«

»

Molar um málfar og miðla 960

Málglöggur lesandi sendi Molum eftirfarandi:
,,Eitt af því sem mér þykir reglulega sorglegt er hvernig farið er með viðtengingarhátt og hjálparsagnir
Hér er skrautlegt dæmi úr netútgáfu DV í dag (20. júlí):
Faðir Romylyn var skotinn til bana í Filippseyjum árið 2009. Hann vildi að Romylyn myndi verða áfram hjá móður sinni og bréf þess eðlis var sent til Útlendingastofnunar, ásamt dánarvottorði.
Hjálparsögnin ,,myndi” táknar ákveðinn efa eða fyrirvara en þarna er borin fram afdráttarlaus fullyrðing. Hér ætti að standa ,,hann vildi að hún yrði áfram hjá móður sinni …”
En allt stefnir að því sama – óbjörgulegt málfar ungra blaðamanna er oft fyrir neðan allar hellur. Hvað má t.d. segja um orðasambandið ,,bréf þess eðlis”? ”. Molaskrifari þakkar sendinguna. Það er ekki mikil íslenskukunnátta sem fram kemur í þessum skrifum á fréttavef DV.

Af mbl.is (19.07.2012): Systkinin Bríet Björg og Finnbogi Örn ákváðu að efna til heljarinnar veislu til þess að þakka fyrir sig eftir að Finnbogi fór í hjartaaðgerð í Svíþjóð. Í veislunni söfnuðu þau fyrir hjartveikum börnum. Þeim sem þetta skrifaði láðist að geta þess hve safnað hefði verið fyrir mörgum börnum. Hér hefði átt að tala um að safna fé handa hjartveikum börn. Enn sem fyrr sér þess merki að fólk sem kann ekki íslensku valsar eftirlitslaust um lyklaborð netmiðlanna og skrifar allskonar bull.

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (20.07.2012) var sagt um mótmæli að þau hefðu verið friðsöm. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að mótmælin hefðu verið friðsamleg, farið friðsamlega fram? Í sama fréttatíma var sagt frá erlendu kvikmyndatökufólki sem ætlaði að sölsa undir sig Norðurland. Fréttamenn eiga ekki að nota orðtök nema kunna með þau að fara og vita hvað þau þýða.

Það er meira en hálf hallærislegt þegar fréttamaður Ríkissjónvarps setur á sig svuntu og stendur við útigrill til að segja stutta frétt af því að grillkjöt seljist vel í góðu veðri eins og verið hefur framan af sumri, – sem er reyndar svo sem engin frétt. Svona sviðsettur kjánagangur ýtir undir þá skoðun að sjónvarpsfréttir séu ekki alvörufréttir , – heldur einhverskonar leikaraskapur Fréttatími Ríkissjónvarpsins á ekki að vera vettvangur fyrir svona kjánagang. Þetta sýnir kannski betur en margt annað að lítil eða engin alvöru verkstjórn er á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þar gerir bara hver það sem honum sýnist. Hvar er dómgreindin? Hvar er ritstjórnin?

Það bregst ekki að enskuskotinn slúður- og slettupistill vestan af Kyrrahafsströnd Bandaríkjanna er á sínum stað í morgunþætti Rásar tvö á föstudagsmorgnum. Í síðasta þætti var í löngu máli sagt frá nær áttræðum karli sem gripinn var í klámbíói með buxurnar á hælum eins og það var orðað í þættinum. Er það hlutverk Ríkisútvarpsins að flytja klámtengt slúður af þessu tagi? Á að verja takmörkuðu dagskrárfé til að kaupa klámslúður af konu vestur í Ameríku? Konan bauðst meira að segja til að láta þáttastjórnendum í té nettengil á klámið! Það er sífellt verið að draga Ríkisútvarpið dýpra niður í svaðið. Stjórnendur í Efstaleiti sem láta slíkt viðgangast eru óhæfir stjórnendur. Dagskrárgerðarmenn ganga sjálfala um lendur ljósvakans. Sumir þeirra hafa ekki þroska til slíks sjálfræðis.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Engar athugasemdir

1 ping

  1. Engin alvöru verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins skrifar:

    […] Í nýjum pistli fer Eiður hörðum orðum um fréttastofu Ríkisútvarpsins: „Það er meira en hálf hallærislegt þegar fréttamaður Ríkissjónvarps setur á sig svuntu og stendur við útigrill til að segja stutta frétt af því að grillkjöt seljist vel í góðu veðri eins og verið hefur framan af sumri, – sem er reyndar svo sem engin frétt. Svona sviðsettur kjánagangur ýtir undir þá skoðun að sjónvarpsfréttir séu ekki alvörufréttir , – heldur einhverskonar leikaraskapur Fréttatími Ríkissjónvarpsins á ekki að vera vettvangur fyrir svona kjánagang. Þetta sýnir kannski betur en margt annað að lítil eða engin alvöru verkstjórn er á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Þar gerir bara hver það sem honum sýnist. Hvar er dómgreindin? Hvar er ritstjórnin?” […]

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>