«

»

Molar um málfar og miðla 901

Úr mbl.is (02.05.2012): Íslensk náttúra spilar stóra rullu í maíhefti hins kunna náttúrlífsblaðs National Geographic. Stórar ljósmyndir frá Orsolya og Erlend Haarberg prýða blaðið en þau ferðuðust um landið í tíu mánuði.Í grein sem fylgir ljósmyndunum er fjallað um tíð eldgos á Íslandi, jökla landsins og samlíf sauða og manna í gegnum árin. Náttúran spilar rullu, ljósmyndir frá … (nafngreindum myndasmiðum) og samlífi sauða og manna í gegnum árin ! Ja, hérna. Ekki bregst Mogginn þegar kemur að því að skrifa vandaðan texta.
Molalesandi sendi þetta (02.05.2012) , og var ekki hrifinn: „Þetta er nýtt lag sem er að fara að koma út,“ sagði Ólafur Páll Gunnarsson á Rás 2, miðvikudaginn 2. maí. Einnig talaði hann við hjólreiðakonu, sem hann kallaði í tvígang: „The First Lady of Bicycling“ í stað fremstu hjólreiðakonu landsins, eða a.m.k. eitthvað á íslensku. Afskaplega óvandað – Molaskrifari fellst á það.
Lesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (02.05.2012–): Eftir sjö daga réttarhald komst dómari í London að þeirri niðurstöðu að miklar líkur séu á að breski njósnarinn Gareth Williams hafi látist með ólögmætum hætti, en ekki liggi fyrir nægilegar sannanir um hvernig hann dó eða hvers vegna. Látist með ólögmætum hætti!. Það var og. Hér er annars tengi á fréttina í heild á mbl.is.http://mbl.is/frettir/erlent/2012/05/02/outskyrt_andlat_njosnara_i_tosku/
Halldór Guðmundsson segir í tölvubréfi til Mola (02.05.2012): „Ég hef verið að ergja mig á veðurfræðingi hjá rúvinu sem þrástagast á því að einhverjir skúrir verði víðast hvar á landinu. Hafa menn gefist upp við að kvenkenna skúrirnar?
Væri fróðlegt að heyra viðhorf Íslenskrar málstöðvar. Oftar en ekki er þeirra svar þegar leitað er til þeirra með álitaefni að hvoru tveggja sé rétt!
Manni virðist undanhaldið aukast jafnt og þétt.” Nokkuð til í því, Halldór.
Ágúst sendi Molum þessar línur (02.05.2012) : ,,Var að horfa á íþróttir á Stöð 2. Þar var sagt frá því að KR hafi unnið leikinn sem fram fór á Laugardalsvelli. En!!!!! heldurðu ekki að KRingur hafi ,,framkvæmt“ vítaspyrnuna! og skorað.
Sagnirnar að framkvæma og innihalda eru með ólíkindum ofnotaðar.
Auglýsingastofuíslenska, segir konan .” Ágúst bætti við:„ Í morgunþætti Lísu Páls í morgun (02.05.2012): Til hennar er mættur forstjóri Strætó Bs. Þátturinn byrjar með því að hann segir Lísu frá sér:
Móðir mín aldi mig upp….
Er ekki hægt að gera kröfu til þáttastjórnenda um að þeir byrji upp á nýtt. Þetta er örugglega ekki í beinni? ” Molaskrifari þakkar sendinguna. Auðvitað hefði átt að byrja aftur hafi þetta verið upptaka.

Bauhaus hin nýja byggingavöruverslun auglýsir nú allt hvað aftekur. Í flestum auglýsingunum er enskuslettan drive-in. Það finnst Molaskrifara ekki aðeins vera óþarfi heldur óþolandi. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins virðir ekki reglur um að auglýsingar skuli vera á lýtalausri íslensku. Líklega er auglýsingadeildin veikasti hlekkurinn af mörgum í lélegri stjórnkeðju þessarar mikilvægu almannastofnunar.

Íslensku íþróttafélögin eru greinilega ekki á flæðiskeri stödd. Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps var sagt frá þremur íþróttafélögum, og ekki öllum stórum, sem eru að kaupa erlenda atvinnumenn til liðs við sig. Eitthvað kostar það, þótt almenningur fái lítt um það að vita. Almenningur heldur áfram að borga í einokunarlottóið sem að hluta stendur undir rekstri íþróttahreyfingarinnar og þar með kaupum á erlendum atvinnumönnum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Jón H. Brynjólfsson skrifar:

    Ég ólst upp á Akureyri við það að skúr (þ.e. úrkoman) væri karlkyns. Í Íslenskri orðabók er þetta orð sagt bæði kvenkyns og karlkyns þannig að mér finnst nokkuð hart að tala um undanhald hvað þetta varðar.

  2. Þorvaldur S skrifar:

    Arnbjörn, þetta kom víst ekki nógu skýrt fram hjá mér. Rigningin var í karlkyni, rétt eins og vegavinnuskúrarnir. Regnskúrir í kvenkyni féllu ekki nema hjá þeim sem voru vel lesnir í sunnlenskum bókum og „vissu“ að svoleiðis ætti þetta að vera. Var þó ekki mældur mismunur á grassprettu hjá kvenkyns- og karlkynsnotendum en ég geri, að óreyndu, ráð fyrir að hún hafi verið svipuð að öðru jöfnu. Þess má líka geta að sumir höfðu bor í fleirtölu borir. Fer þá að upplitast markalínan milli karl- og kvenkyns í svipuðum orðum þótt ég minnist þess ekki að borirnir/borarnir hafi verið í kvk. En kynjaflakk orða milli landshluta er svosem ekki óþekkt. Hvort segja menn saftin eða saftið?

  3. Arnbjörn skrifar:

    Þorvaldur, í hvorri merkingunni – mannvirki eða úrkoma – voru ‘skúrar’ í karlkyni í þinni sveit?

  4. Arnbjörn skrifar:

    Sjálfur ólst eg upp við það að skúr sem mannvirki væri kk. og skúr sem úrkoma kvk. Því vakti það athygli mína strax í bernsku þegar eg heyrði frændfólk mitt á Súgandafirði tala um ‘skúrina’ í þf. et. þegar það átti við smáhýsið. Umræddur veðurfræðingur er annars vel máli farinn þó að undarlegt þyki mér að heyra hann segja ‘regnskúrirnir’. Kannski er hér um staðbundna málvenju að ræða líkt og í tilviki Súgfirðinganna. Eg tek það þó fram til að forðast misskilning að eg er ekki reiðareksmaður.

  5. Þorvaldur S skrifar:

    Þetta með skúrirnar/skúrana. Í minni sveit, Skagafirði, voru skúrar ævinlega í kk. í mínu ungdæmi. Það var ekki fyrr en ég las bækur skrifaðar af sunnlenskum að mér barst vitneskja um að svo væri ekki alls staðar. Þótt eitt orðalag sé gott og gilt einhvers staðar er það ekki endilega algilt. Þeir Íslendingar voru til, og eru kannski enn, sem höfðu sykur í hvorugkyni. Var það rangt? Eða var það kannski það eina rétta og undanhald að karlkenna efnið? Hvort þora menn það eða því? Fá léð bíls eða bíl léðan? Eignarfallsnotkun er ævagömul í þessu tilviki. Er þá undanhald að nota þolfall?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>