Athugull lesandi benti á frétt á mbl.is (19.07.2012) um að fleiri Danir giftist nú útlendingum. Fréttin er hér: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2012/07/19/fleiri_danir_giftast_utlendingum/. Hann segir síðan: ,,Ef fleiri Danir giftast útlendingum en öðrum Dönum, þá ættu tveir þriðju nýrra hjónabanda Dana að vera við útlendinga. Það eru tveir Danir um hvert innbyrðis hjónaband, en einn í hverju hjónabandi við útlending. Samkvæmt fréttinni var hins vegar 1 af hverjum 7 hjónaböndum í Danmörku milli Dana og útlendings. Hvernig á að skilja þetta? “ Molaskrifari stendur á gati.
Annar athugull lesandi benti á þessa frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (19.07.2012)). http://www.ruv.is/frett/lisa-simpson-a-olympiuleikana
Síðan segir þessi lesandi: ,,Ég renndi yfir þessa frétt og fann strax sex villur. Eflaust má finna fleiri ef vel er að gáð.
Ég sendi tvö bréf, annað á fréttastofuna og hitt á íþróttadeildina, þar sem ég benti á villurnar en engin þeirra hefur verið lagfærð.” Molaskrifari þakkar sendinguna og rifjar upp að áður en Molaskrif hófust sendi hann fréttastofu Ríkisútvarpsins stundum það sem hann kallaði ,,vinsamlegar ábendingar” um það sem betur mátti fara í málfari. Hann var ekki virtur svars utan einu sinni. Það var engin þörf fyrir ,,vinsamlegar ábendingar”, – sem svo sannarlega voru settar fram í vinsemd og af góðum hug.
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (19.07.2012) var sagt að mannbjörg hefði orðið þegar hafnsögubáturinn Lóðsinn hefði dregið humarbát til hafnar. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag, – finnst það ekki rökrétt. Eðlilegra hefði verið að segja að mannbjörg hefði orðið þegar leki kom að humarbáti og eldur kom upp í bátnum.
Í fréttum Stöðvar tvö (19.07.2012) var viðtal við eigendur lystisnekkju sem keypt hefur verið til landsins og á að standa stöndugum ferðamönnum til boða gegn gjaldi. Ekki spurði fréttamaður þó þeirrar spurningar sem sjálfsagt vakti í hugum flestra áhorfenda: Hvað kostaði farkosturinn? Heldur klént.
Þættirnir sem Ríkissjónvarpið kallar Flikk – flakk eru ekki ýkja merkilegt sjónvarpsefni. Umsjónarmaður sem óspart auglýsir útvistarfatnað frá 66° Norður (gilda engar reglur um slíka auglýsingamennsku?) talaði um að fara í siglingu á Jökulsárlón og að þau hefðu tvo daga til að rigga þessu upp. Ríkissjónvarpið á að gera þá kröfu til dagskrárgerðarmanna að þeir séu sæmilega talandi. Raunar þyrfti helst að texta það sem umsjónarmaður segir, – ef menn vilja að það skiljist. Umsjónarmenn ,,Virkra morgna” á Rás tvö ættu að láta sjónvarpsdagskrána í friði.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar