Eldur kom upp í útveggi í timburhúsi í Hafnarfirði um klukkan hálf þrjú í dag. Svo segir í frétt og fyrirsögn á mbl.is (28.04.2012). Þágufallsmynd orðsins veggur er vegg, ekki veggi að því Molaskrifari best veit. Eldur kom því upp í útvegg, ekki útveggi.
Í Morgunblaðinu (28.04.2012) eru auglýstar töflur sem um er sagt: ,,Bætir skammtímaminnið”. Er þetta rétt? Er þetta vísindalega sannað? Hvað segir embætti landlæknis? Í Bandaríkjunum var fyrirtæki sem framleiðir súkkulaðiblandað hnetusmjör (Nutella) nýlega dæmt í 3 milljón dollara sekt fyrir rangar fullyrðingar í auglýsingum. Hver verndar íslenska neytendur gegn röngum fullyrðingum í auglýsingum ?
Molaskrifari hallast að því að hann hafi heyrt svona tíu sinnum í fréttum Ríkisútvarpsins á ýmsum tímum sólarhrings á sunnudagskvöld, aðfaranótt mánudags og á mánudagsmorgni að Þór Þorlákshöfn hafi unnið sigur á Grindavík. Hann veit alveg núna hvernig leikurinn fór. Úr mbl.is (30.04.2012): Guli liturinn var allsráðandi í gærkveldi þegar Þórsarar freistuðu þess að láta fjórða leik í Þorlákshöfn verða að veruleika í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Hér hefur eitthvað farið úrskeiðis. Leikurinn varð að veruleika, en hvað með sigurinn? Enginn yfirlestur, Enginn prófarkalestur.
Sögnin að valda veldur skriffinnum sumra miðla miklum vanda. Á dv.is segir (29.04.2012): Þar sakar hann Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann Framsóknarflokksins um að hafa logið þegar hann hélt því fram í fréttum Sjónvarpsins að núverandi ríkisstjórn hefði ollið meira tjóni fyrir land og þjóð heldur en hrunið sjálft. Hér ætti að standa: … að núverandi ríkisstjórn hefði valdið meira tjóni …
Talað er um sjálfdæmi, að skuldbinda sig til að hlíta dómi sem annar kveður upp. Ekki sjálfsdæmi eins og sagt var í Silfri Egils (29.04.2012)
Úr mbl.is (28.04.2012). Hún reyndi að flýja þegar hún varð vör við lögregluna en missti fæturna og féll fram fyrir sig. Hrein snilld. Konunni varð fótaskortur, hún missti fótanna, en vonandi missti hún ekki fæturna!
Í fréttum Stöðvar tvö (29.04.2012) var talað um Landspítala Íslands. Það er ekkert til sem heitir Landspítali Íslands. Landspítalinn er aðal sjúkrahús okkar og háskólasjúkrahús og heitir Landspítalinn, – alveg síðan spítalinn tók til starfa árið 1930.
Dálítið fannst Molaskrifara það undarlegt orðalag þegar vitnað var ljóð Ólínu Andrésdóttur (1858-1935) í fréttum Ríkissjónvarps (29.04.2012) Sæmd er hverri þjóð, að eiga sægarpa enn, – og sagt eins og segir í þekktu sjómannalagi ! Sigvaldi Kaldalóns samdi lag við þetta ljóð Ólínu sem margir kunna. Í sama fréttatíma var 1. maí kallaður frídagur verslunarmanna. Þetta var auðvitað misritun eða mismæli sem hefði átt að leiðrétta, en það var ekki gert. Undantekning er að mishermi sé leiðrétt í fréttatímum Ríkisútvarpsins. Einna helst að leiðrétt sé ef farið er rangt með nöfn. Hlustendur eiga heimtingu á því að leiðrétt sé þegar rangt er farið með. Engu skiptir þótt villan sé augljós. Það á samt að leiðrétta. Það er grundvallaregla í allri fréttamennsku.
Enn einu sinni talaði íþróttafréttamaður um að taka þátt á móti. Málvenja er að tala um að taka þátt í einhverju, ekki á einhverju. Taka þátt í íþróttamóti. Keppa á móti. Sami íþróttafréttamaður spurði: Er þetta stórt sport hér á Íslandi? Hvað segir málfarsráðunautur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar