guðmundar. Guðmundur gerði enga tilraun til að svara spurningunni. Fréttamaður lét það bara gott heita og virtist ekki detta í hug að ganga eftir svari. Alveg hefði mátt sleppa spurningunni og rétta bara Guðmundi hljóðnemann. Þessi nýi flokkur ætlar að gera allt fyrir alla og það á ekki að kosta neitt. Gaman var hinsvegar að sjá í sjónvarpinu það föruneyti sem þessi flokkur leggur af stað með.

Undanfarin misseri hafa norrænar sjónvarpsstöðvar , einkum í Noregi og Danmörku, sýnt úrvalsflokka heimildamynda um sögu liðinnar aldar. Einkum hefur verið fjallað um sögu heimsstyrjaldanna tveggja. Allt þetta fer framhjá þeim sem ráða efni íslenska Ríkissjónvarpsins. Þess í stað er okkur boðið upp á aðþrengdar eiginkonur frá Ameríku, endalausar amerískar unglingamyndir og vikulegan myndaflokk um vampírur og drauga svo aðeins fátt eitt sé nefnt.

Atvinnubloggari velti því fyrir sér á pressan.is (17.04.2012) hvort Jóhannes kenndur við Bónus væri á leið inn á matvörumarkaðinn að nýju og skrifaði: Þegar Jóhannesi var bolað út úr Högum eignaðist hann hlut í færeyskri matvörukeðju, sem hann hefur nú selt. Þetta er ekki mjög nákvæmt. Bónus, (Jóhannes Jónsson) rak matvöruverslanir í Færeyjum í mörg ár. Fyrst einn en svo í samvinnu við Hans Mortensen, færeyskan kaupmann. Árið 2009 rak Bónus fimm verslanir í Færeyjum og að auki átti Jóhannes ásamt Mortensen helming í stærstu matvöruverslun landsins í SMS verslanamiðstöðinni í Þórshöfn. Komið hefur fram að hann hefur nýlega selt þennan rekstur.

Oft er hér vikið að auglýsingum og orðalagi í auglýsingum. Fyrirtæki sem kallar sig Garðaþjónustu Reykjavíkur auglýsir á baksíðu Fréttablaðsins (27.04.2012):
Er mosinn að eyðileggja flötina þina? Við höfum lausn við því! Hér hefði verið eðlilegra að segja; við höfum ráð við því eða við höfum lausn á því.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>