Einar sendi Molum eftirfarandi hugleiðingu:
„Í hinni neikvæðu umræðu hérlendis er oft bent á Eið Guðnason sem táknræna nöldurskjóðu um hrakandi málfar blaðamanna. En þessi barátta fyrir bættu málfari mætti vera mun öflugri, víðtækari og jákvæðari, bæði af hálfu fjölmiðlanna sjálfra, almennings og hins opinbera, og vera virk í öllum net- og ljósvakamiðlum. Margt gott íslenskufólk með áratugareynslu í prófarkalestri gengur nú verkefnalítið um götur vegna fjármagnsskorts og áhugaleysis fjölmiðla á að bæta hér úr. Dag eftir dag hellast yfir okkur innlendar fréttir annað hvort fullar af málfarsvillum og barnamáli, eða þær opinbera þekkingarleysi á staðreyndum, sem margar eru jafnvel kenndar í grunnskólum. Erlendar fréttir eru oftar en ekki klaufalega þýddar úr erlendum tungumálum án þess að aðlaga þýðinguna að íslenskri málvenju. Vandinn sem af þessu leiðir er sá að fréttir verða óskýrar, misvísandi og óáreiðanlegar, þar sem lesandinn þarf oft á tíðum að geta sér til um einstök atriði fréttarinnar. Þetta er lesendum ekki boðlegt.
Til að allrar sanngirni sé gætt verður einnig að segja að fáeinir fjölmiðlar virðast hafa mun meiri metnað eða málfarshæfileika en aðrir. Með málfarshæfileikum á ég við m.a. orðaforða, setningaruppbyggingu, næmni á málfarsvenjur og orðtök, hreinleika tungumálsins, o.fl ., allt þættir sem nauðsynlegir eru til að fréttir og umfjallanir verði skýrar og hnitmiðaðar. Ég finn einnig fyrir málfarslegu kynslóðabili sem er að aukast í þjóðfélaginu, m.a. vegna áhrifa af erlendum tungumálum og einnig vegna lakari málfarsþekkingar og orðaforða yngri kynslóðanna, sem er afleiðing af slakri íslenskukennslu í skólum (það þekki ég sem foreldri). Skýr og augljós dæmi um þetta kynslóðabil koma fram á skjánum í sjónvarpsmiðlunum, en barnamálið í sumum fréttum prent- og netmiðlanna er annað augljóst dæmi. Við megum ekki láta þetta kynslóðabil aukast árinu lengur.
Ráð væri að áhugafólk um íslensku með mikla reynslu t.d. í prófarkalestri og hlustun eftir málfari eða málfarsvillum, tæki sig saman um rekstur vefsíðu, sem gerði svipaðar og jafnvel umfangsmeiri athugasemdir við einstakar fréttir, svipað og Eiður hefur haldið úti með ótrúlegri elju, veitti stærstu fjölmiðlunum málfarseinkunnir mánaðarlega, sem byggðust á tölfræðilegri úttekt, og veittu jafnframt þeim fjölmiðlum, sem hafa staðið sig best málfarslega árleg verðlaun t.d. á degi íslenskrar tungu. Með því væri á jákvæðan hátt höfðað til metnaðar hvers og eins fjölmiðils. Hluti af slíkri starfsemi gæti einnig falist í ráðleggingum og fróðleiksmolum um daglegt mál. Er ekki kominn tími til að grasrótin taki nú til hendinni í þessum efnum og geri dag íslenskrar tungu að öðru og meira en yfirborðshjali í einn dag?
Bestu kveðjur,Einar“
Molaskrifari þakkar Einari skrifin og jákvæð orð um þessa pistla. Hugmynd hans er hér með komið á framfæri.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
01/05/2012 at 23:47 (UTC 0)
Takk!
Linda skrifar:
01/05/2012 at 22:54 (UTC 0)
„Molaskrifari þakkar Einar…..“ 🙂
Eiður skrifar:
01/05/2012 at 18:41 (UTC 0)
Þær enda á eftir kveðju Einars. Mistök hjá mér.
Bergur skrifar:
01/05/2012 at 13:58 (UTC 0)
Hvar enda þessar gæsalappir Eiður?
„Í hinni
Eiður skrifar:
01/05/2012 at 09:34 (UTC 0)
🙂
Bjarni Sigtryggsson skrifar:
01/05/2012 at 09:26 (UTC 0)
Málfarslæknar án landamæra.
Sæmundur Bjarnason skrifar:
30/04/2012 at 23:29 (UTC 0)
Sammála þér um þetta Einar.
Eiður væri vel að því kominn að stjórna slíkri síðu ef hann er fáanlegur til þess.
Var áðan að hlusta/horfa á veðurfréttirnar með 10 fréttunum í sjónvarpinu. Veðurfræðingurinn talaði um „meinlætis veður“. Meinti sennilega „hæglætis veður“.
Haukur Kristinsson skrifar:
30/04/2012 at 23:03 (UTC 0)
Hvar eru íslenskukennarar skólanna í dag? Er sú stétt kennara ekki lengur til?
Hvar eru okkar „Gísli Jónsson“ í dag?