Af dv.is (01.08.2012): Aðilarnir vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls, að því er fram kemur í upplýsingum frá lögreglu. Ekki að spyrja að þessum aðilum. Aldrei til friðs. Voru þetta ekki bara menn? Og voru þeir ekki vistaðir í fangageymslu vegna rannsóknar máls, ekki fyrir rannsókn máls?
Eruð þið með ykkar eigin gæda, var spurt í viðtali í morgunþætti Rásar tvö (01.08.2012). Er það ekki málstefna Ríkisútvarpsins að forðast slettur?. Hvað er að hinu ágæta orði leiðsögumaður? Sami spyrill spurði svo af snilld: Hvernig er fólkið í Grænlandi?
Rás tvö auglýsir verslunarmannahelgina sem stærstu ferðahelgi ársins. Fleiri nota þetta orðalag í auglýsingum. Væri ekki eðlilegra að tala um mestu ferðahelgi ársins? Molaskrifari hallast að því.
Lög um gjaldeyrisviðskipti er ætlað koma í veg fyrir að hægt sé að svindla á gjaldeyrishöftunum, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (01.08.2012). Hann hefði átt að segja: Lögum um gjaldeyrisviðskipti er ætlað að koma í veg fyrir …
Þegar Molaskrifari vann á fréttastofu sjónvarpsins í áratug eða rúmlega það fyrir langa löngu var það föst vinnureglu að segja í Neskaupstað, – ekki á Neskaupstað. Nú virðist það föst regla í Ríkisútvarpinu að segja á Neskaupstað. Séra Emil Björnsson fréttastjóri sagði jafnan: Við förum í kaupstað, ekki á kaupstað.
Hvað eru þessar rannsóknir að segja okkur, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (01.08.2012). Hann átti við: Hverjar eru niðurstöður rannsóknanna?
Það var mikil tillitssemi sjónvarpsstöðvanna við forseta Íslands að sýna ekki margar yfirlitsmyndir frá Austurvelli er forsetinn var settur í embætti. Þar var nefnilega lítið fleira fólk en á venjulegum góðviðrisdegi.
Af mbl.is (01.08.2012): Bílstjóri umræddrar rútu hafði samband við lögregluna á Egilsstöðum … var honum veitt fararleyfi gegn því skilyrði að hann æki Breiðadalsheiðina, færi ekki austur firðina. Þótt Molaskrifari sé ekki mjög staðkunnugur eystra veit hann að Breiðadalsheiði er á Vestfjarðakjálkanum en fyrir austan er Breiðdalsheiði. Þá væri líklega eðlilegra hér að tala um að aka suður firðina, ekki austur.
Ekki er Molaskrifari sáttur við að kalla Hraundranga í Öxnadal fjall eins og gert var í morgunþætti Rásar tvö (02.08.2011). Hraundrangi er tindur eins og þeir sjá sem fara um Öxnadal. En kannski hefur sá sem þetta sagði aldrei farið um Öxnadal og er því vorkunn.
Fréttaritarar Ríkisútvarpsins erlendis eru öflugur bakhjarl fréttatímanna. Af handahófi nefnir Molaskrifari Svein Helgason vestra, Kristin R. Ólason í Madríd, Borgþór Arngrímsson í Kaupmannahöfn, Gísla Kristjánsson í Noregi og Sigrúnu Davíðsdóttur í Lundúnum. Hörkulið sem bætir fréttatímana.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
03/08/2012 at 14:57 (UTC 0)
Kærar þakkir, Friðrik Smári. Þetta er athyglisvert, en um leið hálf dapurlegt.
Friðrik Smári Sigmundsson skrifar:
03/08/2012 at 14:19 (UTC 0)
Ég má til með að taka undir orð þín hvað aðila varðar. Þetta er náttúrlega óþolandi og við blaðamenn að sakast sem beita svonefndri afritunar-blaðamennsku, þ.e. taka upp texta frá lögreglunni og birta sem þeirra eigin.
Sem dæmi má nefna tilkynningu frá lögreglunni í Vestmannaeyjum fyrr í dag:
Þjóðhátíð 2012 sett í dag
Töluverður erill var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt og ýmis verkefni sem þurfti að sinna. Fimm gistu fangageymslu vegna ölvunarástands og slagsmála. Engar kærur liggja þó fyrir vegna þessara mála. Tvær þjófnaðarkærur voru tilkynntar til lögreglu en um var að ræða þjófnað úr tjaldi og náðu gæslumenn sem voru í Herjóflsdal þessum aðila sem var að stela úr tjaldinu. Þá var önnur tilkynning til lögreglunar um þjófnað á síma. Um 7 fíkniefnamál komu upp en um er að ræða svokölluð neyslumál. Efnin sem haldlögð voru maríhuana, amfetamín og sveppir.
Undir morgun var aðli tekinn grunaður um ölvaðun við akstur og kom í ljós að hann var án ökuréttinda. Í sama máli var annar aðili handtekinn þar sem hann var grunaður að hafa ekið sömu bifreið undir áhrifum. Málið er í rannsókn og það tilkynnt til barnaverndaryfirvalda þar sem annar ökumaðurinn er ekki orðinn 17 ára.
Í umræddu tilviki sem þú vitnar til er um að ræða tilkynningu frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins snemmmorguns 1. ágúst. Þar segir meðal annars:
05:22 Tveir aðilar handteknir við Bíldshöfða grunaðir um þjófnað á felgum og dekkjum undan bifreiðum. Aðilarnir vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls. L – 4.
Blaðamaður DV reynir ekki að bæta neinu við tilkynninguna, ekki einu sinni að laga málfarið. Skammarlegt að vita til þess að lögreglumenn skrifi flestar fréttir um eigin störf.