«

»

Molar um málfar og miðla 979

Molalesandi sendi ábendingu (11.08.2012) vegna fréttar á fréttavef Ríkisútvarpsins og sagði: Það gerist varla verra! http://www.flickmylife.com/archives/25224 Rétt er það. Varla gerist það verra en þegar Ríkisútvarpið skrifar um Hæðstarétt og nafnleind ! Þetta vekur spurningar um vinnulag á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Ekkert gæðaeftirlit ( sem einu sinni hét yfirlestur) ?Engin verkstjórn? Fréttabarn á ferð?

Annað fréttabarn stóð vaktina á mbl.is á laugardagskvöldið (11.08.2012): Þrír þjóðverjar létu lífið eftir að flugvél þeirra klessti á fjall í Noregi í gær, föstudag. Klessti á fjall! Þjóðaheiti á að skrifa með stórum staf. Fleira var rangt í fréttinni.

Af dv.is (09.08.2012): Lögreglunni hefur borist yfir 700 ábendingar um hvar Sigrid er og eru þær allar til skoðunar. Villan er bæði í undirfyrirsögn og fréttinni sjálfri. Hér ætti að segja: Lögreglunni hafa borist yfir 700 ábendingar …

Ríkissjónvarpið okkar er samt við sig þegar kemur að stundvísi. Á fimmtudag (09.08.2012) var í auglýstri dagskrá ( og á skjánum) tilkynnt að senda ætti út handbolta klukkan 16 00 (lið kvenna frá Noregi og Kóreu) Klukkan 16 15 bólaði ekkert á handbolta, engin útsending. Þá voru þrjár norrænar stöðvar búnar að sýna leikinn frá upphafi, klukkan 1600. Engin skýring, engin afsökun, – ekki frekar en fyrri daginn.

Af visir.is (09.08.2012): Fimmtíu árum eftir að bandarískar herþotur létu hið alræmda plöntueitur Agent Orange rigna yfir skógarþykknið í Víetnam … Hér hefði átt að standa: Fimmtíu árum eftir að bandarískar herþotur létu hinu alræmda plöntueitri Agent Orange rigna yfir skógarþykknið í Víetnam …

Skúta valt úti fyrir Reykjavík, sagði í fyrirsögn á mbl.is (10.08.2012). Betra hefði verið að segja að skútunni hefði hvolft, eins og reyndar var sagt í fréttinni. Sömuleiðis hefði farið betur á því að segja í fyrirsögn: Skútu hvolfdi við Akurey.
Molaskrifari birtir hér athugasemd frá Nínu (09.08.2012): ,,Heyrði þáttastjórnanda á Rás 2 Rúv ( um verslunarmannahelgina) tala um að það væri töluverð umferð á leiðinni til Selfossar? Þetta er í annað skipti með stuttu millibili sem ég heyri fólk tala svona. Áður var það ung kona sem var að tala um leiðina á milli Flúðar og Gullfossar. Er þetta málfar komið til að vera?” Molaskrifari óttast að svo sé. Ríkisútvarpið sinnir því lítt að vanda um við bögubósa sem þar ganga lausir. – Eitt barna minna átti það til á máltökualdrinum að tala um að fara til Hveragerðar. Það átti sér þá skýringu við áttum vinkonu sem Gerður heitir. Þau fengu stundum að fara til hennar og fóru þá til Gerðar. Rökrétt þessvegna að fara til Hveragerðar, ekki satt?
Visir.is (09.08.2012): Gengi bréfa Össurar hefur hækkað skarplega í dag, um 2,54 prósent, og er gengið (svo!) félagsins í Kauphöll Íslands nú 202. Hækkað skarplega? Er hér hugsað á ensku, – risen sharply? Engu líkara.
Hér verða að vera fastir liðir að venju og ekki má láta undir höfuð leggjast að nefna hið gagnmerka menningarframlag sem er á Rás tvö á hverjum föstudagsmorgni frá Los Angeles eða ellei eins og borgin heitir jafnan í þessum þætti upp á ensku. Eftir að umsjónarmaður hafði sérstaklega beðið konuna vestra að koma nú með slúður handa hlustendum var eins og skrúfað væri frá krana og amerískt leikaraslúður flæddi inn á íslensk heimili með tilheyrandi ambögum og enskuslettum. Og hvort sem lesendur trúa eður ei, þá þakkaði umsjónarmaður konunni í lokin fyrir hennar góða starf og framlag til samfélagsins !!! Mikill er metnaðurinn hjá Ríkisútvarpinu! Konan svaraði með því að segja að á morgun ætlaði hún að skjóta í Queen Mary skipinu. Þetta var allt mjög menningarlegt. – Í þessum sama morgunþætti sagði umsjónarmaður, – henni langar og kallaði TV 3 í Danmörku TV three upp á ensku. Mikill er máttur enskunnar. Það síðasttalda var að vísu leiðrétt, – með hálfgerðum semingi, þó. Enn mun töluð danska í Danmörku. Margt er gott í Ríkisútvarpinu, en þetta er með því allra versta. Öllum sem að málinu koma til skammar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góður!

  2. Sigurður Hreiðar skrifar:

    Gaman að þessu barnamálfari með Hveragerði — Hveragerðar. Þó ekki alveg rökrétt að rugla því saman við eignarfall af mannsnafninu Gerður (nf), því þá ætti bærinn að heita Hveragerður.
    En rökvísin er með ýmsu móti hjá börnunum. Meðan ég var kennari í Bifröst vann þar um hríð hávaxin kona, afskaplega grönn. Hirði ekki að nefna skírnarnafn hennar en Gústafsdóttir var hún. Börnin á staðnum, fríður flokkur innan við 8 ára, misskildi þetta eða misheyrði og kölluðu hana ævinlega Kústskaftsdóttur (með skírnarnafninu á undan).

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>