«

»

Molar um málfar og miðla 980

Ágætur Molalesandi benti á (10.08.2012) að í frétt í Ríkissjónvarpvarpi um bónorð sem borið var upp á Eyjafjallajökli hefði verið sagt í texta að verðandi brúður væri svo yfir sig hrifin af Íslandi að hún væri heillum horfin ! Þetta er auðvitað út í hött. Að vera heillum horfinn, er að eiga sér ekki viðreisnar von, vera mjög ólánssamur. Gott er að nota því aðeins orðtök að manni sé merking þeirra ljós.
Dálítið undarlegt orðalag á mbl.is (09.08.2012): Í fréttinni segir að hjónin hafi hug á því að koma sér upp fjárstofni aftur, en til þess þurfi að koma upp nýjum fjárhúsum á bænum, enda voru þau fyrri rifin eftir að riðan komst þar upp. Einkennilegt að tala um fyrri fjárhús! Frekar hefði átt að tala um fjárhúsin sem þar voru áður. Riðan komst ekki þar upp, – hún kom upp.
Molalesandi sendi eftirfarandi (10.08.2012): ,,Færeyingar hafa kallað Íslendinga jáara ég var svona að velta því fyrir mér hvort þeir fari ekki að kalla okkur ókeiara þar sem flestir svara með ókei eða jáókei,í ýmsum tóntegundum.” Ja, hver veit? Molaskrifari þakkar sendinguna.
Hvaða máli skiptir það fyrir hlustendur Ríkisútvarpsins við hvaða lið sænska knattspyrnuliðið Hälsingborg spilar í einhverri Evrópukeppni í fótbolta? Jafnvel þótt Íslendingur leiki með liðinu. Þetta er dæmi um þjónkun íþróttadeildar við lítinn hóp í samfélaginu. Hóp sem vissulega er hávær þegar honum finnst ekki nóg fyrir sig gert.
Líklega orkar það tvímælis þegar fréttastofa Ríkisútvarpsins ræðir við lækni hjá einkafyrirtæki um minni stuðning ríkisins við gervifrjóvganir. Á ekki læknirinn fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þá veru að stuðningur ríkisins sé sem rausnarlegastur við þá einstaklinga sem leita til hans?
Það er dálítið sérkennilegt að bæði útvarpsstjóri og fréttastjóri Ríkisútvarpsins skuli fást við að lesa fréttir. Ekki að þeir séu slæmir þulir. Alls ekki. Báðir eiga þeir að heita stjórnendur. Í stað þess að lesa fréttir fyrir áheyrendur ættu þeir að einbeita sér að því að lesa fréttirnar yfir áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Kannski mundi þá ambögum fækka eitthvað.
Hér er enn eitt dæmið um fráleita myndbirtingu (10.08.2012) á mbl.is. Gámur rakst á flugvél, segir í fyrirsögn. Birt er mynd af fólki fyrir utan verslun í flugstöðinni! ! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/08/10/gamur_rakst_a_flugvel/
Dálítið undarlegt fréttamat hjá mbl.is, að gera frétt úr því er starfsmaður lætur af störfum eftir sex ára starf hjá Eimskip! Lengi vel efsta frétt á mbl. is. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/08/09/heidrun_haett_hja_eimskip/

Forðast ber þolmynd. Af mbl.is (09.08.2012): Búlgarska símafyrirtækið Vivacom hefur verið keypt af bönkunum VTB Capital og CCBank, en fyrirtækið hefur verið í höndum kröfuhafa síðan 2010 … Keyptu bankarnir fyrirtækið, eða keypti einhver fyrirtækið af bönkunum? Germynd er alltaf betri en þolmynd, svo ég vitni í Jónas Kristjánsson

Í myndatexta (og í grein) í Sunnudagsmogga (12.08.2012) segir að kona hafi leyft sér að speisa út í nokkrar sekúndur. Molaskrifari þykist vera sæmilegur í íslensku og kunna hrafl í ensku, en játar fúslega að þetta skilur hann ekki. Hvað er að speisa út? Skrifið íslensku, Moggamenn.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

6 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Valur skrifar:

    „Fyrir þorra fólk sem hefur ekki áhuiga á fótbolta er þetta ekki frétt. Öll erlend lið þar sem Íslendingar koma við sögu heita Íslendingalið. Sífelldur smámolafréttaflutningur af lítt þekktum eða óÞekktum erlendum liðum þar sem einhcer Íslendingur kemur lítillega við sögu er dæmi um landlæga minnimáttarkennd gagnvart útlöndum og útlendingum“

    Þú ættir kanski að gera smá úttekt á þessum ummælum þínum og birta í pistli um málfar. Eru menn froðufellandi af æsingi við að skrifa og birta ummæli þannig að ekki gefst tími til að rétt líta yfir allar villurnar áður en ýtt er á „´Skrá athugasemd“

  2. Axel skrifar:

    Það er ekki sagt frá öllum Íslendingaliðum í öllum mótum í heiminunum. Langt í frá. Aðeins þeim sem standa fremst. Þarna er Íslendingur hársbreidd frá því að spila í riðlakeppni meistaradeildar evrópu. Það er mjög merkilegur árangur. Alfreð er nota bene einn markahæsti leikmaður Svíþjóðar og hefur leikið stórt hlutverk hjá sínu liði (Svíðþjóðarmeisturum Helsingborgar). Fullkomlega eðlilegur fréttaflutningur þarna á ferð. Það er hlutverk íþróttadeildar að segja frá okkar helsta afreksfólki í öllum íþróttum. Í þetta skipti var fjallað um fótbolta í sérstökum íþróttafréttatíma aftast í fréttatímanum (sem eðlilega er ætlað þeim sem hafa áhuga á íþróttum). Ekkert vandamál fyrir þorra þjóðarinnar. Góðar upplýsingar um góðan árangur afkreksmanns fyrir margt íþróttaáhugafólk.

  3. Eiður skrifar:

    Fyrir þorra fólk sem hefur ekki áhuiga á fótbolta er þetta ekki frétt. Öll erlend lið þar sem Íslendingar koma við sögu heita Íslendingalið. Sífelldur smámolafréttaflutningur af lítt þekktum eða óÞekktum erlendum liðum þar sem einhcer Íslendingur kemur lítillega við sögu er dæmi um landlæga minnimáttarkennd gagnvart útlöndum og útlendingum.

  4. Axel skrifar:

    Íþróttadeild RÚV fær úthlutað ákveðnum tíma aftast í fréttatímanum. Það er hlutverk íþróttadeildar að segja fréttir af íslensku íþróttafólki í fremstu röð. Meistaradeild evrópu í fótbolta er einn vinsælasti og virtasti íþróttaviðburður heims. Alltaf fréttnæmt að félagslið með Íslendingi innanborðs (Alfreð hjá Helsignborg) nái langt á þeim vettvangi. Það gerist ekki á hverjum degi. Hvert er vandamálið?

  5. Eiður skrifar:

    Bullandi mótsögn? Skýrðu það nánar.

  6. Gunnar skrifar:

    Af hverju á ekki að þjónusta hlustendur Ríkisútvarpsins? Snýst hlutverk Ríkisútvarpsins ekki um að þjóna öllum hópum samfélagsins? Ég hef áhuga á því að vita við hvaða lið Helsinborg spilar í Evrópukeppninni.

    Það eru margar aðrar fréttir sem lítill hluti samfélagsins hlustar á en það tuðar ekki yfir því þar sem það gerir ráð fyrir að aðrir hafi áhuga á slíku.

    Hvað vilt þú segja við unnendur sveppatýnslu? Mega þeir ekki fá umfjöllun út af því að þá er Ríkisútvarpið að „þjónka“ við lítinn hóp í samfélaginu?

    Eiður, þú ert í bullandi mótsögn við sjálfan þig þegar kemur að umræðu um Ríkisútvarpið og hlutverk þess.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>