«

»

Molar um málfar og miðla 900

Það er umhugsunarefni hvort það er í í verkahring Ríkissjónvarpsins að kynna í hálfs annars klukkutíma áróðurs- og auglýsingaþætti þætti svokallaðar óhefðbundnar lækningar, (The Living Matrix: The Science of Healing, 02.05.2012) . Sumt af því sem þarna var boðið upp á mætti sjálfsagt kalla gervivísindi á jaðri sértrúar. Fullyrðingar um að C P, Cerebral parese, (sjá t.d.: http://no.wikipedia.org/wiki/Cerebral_parese sé læknanlegt og að svokallaður „heilari” (sem reyndar var ekki fullnuma í faginu!) sem staddur var á Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna gæti læknað meinsemd í nýra sjúklings í Flórída, bera keim af skrumi og skottulækningum að ekki sé meira sagt. Rætt var við „meðhöndlara“ og svokallaða NLP meistara.Ríkissjónvarpið á ekki að vekja falsvonir hjá veiku fólki um einhverskonar kraftaverkalækningar. Þessi ofurlangi þáttur átti ekki erindi í kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins. Þetta var hreinn áróður,- gagnrýnilaus. Sýning hans var alvarlega mistök hjá þeim sem ráða dagskrá Ríkissjónvarpsins..

Formaður Hagsmunasamtaka heimilanna , Andrea Jóhanna Ólafsdóttir hefur lýst yfir að hún bjóði sig fram til embættis forseta Íslands. Andrea vakti athygli við setningu Alþingis í fyrra haust. Þá var rætt við hana á Austurvelli í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu. Hún lýsti sérstakri ánægju (,,mjög ánægð”, sagði hún) með að ýmsu lauslegu skyldi hafa verið kastað í þingmenn þegar þeir gengu milli Alþingishúss og Dómkirkju. Hún lýsti ánægju sinni ekki einu sinni, heldur tvisvar. Þetta viðtal við formann Hagsmunasamtaka heimilanna, sem svo kalla sig, hefur verið fjarlægt af vefsíðu Ríkisútvarpsins. Hvenær var það gert og hversvegna? Ríkisútvarpið skuldar okkur skýringu á því. Það er svo ekki gæfulegt þegar konan að sögn Morgunblaðsins hefur kosningabaráttu sína með hálfgerðri aulaþýðingu á ensku orðtaki, – where there is a will there is a way ! ( Þar sem er vilji, er vegur)

Lesandi sendi eftirfarandi , visir.is (30.04.2012): ,,Samkvæmt tillögunni verður Laugavegi breytt í göngugötu milli Vatnsstíg og Skólavörðustíg frá 17. júní til 20. ágúst. Akstur með aðföng verður frá þvergötum á móti hefðbundinni umferð fyrir klukkan 11:00 á virkum. Þá verður Skólavörðustígi einnig breytt í göngugötu á sama tímabili í sumar og verður akstur með aðföng heimilaður frá Ingólfsstræti fyrir klukkan 11:00 á virkum dögum.” Ekki var það þrautalaust fyrir þann sem þetta skrifaði að beygja götunöfnin sem við sögu koma í fréttinni.

Hefð er fyrir því að kalla risaskipið Titanic sem fórst fyrir hundrað árum títanik á íslensku, ekki tætanik eins og það er borið fram á ensku. Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (30.04.2012) kallaði þulur skipið títanik en fréttamaður notaði enska heitið tætanik. Það á að vera samræmi í hlutunum. Til þess þarf verkstjórn.

Hitinn reis um fimmtán stig, segir í í fyrirsögn á mbl.is (01.05.2012). Molaskrifari hefur ekki heyrt svona til orða tekið fyrr. Venja er að tala um að hiti hækki, ekki að hiti rísi.

Molaskrifari stendur á gati. Nivea auglýsir nýtt hrukkukrem fyrir blandaða húð. Hvað er blönduð húð? Fá þeir sem eru með blandaða húð fremur hrukkur en aðrir ?

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Algjört dómgreindarleysi að sýna þessa mynd.

  2. Spritti skrifar:

    Það er skammarlegt að RÚV sé að kaupa þætti sem eru rusl, til sýningar. Ef heimildarmynd á að vera heimlidarmynd, skal hún vera upplýsandi og vera til fróðleiks. Get ekk séð að svo hafi verið. Og þó. Víti til varnaðar? Það sést eins og þú segir, hvernig verið er að reyna að vekja falsvonir hjá veikburða fólki og það er ljótt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>