Sagt var frá því í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (02.08.2012) að hvalaskoðunarbátur hefði strandað fyrir norðan. Aldrei nein hætta á ferðum, sagði fulltrúi eigenda bátsins. Molaskrifari hefði haldið að alltaf væri hætta á ferðum þegar skip stranda, ekki síst ef 35 manns eru um borð. Fréttamaður sagði hlustendum að þrír áhafnarmeðlimir hefðu verið um borð og siglt bátnum til Húsavíkur og spurði svo: Tekur hann undir á grynningum, eða … ? Báturinn tók niðri á grynningum , en allt fór betur en áhorfðist. Í sama fréttatíma var sagt að tiltekin atriði hefðu verið staðfest fyrir Fréttastofu Ríkisútvarpsins. Eðlilegra hefði verið að segja að þetta hefði verið staðfest við Fréttastofu Ríkisútvarpsins.
Vopnahlé var ekki brotið eins og sagt var í fréttum Ríkissjónvarps (02.08.2012). Vopnahléið var rofið.
Af dv.is (02.08.2012): Myndin er leikstýrið af Darren Aronofsky. Sá sem þetta skrifaði hefur væntanlega ætlað að skrifa: Myndin er leikstýrð af … Það er heldur ekki gott. Betra hefði verið: Myndinni leikstýrir …, eða leikstjóri myndarinnar er …
Varnarlega vorum við á hælunum, var sagt í handboltaspjalli fyrir leik Íslendinga og Svía (02.08.2012) . Molaskrifari játar fúslega að þetta skildi hann ekki. Vorum við kannski með allt á hælunum, eða þannig ?
Úr Dagskránni, Fréttablaði Suðurlands (02.08.22012): Það er mikil vakning varðandi taubleyjur, þær eru algjörlega að koma aftur og flottari og tæknilegri en nokkru sinni fyrr. Eru algjörlega að koma aftur ! Tæknilegri en fyrr! Geta taubleyjur verið misjafnlega tæknilegar?
Í fréttatíma Stöðvar tvö (02.08.2012) heyrðist enn einu sinni: Samkvæmt lögreglu … Langtum betra væri að segja: Að sögn lögreglunnar, eða samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni. Í sömu frétt var sagt: Þegar fréttatíminn fór í loftið ! Eins hefði mátt segja: Þegar þessi fréttatími hófst.
Af dv.is (02.08.2012): Hann var á leið erlendis með vinum sínum. Það heyrir senn til undantekninga að orðið erlendis sé rétt notað. Hér hefði átt að segja: Hann var á leið til útlanda með vinum sínum. Svo mætti segja: Mér er sagt að hann sé erlendis með vinum sínum . Menn fara ekki erlendis. Menn eru erlendis. Í sama skrifi var sagt: Þessu taka félagar hans hinsvegar ansi óstinnt upp. Hér hefði mátt segja: Þetta taka félagar hans hinsvegar ansi óstinnt up, eða: Þessu taka félagar hans illa.
Í fimmfréttum Ríkisútvarpsins (03.08.2012) var sagt: … illa hafi gengið fyrir ökumenn að ... Einfaldara og betra hefði verið að segja að ökumönnum hafi gengið illa að, eða erfitt var fyrir ökumenn að … …Í þessum fréttatíma voru fleiri ambögur. Lokað er fyrir aðgang að þessum fréttatíma á fréttavef Ríkisútvarpsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar