Lesandi sendi eftirfarandi línur: ,,Sendi hér með kafla úr frétt Fréttablaðsins sem birtist jafnframt á vefnum visir.is. Hér hefur hraðinn borið athyglisgáfuna ofurliði… eða hvað? Eða menn ekki nennt að lesa yfir efnið.
http://www.visir.is/ruturnar-faerdar-lengra-fra-leifsstod/article/2012707309991
Þar er sem sagt talað við Þóri Garðarsson hjá Iceland Excursion sem heitir svo allt í einu Garðar í tvö skipti rétt neðar.
Þórir Garðarsson sölu- og markaðsstjóri Iceland Excursion er á sama máli.,,Auðvitað er ljóst að aðstaðan við flugvöllinn var sprungin. Það var svo mikil umferð þarna að rúturnar voru komnar í röð sem náði nánast út á akveginn,“ segir Garðar. Bæði Garðar og Agnar gera ráð fyrir að breytingarnar séu tímabundnar.,,Við lítum svo að þetta sé bráðabrigðaaðgerð og að í vetur verði bílastæðið fært á gamla staðinn aftur,“ segir Garðar” Molaskrifari þakkar sendinguna.
Í tekjublaði DV fyrir helgina var vakin athygli á lágum launum sjónvarpsstjóra ÍNN. Í dag (01.08.2012) vekur DV athygli á því að ekki er sama útvarpsstjóri og útvarpsstjóri. Útvarpsstjóri ríkisins er með hálfa aðra milljón á mánuði en Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri Sögu með 187 þúsund krónur. Meðreiðarsveinn hennar og stjórnarformaður Pétur Gunnlaugsson væri líklega með enn lægri laun ef þjóðin hefði ekki komið honum til bjargar og greitt honum fyrir setu í Stjórnlagaráði,sem DV réttilega nefnir. Molaskrifari vakti á dögunum athygli á lágum launum Sögustjórans og fékk yfir sig ærna skvettu úr svívirðingaskólpfötu hennar ásamt lygum um eftirlaun hans sem hún endurtekur með reglulegu millibili. Nú verður fróðlegt að sjá hvort Reynir Traustanson ritstjóri DV fær sömu meðferð hjá Arnþrúði Karlsdóttur og Molaskrifari, svívirðingar og lygar. Sennilega brestur útvarpsstjórann kjark til þess að ráðast á Reyni. En auðvitað hlýtur skattrannsóknastjóri að taka mál til meðferðar þar sem blasir við augum að stjórnendur fyrirtækja greiða sér lúsarlaun sem naumast duga til lífsviðurværis. Til þess er embætti skattrannsóknastjóra.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (30.07.2012) var talað um stórtækan smáþjóf. Sú spurning vaknar hvort stórtækur þjófur sé smáþjófur ?
Fimleikar og dýfingar eru með skemmtilegasta efni frá OL í London. Þekking þess sem lýsti fimleikum karla (30.07.2012) kom Molaskrifara ánægjulega á óvart. Það er nefnilega fremur sjaldgæft að lýsingar á íþróttum bæti miklu við það sem maður sér á skjánum. Þetta var til fyrirmyndar.
Sumir boltaleikjaþjálfarar hafa mikið dálæti á orðinu varnarlega. Tveir þeirra notuðu þetta orð í fréttatíma Stöðvar tvö á mánudag (30.07.2012)
.. kettlingarnir eru bornir á höndum sér, skrifar Moggabloggarinn Ásthildur Cesil Þórðardóttir (30.07.2012). Hvernig skyldi það vera gert?
Langt er um liðið síðan Molaskrifari las Great Expectations eftir Charles Dickens. BBC hefur nú gert myndaflokk eftir bókinni. Fyrsti þáttur sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld (29.07.2012) lofar góðu. Engir standa Bretum á sporði í þessum efnum. Þessir þættir hafa verið sýndir á Norðurlöndunum að undanförnu. Þetta er úrvalsefni sem Efstaleitið aldrei þessu vant býður okkur upp á.
Undarlega orðuð frétt á dv.is (30.07.2012): http://www.dv.is/frettir/2012/7/30/alvarlega-slasadur-en-nadi-ad-leita-ser-hjalpar/ Maðurinn fékk gat á hausinn en leitaði sér hjálpar á veginum. Ekki boðlegt orðalag. Þarna hefur fréttabarn líklega verið að verki.
Molaskrifari hefur ekki sagt eitt hnjóðsyrði um endalausar útsendingar frá Ólympíuleikunum, og kemur kannski einhverjum á óvart! Um þær gildir allt annað en mismerkilega fótboltaleiki og fótbótboltafimbulfamb misviturra ,,sérfræðinga” sem sjónvarp ríkisins dældi yfir okkur fimm klukkutíma á dag, dag eftir dag fyrr í sumar.
Hinsvegar er Molaskrifari á því að hægt hefði verið að sýna Ólympíuleikunum fullan sóma og vel það þótt fréttir Ríkissjónvarps og veðurfregnir hefðu fengið að vera í friði á sínum stað. – En þegar búið er að ryðja fyrri fréttunum burt er það eiginlega lágmark að seinni fréttir hefjist á réttum tíma. Svo var ekki á mánudagskvöld (30.07.2012). Og enginn baðst afsökunar á seinkuninni, – ekki frekar en fyrri daginn.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
orion skrifar:
01/08/2012 at 13:17 (UTC 0)
Þetta verður frú Arnþrúður að svara fyrir. Það er megn fnykur í loftinu sem kannski á sér eðlilegar skýringar.
Það er eðlilegt að gera meiri kröfur til „valkyrju réttlætisins“ en meðalskussans.