Það er ekki til fyrirmyndar þegar Morgunblaðið á bls. 2 (21.07.2012) birtir mynd af barni á þriðja ári sem situr á bryggjupolla við bryggjubrún með veiðistöng. Breytir þar engu þótt faðir barnsins hafi verið nærri. Hvað segir Herdís Storgaard, hjúkrunarfræðingur, sem ötulast hefur barist fyrir auknu öryggi barna?
Skelfilegar fréttir bárust frá Bandaríkjunum um fjöldamorð í kvikmyndahúsi. Molaskrifari efast um að fólk hér á landi almennt geri sér grein fyrir hve þetta hryllingsverk nú skekur bandarískt þjóðfélag. Þar verður að boði forsetans flaggað í hálfa stöng næstu sex daga. Aðalfréttaþulur CBS í New York fór á vettvang í Denver og sex fréttamenn komu að fréttinni sem CBS flutti af þessum hörmulega atburði á föstudagskvöld. Samtímis heyrum við daglegar fréttir af fjöldamorðum sem Sýrlandsforseti lætur fremja í skjóli Rússa og Kínverja og er þar ekkert lát á. En litla, friðsæla Reykjavík er líka vígvöllur. Þar voru framdar fjórar líkamsárásir aðfaranótt laugardags.
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarpsins á föstudagskvöldi (20.07.2012) var sagt: Lánin numu samtals … Molaskrifari er á því að hér hefði átt að segja: Lánin námu samtals … Hinsvegar munu lánin hafa numið samtals …
Þeir sem á ensku er kallaðir businessmen eru nú æ oftar í fjölmiðlum kallaðir viðskiptamenn. Hvað varð um hið ágæta orð kaupsýslumaður?
Sá sem skrifaði þessa frétt á mbl.is (21.07.2012) skilur ekki merkingarmun sagnanna að versla og kaupa: Interpol í London hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fólk er varað við að versla miða á Ólimpíuleikana 2012 og Ólimpíuleika fatlaðra 2012 af félaginu „Euroteam.“ Í fréttinni er tvisvar sinnum talað um að versla miða, þegar átt er við að kaupa miða. Svo er y – í orðinu Ólympíuleikar, – ekki i . Ritvillan er líka tvítekin. Þið eigið að geta gert betur en þetta á mbl.is.
Molaskrifari var ekki yfirlýstur stuðnings neins frambjóðanda í nýafstöðnum forsetakosningum. Honum þykir hinsvegar ærlegt viðtal Péturs Blöndal við Þóru Arnórsdóttur í Sunnudagsmogga gott. Þar er framkomu Ólafs Ragnars Grímssonar rétt og heiðarlega lýst. Hvað hefði Ólafur Ragnar Grímsson sagt ef einhver hefði ráðist að eiginkonu hans með sama hætti og hann réðist með helberum ósannindum að eiginmanni Þóru Arnórsdóttur? Eiginkona forsetans var látin í friði í kosningabaráttunni. Að sjálfsögðu. En Ólafur Ragnar réðist með einstaklega ósvífnum hætti að maka annars frambjóðanda.
Hvað er feitur íþróttapakki sem talað var um í fréttum Ríkissjónvarps (21.07.2012)?
Sjálfsagt er að Ríkissjónvarpið sýni heilmikið frá Olympíuleikunum í London. En hversvegna þarf að henda aðalfréttatímanum út í hálfan mánuð og sýna í staðinn stuttar sjónvarpsfréttir klukkan 18 00 ? Sá fréttatími er á sama tíma og aðalfréttatími útvarpsins. Það getur varla raskað útsendingum frá London umtalsvert þótt fréttirnar fái að halda sínum fasta stað í dagskránni. Einhver kynni kannski að segja að bættur væri skaðinn, því sjónvarpsfréttirnar væru í vaxandi mæli myndskreytt útgáfa af útvarpsfréttunum klukkan 18 00. En fyrst og fremst sýnir þetta líklega að stjórnendur Ríkisútvarpsins líta á fréttir í sjónvarpi sem aukaatriði sem kasta megi til og frá í dagskránni. Þetta gera ekki alvöru sjónvarpsstöðvar, en þar eru stjórnendur íþróttadeildanna heldur ekki hæstráðandi um alla dagskrárskipulagningu eins og hjá Ríkissjónvarpinu íslenska.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
10 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Þorvaldur S skrifar:
25/07/2012 at 21:49 (UTC 0)
En við vitum líka báðir að Ólimpíuleikar er ekki ritvilla hvort sem það er óvenjulegt eða ekki. Það er venjulegt að hafa y í peysa en peisa er líka rétt. Svona gætum við haldið lengi áfram.
Leifur skrifar:
22/07/2012 at 21:09 (UTC 0)
Að ráða og að ráðast:
Hann réðst…. ekki hann réðist
sjá:
https://notendur.hi.is/gt/sagnavefur/100sagnir/rada.htm
Kv. L
Eiður skrifar:
22/07/2012 at 14:19 (UTC 0)
Ólympíuleikar er hinn venjulegi og viðtekni ritháttur, – hvað sem Mörður segir. Það vitum við báðir, Þorvaldur.
Þorvaldur S skrifar:
22/07/2012 at 13:21 (UTC 0)
„Svo er y – í orðinu Ólympíuleikar, – ekki i“
Ertu alveg viss um þetta? Þú verður þá að uppfræða félaga Mörð sem lætur sér slíka svívirðu um tölvu fara í nýjustu útgáfunni af Orðabókinni. Þar lætur hann, blygðunarlaust, Ólimpíuleika vera jafngilda, og stafsetningarafbrigði,Ólympíuleikum. Er þetta hægt?
Eiður skrifar:
22/07/2012 at 13:04 (UTC 0)
Mæltu manna heilastur, Sigurður.
Sigurður Karlsson skrifar:
22/07/2012 at 12:46 (UTC 0)
Góðan dag Magnús og Eiður.
Ekki hafa þeir lært íslensku í sama skóla og Magnús höfundar Njálu, Egils sögu og Laxdælu, svo dæmi séu tekin, og nota orðið „skaði“ ótæpilega en til dæmis samheitið „tjón“ varla nokkurn tíma. Í Laxdælu er einmitt að finna orðasambandið „bættur skaðinn“ sem og í mörgum bókum Laxness. Og ekki þætti mér hljóma vel ef Eiður hefði sagt í staðinn „að bætt væri tjónið“ til að forðast meinta dönskuslettu.
Eiður skrifar:
22/07/2012 at 12:34 (UTC 0)
Tjón er að sjálfsögðu líka prýðilegt orð.
Magnús skrifar:
22/07/2012 at 11:41 (UTC 0)
Er það afsökun? Við eigum orðið tjón í staðinn fyrir skaða. Er ekki allt í lagi að nota íslenskuna?
Eiður skrifar:
22/07/2012 at 11:27 (UTC 0)
Góðan daginn, Magnús. Ef skaði er dönskusletta, þá eru þær líklega næstum óteljandi í íslensku.
Magnús skrifar:
22/07/2012 at 10:50 (UTC 0)
Góan daginn Eiður. Í mínum skóla var dönskuslettan skaði bannorð. Við eigum gott íslenskt orð yfir skaða, ekki rétt?