Í fréttayfirliti í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (29.07.2012) var sagt: Drög að samningi liggur nú fyrir. Í fréttinni sjálfri var hinsvegar réttilega sagt að drög að samningi lægju fyrir.
Hráþýðingar eru of algengar í fréttum. Þannig át hver fjölmiðillinn eftir öðrum á dögunum að yfirvofandi bardagi í borginni Aleppo í Sýrlandi yrði móðir allra bardaga. Bardaginn yrði sem sagt mjög harður. Þetta er einkar óíslenskulegt orðalag enda hráþýðing úr ensku.
Fréttamenn og þulir Stöðvar tvö halda sig við enska framburðinn á borgarheitinu Damaskus og hafa áhersluna á öðru atkvæði / da´maskus /. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði.
Forsetninganotkun þvælist fyrir fjölmiðlamönnum. Aftur og aftur er í Ríkisútvarpinu talað um að taka þátt á Ólympíuleikunum. Í fréttum Stöðvar tvö (29.07.2012) var sagt að margir hefðu hvatt Sigríði Ingibjörgu um að gefa kost á sér. Talað er um að hvetja til, ekki hvetja um.
Kannski er það sérviska, Molaskrifari er sérvitur eins og lesendur vita, en hann fellir sig ekki við orðalag sem notað var í fréttum Ríkissjónvarps (29.07.2012) er sagt var að ekki þjónaði tilgangi að synja umsókninni. Molaskrifari hefði fremur kosið að sagði hefði verið að ekki þjónaði tilgangi að hafna umsókninni.
Einu sinni sóttu menn pakka á Bögglapóststofuna. Sú stofnun er ekki lengur til. Molaskrifari veltir fyrir sér hvort fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi lífgað þetta gamla fyrirtæki við. Þar er sífellt verið að tala um íþróttapakka og Ólympíupakka!
Rétt er að benda fréttastofu Ríkisútvarpsins að eignarfalls orðsins fundur er fundar ekki funds eins og sagt var í sjónvarpsfréttum (29.07.2012). Orðið fundur beygist ekki eins og hundur.
Hvaða frétt er það hvað Lilju Mósesdóttur alþingismanni utan flokka finnst um Grímsstaðamálið og Huang Nubo? Það er engin frétt. Í fréttum Ríkisútvarps (29.07.2012) var sagt að henni þætti Huangmálið minna á Icesave. Eðlilegt hefði verið að fréttamenn hefðu beðið hana að rökstyðja þá fullyrðingu. Það var ekki gert. Þessu var bara slegið fram út í loftið án rökstuðnings og engum fréttamanni datt í hug að spyrja véfréttina sem þetta sagði hvað hún ætti við.
Í Molum gærdagsins vék Molaskrifari að því sem virtust vera sultarlaun áberandi stjórnenda og fjölmiðlafólks og sagði: ,,Í tekjublaði DV kemur í ljós að sumir stjórnendur , eins og til dæmis sjónvarpsstjórinn á ÍNN eru á slíkum lúsarlaunum að jaðrar við hungurmörk. Verra er með útvarpsstjóra og stjórnarformann Útvarps Sögu. Þau hjúin komast ekki einu sinni á blað. Góðhjartaðir ættu að gauka fiskspyrðu að þessu bágstadda fólki.” Þetta var vel meint því þetta fólk hlýtur að erfitt, – en kannski býr það í einhverju sérstöku skattaskjóli þar sem því er hlíft við að borga til samfélagsins. Aðrir sjá um það. Til dæmis ef þetta góða fólk þarf að leggjast á sjúkrahús eða njóta annarrar opinberrar þjónustu. Þá eiga aðrir að borga.
Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri svaraði þessum saklausu ummælum með miklum fúkyrðaflaumi um Molaskrifara og persónu hans sem hefur verið endurtekinn nokkrum sinnum á sólarhring í útvarpsstöð hennar. Síðast um klukkan hálf sjö að morgni þriðjudags (31.07.2012) Þar lýgur hún því blákalt að sá sem þetta skrifar sé með milljón króna eftirlaun á mánuði, – ekki laug Arnþrúður því einu sinni heldur líklega 4-5 sinnum á enn færri mínútum. Það versta er að það er til fólk sem trúir þessari konu og Útvarpi Sögu. Molaskrifari hefur góð eftirlaun. En þau nálgast ekki milljón á mánuði. Hversvegna þarf Arnþrúður Karlsdóttir að ljúga að hlustendum Útvarps Sögu?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
8 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
31/07/2012 at 23:57 (UTC 0)
Í sakleysi mínu þá hélt ég eiginlega að ekki væri til fólk eins og Arnþrúður Karlsdóttir útvarpsstjóri sem vísvitandi lýgur að hlustendum sínum. Merkilegt fyrirbæri. Við skulum sjá hverju fram vindur.
orion skrifar:
31/07/2012 at 23:50 (UTC 0)
Það er ekki að spyrja að henni Arnþrúði. Svona svarar hún allri gagnrýni. Ég skora á þig Eiður að bjóða henni upp í dans á hennar heimavelli.
Það væri gaman að sjá hvort að hún á eins auðvelt með lifandi andstæðinga og strámennina sem hún býr til úr gagnrýnendum sínum.
Eiður skrifar:
31/07/2012 at 12:57 (UTC 0)
Illt er að eiga orðastað við þann sem villir á sér heimildir með nafnleysi.
Valur skrifar:
31/07/2012 at 12:50 (UTC 0)
Vesæll er sá sem ekki getur gengist við eigin slóðaskap. Ansi er það nú skítt hjá sjálfskipuðum málfarsráðunautnum að geta ekki skilað af sér villulausum pistli, og er hræsnin auðvita mest þegar pistlarnir(sem nánast eru aldrei villu lausir) gagnrýna aðra fyrir lélegt málfar og villur. Mitt fullt nafn kemur gagnrýni minni á hroðvirkni þína við þessi molaskrif engu við. Og talandi um hugleysi, þú ættir kanski að hafa opið fyrir facebook ummæli inná dv.is þar sem pistlarnir þínir birtast ef þér er svona umhugað að vita fullt nafn þeirra sem skrifa athugasemdir.
Eiður skrifar:
31/07/2012 at 12:41 (UTC 0)
Vesalings, huglausi nafnleysinginn. Megi honum vel farnast á sínum nafnlausu vegum.
Valur skrifar:
31/07/2012 at 10:29 (UTC 0)
Hvað er það annað en hroki og hugleysi að gangast ekki við eigin villum í texta sem gerir út á að benda á villur annara? Hvað kemur það málinu við hvað ég heiti fullu nafni ? Það er ekki það sem málið snýst um. En þú ert á dramatísu nótunum þennan morgunin og kallar mig leyniskyttu og hugleysingja. Það segir að sjálfsögðu meira um þig en mig hvernig þú skautar framhjá ábendingum um fljótfærnisleg og klaufaleg vinnubrögð þín við skrif þessara pistla.
Eiður skrifar:
31/07/2012 at 10:00 (UTC 0)
Góður dagur hjá leyniskyttum í dag. Hugleysingjar einir þora ekki að skrifa undir fullu nafni.
Valur skrifar:
31/07/2012 at 09:47 (UTC 0)
„Rétt er að benda fréttastofu Ríkisútvarpsins að eignarfalls orðsins fundur“
eignarfalls ?
„Þetta var vel meint því þetta fólk hlýtur að erfitt“
Vantar ekki eithvað í þessa setningu ?
Er ekki málið að klára kaffibollann og renna yfir skrifin áður en þau eru birt til að koma í veg fyrir svona villur ? Eða er molaskrifari kanski of upptekinn við að þefa uppi villur hjá öðrum, að hans villur eru aukaatriði ?