«

»

Molar um málfar og miðla 956

Lesandi sendi þessar línur (15.07.2012): ,,Ekki veit ég hvort það er sett mönnum til gamans eða af hrekkleysi en á bls. tvö Fréttatímanum 13.-15. júlí, í greininni LAUMUFARÞEGINN OG SPORÐDREKINN OTTÓ ER ALLUR segir frá plágu af spánarsniglum. Þar er viðvörunin:
Þessi rauðbrúni snigill er plága í Skandinavíu og óttast menn að hann sé að koma undir sig fótum hér á landi.
Ágætis myndlíking!” Molaskrifari tekur undir það og þakkar sendinguna.

Hér er dæmi um snilldarfrétt af mbl.is (14.07.2012): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/07/14/hross_laus_i_vikurskardi/ Í fréttinni er talað um að skapa hugsanlega slysahættu og að forða mögulegri slysahættu. Sumarliði hefur verið á vaktinni á laugardagskvöldi.
Meira af mbl.is (15.07.2012): Sjúkraflutningamenn sinntu alls 35 sjúkraflutningum í nótt en að auki voru tvær hreyfingar á dælubílum. Tvær hreyfingar á dælubílum! Þetta verður varla betur orðað. Líklega er átt við að slökkvilið hafi tvisvar verið kallað út. Dælubílar tvisvar í útkall, var sagt í í fyrirsögn á visir.is. Mun betra.
Undarleg fyrirsögn var á visir.is (16.007.2012): Eiðibýli brann til kaldra kona. Fimm orð,- tvær villur. Rétt var þetta hinsvegar í fréttinni sjálfri: Eyðibýli brann til kaldra kola.

Hún hefur unnið sig upp töfluna, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins (15.07.2012). Þetta hefði verið hægt að orða betur. Sami íþróttafréttamaður sagði okkur líka frá stærstu knattspyrnukonum landsins. Hvar er málfarsráðunautur? Sennilega í sumarfríi.
Meira frá íþróttafréttamanni við sömu stofnun: Annie Mist Þórisdóttir tókst í gær að verja … Hér hefði fréttamaður átt að hafa föðurnafn stúlkunnar í þágufalli. Annie Mist Þórisdóttur tókst… Henni tókst …. Svipuð villa er í myndatexta í Morgunblaðinu (16.07.2012) … fyrir utan Hákonarstofu sem reist var til minningar um móðurbróðir hans … Móðurbróður, hefði átt að standa þarna Þetta eru grunnskólavillur. Þær heyrast og sjást of oft.

Úr dv.is /16.07.2012): Tveir fengu að gista fangageymslu lögreglu í vikunni vegna ölvunarástands. Vegna ölvunarástands? Vegna ölvunar. Óttalegt rugl.

Svo má búast við síðdegisskúrum síðdegis á morgun, eins og sagt var í veðurfregnum Stöðvar tvö (16.07.2012)

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>