«

»

Molar um málfar og miðla 957

Í fréttum Ríkissjónvarps (16.07.2012) var rætt um fjölda farþega sem færu um Heathrow flugvöll við London. Talað var um farþega sem færu í gegn um Heathrow. Ekki er Molaskrifari sáttur við það orðalag.

Eldur í trollveiðafærum, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (16.07.2012). Þarna var eldur í veiðarfærum. Kviknað hafði í botnvörpu, trolli. Það er ekkert til sem heitir veiðafæri.
Af mbl.is (16.07.2012): Fyrra útkallið var á tíunda tímanum í morgun, en þá barst tilkynning um að áhafnarmeðlimur um borð í þotu Delta Airlines, sem var á leið frá Hollandi til Bandaríkjanna hefði veikst og var hann fluttur á Landspítalann er til Keflavíkur var komið. Niðurlag þessarar fréttar vefst svolítið fyrir mér: … var hann fluttur á Landspítalann er til Keflavíkur var komið. Og svo er auðvitað áhafnarmeðlimurinn á sínum stað!
Í tíufréttum Ríkissjónvarpsins (16.07.2012) var sagt frá dýpkun Grindavíkurhafnar. Talað var um að bora göt á klöpp á hafsbotni. Eðlilegra hefði verið að tala um holur frekar en göt.

Lesandi sendi þetta: ,,Á baksíðu Fréttablaðsins (lengst til vinsstri á síðunni) þriðjudaginn 17. júlí er smádálkurinn „Mest lesið Vísir“
Þar er gleðileg frétt: Hnoðaði lífi í ókunnuga konu á bílaplani
Merking og notkun málfræðilegra falla fer að verða svolítið óljós.” Ekkert ofsagt í þeim efnum.

Að sögn Fréttablaðsins hefur Vinnueftirlitið gert alvarlegar athugasemdir við vinnulag í þáttum Ríkissjónvarpsin sem það kallar Gulli byggir. Ekki virðist umsjónarmaður taka þetta neitt nærri sér ,ef marka má ummæli hans í Fréttablaðinu (17.07.2012). Þetta minnir svolítið á það er umsjónarmaður annars þáttar í Ríkissjónvarpinu ók um landið í húsbíl sem lausan bolabít í framsætinu, sem var auðvitað brot á öllum reglum og stórhættulegt. Ríkissjónvarpið á að fara að lögum í þessu sem öðru.

Drög að samningi liggur á borði ráðherra (17.07.2012) var sagt í fréttum Ríkissjónvarps. Drög að samningum liggja á borði ráðherra hefði þetta átt að vera.

Í sama fréttatíma var sagt var sagt að makríltorfur væru víðsvegar um landið. Eðlilegra hefði verið að segja að makríltorfur væru víða við landið.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. Dagbjartur Gunnar Lúðvíksson skrifar:

    Er akstur með lausan bolabít í framsæti brot á ÖLLUM reglum? Líka þessum um of hraðan akstur og tilkynningaskyldu vegna vinnslu persónuupplýsinga?

    Ég fylgist reglulega með skrifunum þínum og þykir mér ónákvæmni sem þessi frávik frá því sem lesendur hafa fengið að venjast. Að öðru leyti er pistillinn til fyrirmyndar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>