«

»

Molar um málfar VII

 Ánægjulegt var hve  fljótir  nemendur Verslunarskólans  voru að átta sig á þágufallssýkinni í  fyrirsögn á íþróttafrétt úr Fréttablaðinu í spurningaþættinum Gettu betur  í RÚV sjónvarpi í kvöld. Þessi þáttur  nær  sér ekki almennilega á  strik, – allavega ekki ennþá, enda  við ramman reip að draga  í samkeppni  við  þau  Sigmar og Þóru í Útsvari.  Þau standa sig  með stakri prýði.

 Svo kemur  hér  svolítill  sparðatíningur ,sem  sumir  sjálfsagt kalla.

Í fréttum Stöðvar  tvö var talað um „grátt ofan í  svart“.  Orðatiltækið er  að bæta gráu ofan á  svart,  eða  að gera illt verra  eins og  segir í hinni  ágætu handbók Jóns  G.  Friðjónssonar Mergur  málsins. Þá  bók nota  fréttaskrifarar of lítið.

Í fréttum RÚV sjónvarps   var sagt: “ Þau eru  af erlendu bergi brotnu“. Rétt  hefði verið að  segja af erlendu bergi brotin. Hér  hefði líka mátt  styðjast við hinn ágæta Merg og fletta upp orðinu berg.

Í öðrum hvorum sjónvarpsfréttatímanum í kvöld  var  sagt: „… engu hafði verið  slegið fast um hvenær…“   Þegar eitthvað er ákveðið  eða fastmælum  bundið  er talað um að  slá einhverju  föstu,  en ekki   að „slá eitthvað  fast“. Þannig var nú það.

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Ragnhildur Kolka skrifar:

    Haltu bara áfram, Eiður. Af nógu er að taka. 

  2. Eiður skrifar:

     Sigrún og  Gústaf Hannibal ,

    Kærar þakkir. Þetta er uppörvandi og gleður  sálina. Gott að  vita  að þetta  skuli  lesið. Ég held að orðið blogg sé orðið fast í málinu  og það er  svo sem ástæðulaust að  amast við því.   Kær   kv.  Eiður

  3. Sigrún skrifar:

    Sæll Eiður,

    Vildi í senn þakka þér og hrósa fyrir þetta þarfa blogg (er það orð ekki annars að verða viðurkennt í íslenskunni ). Það fer fátt meira í taugarnar á mér en fjölmiðlar sem ekki láta sér nógu annt um tungumálið okkar til að tala/skrifa það rétt.

    Haltu áfram þínu striki – dropinn holar steininn í þessum efnum.

    bestu kveðjur Sigrún

    p.s. ég er aðeins eldri en Gústaf Hannibal (32 ára) en það gladdi mig óneitanlega að sjá að ég er ekki ein minnar kynslóðar sem læt mig þetta einhverju varða.

  4. Gustaf Hannibal skrifar:

    Takk fyrir thessar abendingar thinar, eg hvet thig til ad halda theim afram.

    Eg held ad enginn viti betur hversu vel mer likar vid slik skrif en vinur minn sem vinnur a visir.is. Hann hefur fengid ofa skeytin fra mer i gegnum tidina med vinsamlegum abendingum um malfar.

    Bestu kvedjur fra berlin
    gh.

    ps. eg er 27 ara gamall. Malfarskverulantar eru ekki utdaudir.

  5. Eiður skrifar:

    Þjóðarsál, –  nei, þessi  orð hef ég ekki  áður  heyrt en þau eru  svo sem  skiljanleg. Þakka  góð orð um um þessi  skrif  mín.

  6. ÞJÓÐARSÁLIN skrifar:

    Sæll Eiður!

    Ég er mjög ánægður með þessa pistla þína, ekki veitir af. Þess vegna langar mig að læða hér inn einu í viðbót. Bæði í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu var sagt frá hundi, sem varð að aflífa. Bæði blöðin greindu frá því að tengdaafi eigandans hefði verið iðinn við að viðra hundinn. Hefur þú áður heyrt orðin tengdaafi/tengdaamma?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>