«

»

Molar um málfar og miðla 958

Mikilvægt er í fréttum að farið sé rétt með mannanöfn, – eins og allt annað reyndar. Í morgunútvarpi Rásar tvö (19.07.2012) var rangt farið með nafn formanns Samtaka aldraðra. Hann var sagður Jónsson, en er Jónasson, Erling Garðar Jónasson. Ekki heyrði Molaskrifari að þessi missögn væri leiðrétt. Ríkisútvarpið er heldur tregt til leiðréttinga, á þó til að leiðrétta nöfn sem rangt er farið með. Stundum.

Í dálki Fréttablaðsins Frá degi til dags (19.07.2012) er réttilega vakin athygli á hallærislegu vinnuheiti nýrra stjórnmálasamtaka sem enn sem komið er munu kalla sig Piratapartýið. Þar segir: ,,Nú er pirati ekki íslenskt orð og partý ekki samheiti við flokk og þess vegna er nafngiftin tóm steypa”. Molaskrifari tekur undir. Þetta er hverju orði sannara. Birgittu Jónsdóttur alþingismanns verður seint minnst fyrir framlag hennar til málvöndunar.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (19.07.2012) var sagt frá drukknum manni sem vildi komast inn í bíla við tiltekna götu á höfuðborgarsvæðinu. Fréttamaður sagði að lögregluan hefði spurt manninn hvað honum stæði til? Að líkindum hefur lögreglan spurt manninn hvað honum gengi til, ekki stæði til. Hér var reyndar ekki um mismæli að ræða því á fréttavef Ríkisútvarpsins stendur: Þegar lögregla kom á staðinn og ynnti hann eftir því hvað honum stæði til sagðist hann vera utan af landi og hefði enga gistingu. Svo ætti hér að standa: … innti eftir, – ekki ynnti eftir. Hér áður fyrr var byrjað að þjálfa nemendur í stafsetningu í barnaskóla og haldið fram til stúdentsprófs.

Þulur sem las auglýsingar og tilkynningar í hádegisútvarpi (18.07.2012) þarf að fá leiðbeiningar um að lesa með eðlilegri hrynjandi. Kannski hlusta menn ekki í Efstaleiti. Það hefur gerst áður.

Mikið klúður hefur komið upp í tengslum við öryggisgæslu á Olympíuleikunum í London. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar Ed Miliband formaður Verkamannaflokksins hefur sagt við BBC (19.07.2012) að hann sé sannfærður um að fyllsta öryggis verði gætt og öryggisgæsla verði í góðu lagi á leikunum. Ef hliðstætt mál kæmi upp á Íslandi mundu Bjarni Ben. og Sigmundur Davíð ásamt Morgunblaðinu hefja stórskotaliðsárásir á Steingrím, Jóhönnu og Ögmund. Þetta er munurinn á breskri og íslenskri pólitík.

Af visir.is (19.07.2012): Skipið Maggý VE 108 er nú komið til hafnar í Vestmannaeyjum en það var dráttarskipið Lóðsinn sem dróg það í land. Það var eins gott að það var ekki dróg sem dró skipið til hafnar. Svo hefði komið sér ágætlega fyrir þann sem skrifaði þessa frétt að kunna orðið skipverji. Þá hefði hann ekki þurft að tala um áhafnarmeðlimi ! Þeir fóru strax í flotgalla og voru óhultir, en áhafnarmeðlimir slökktu eldinn sjálfir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>