«

»

Molar um málfar og miðla 971

Sjónvarpsáhorfandi og Molalesandi sendi Molum eftirfarandi: ,,Leyfi mér að nefna  atriði sem mér þykir hvimleitt í sjónvarpi þó að það varði ekki málfar.
Þegar skilti birtist með frétt þar sem segir hver er viðmælandi o.s.frv. standa þau of stutt á skjánum. Slíkt skilti skiptir yfirleitt engu máli uppá myndina og má alveg standa lengur en 2-3 sekúndur – jafnvel alltaf þegar andlit viðmælandans er á skjánum. Þetta á reyndar oft við önnur skilti til útskýringar, það virðist vera einhver stefna í myndstjórn að þetta blasi við sem styst.”. Molaskerifari tekur undir þessa réttmætu ábendingu. Vonandi lesa einhverjir þetta sem stýra  útsendingum í Ríkissjónvarpinu.

 

 Undarlegt var að hlýða á ummæli knattspyrnuþjálfara (31.07.2012) í fréttum Stöðvar tvö, sem vart var hægt að skilja á annan veg en að hann harmaði að menn hans skyldu ekki geta meitt eða slasað andstæðing. Hvað átti hann annars við með því að tala um að strauja manninn?

 

 Hvað eigið þið von á miklu fólki? Svona orðaði fréttamaður Ríkissjónvarpsins  spurningu um hvað væri von á mörgum gestum á samkomu Ungmennafélags Íslands á Selfossi um helgina. Það verða áreiðanlega margir  á Selfossi um helgina. Þar verður margt um manninn, margt fólk.

 

 Gott dæmi um leikaraskap sem settur er á svið vegna sjónvarpsfrétta var þegar formaður borgarráðs Reykjavíkur og vegamálastjóri undirrituðu samning (31.07.2012) um hjólastíga og gangstíga. Þeir komu hjólandi á staðinn. Hefðu hjólreiðamennirnir annars ekki átt að vera með hjálma?

 

  Ekki heyrði Molaskrifari betur en í fréttum Ríkissjónvarps (231.07.2012) væri talað um félagslega hæfingu. Molaskrifari játar að hann skilur ekki hvað í þessum orðum felst. Engin skýring kom fram í fréttinni.

 

 Orðið verðlaun er fleirtöluorð. Þessvegna eiga íþróttafréttamenn Ríkissjónvarps ekki aftur og aftur að tala um tvö verðlaun og þrjú verðlaun eins og gert var til dæmis á þriðjudagskvöld (31.07.2012). Rétt er að tala um tvenn verðlaun og þrenn verðlaun.

 

 Dálitið orkar það tvímælis að segja að veitingastaður sem opnaður var í Reykjavík fyrir áratug sé einn rótgrónasti veitingastaður borgarinnar eins og gert var í fréttum Ríkissjónvarps (31.07.2012)

 

  Vera Illugadóttur, nýr liðsmaður fréttaastofu Ríkisútvarpsins virðist þeirri stofnun öflugur liðsauki og veitir nú ekki af.

 

Hér-hikk – á rúv konuröddin (sem orðin er einskonar vörumerki Ríkissjónvarpsins) sagði áhorfendum Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöld að strax að loknum fréttum og veðri yrði sýnd mynd um Marilyn Monroe. Því var sleppt að segja frá viðtali við forseta Íslands sem var sýnt strax að loknum fréttum. Rétt eins og það væri ekki á dagskrá.  Hverskonar vinnubrögð eru þetta? Var þessu viðtali skotið inn á síðustu stundu? Ekki hefur innsetning forseta í embætti komið stjórnendum Ríkisútvarpsins á óvart. Var Ríkisútvarpið kannski beitt þrýstingi til að troða þessu inn í dagskrána á síðustu stundu. Ber svolítinn keim af því. Enn eitt dæmið um stjórnunarvandann í Efstaleitinu.

 

Útsendingarstjórum Ríkissjónvarpsins gengur einstaklega illa um þessar mundir að láta seinni fréttir hefjast á réttum tíma. Það tókst ekki í gærkveldi (01.08.2012). Bogi Ágústsson sýndi áhorfendum þá kurteisi að biðjast afsökunar á seinkuninni. Hann kann sig. Stundvísi útsendinga útvarpsins er hinsvegar yfirleitt 100%. Til fyrirmyndar. Útsendingarstjórar sjónvarpsins ættu að fá þá hjá útvarpinu til að kenna sér á klukku.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ég var ekki að hafa á móti orðinu, heldur hugarfarinu sem lá þarna að baki. Um það erum við sammála.

  2. Axel skrifar:

    Það er skemmtileg að fótboltaheimurinn noti tungumálið á skapandi hátt. Strauja merkir til dæmis harkaleg tækling – og þykir engum fótboltamanni til tekna að grípa til slíkra aðgerða. Í því ljósi ætti þjálfarinn sem hvatti til að strauja ákveðinn leikmann andstæðinganna að skammast sín. Í Bretlandi yrði hann líklegast dæmdur í margra leikja bann. Hér á landi er auðvitað ekkert gert…

  3. Valur skrifar:

    „Molaskerifari tekur undir þessa réttmætu ábendingu“

    Molaskerifari?

    „Hefðu hjólreiðamennirnir annars ekki átt að vera með hjálma?“

    Samkvæmt lögum ber fullorðnum einstaklingi ekki skylda til að vera með hjálm, en þeir hefðu mátt sýna gott fordæmi.

    „Vera Illugadóttur, nýr liðsmaður fréttaastofu“

    Er það ekki, Vera Illugadóttir í þessu samhengi ? Fyrir utan að það eru ekki tvö „a“ í fréttastofu

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>