Sagt var í hádegisfréttum Ríkisútvarps (11.08.2012) um varaforsetaefni Romneys , forsetaframbjóðanda Repúblikana vestra að hann sæti á neðri deild bandaríska þingsins. Menn sitja á þingi í Bandaríkjunum og sitja þá annaðhvort í fulltrúadeildinni eða í öldungadeildinni
Ögmundur Jónasson vígði ekki nýjan minnisvarða um Hrafna Flóka norður í Fljótum eins og sagt var í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (11.08.2012). Hann afhjúpaði nýjan minnisvarða. Molaskrifari minnist þess með ánægju er hann 1993 afhjúpaði minnisvarða um sama Hrafna Flóka í Ryvarden í Noregi, þaðan sem Hrafna Flóki er sagður hafa lagt upp í sjóferð sína.
Úr fréttum Stöðvar tvö (11.08.2012): …ætla sér að bjóða til brekkusöngs og flugeldasýningu .. til brekkusöngs og flugeldasýningar. Vanda sig.
Í sexfréttum Ríkisútvarps (11.08.2012) var talað um mikið mannfall í jarðskjálfta í Íran. Eðlilegra hefði verið að tala um manntjón fremur en mannfall.
Frámunalega illa skrifuð frétt á dv.is (12.08.2012). Það sér á að enginn með snefil af máltilfinningu les fréttir sumarliðanna yfir áður en þeim er dengt inn á netið til birtingar. http://www.dv.is/skrytid/2012/8/11/nakinn-og-smurdur-i-leit-ad-partyi/
Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (12.08.2012): Vladimír Pútín forsætisráðherra lofaði meðal annars öllum íbúum … bætur upp á …
Rétt hefði verið að segja að Pútín hefði lofað fólkinu bótum, ekki bætur. Fréttin var um vanefndir stjórnvalda gagnvart fólki sem varð fyrir tjóni í
miklum flóðum snemma í júlí.
.. og auglýsingabransinn hefur aldrei séð betri tíma var sagt (12.05.2012) í dagskrárkynningu á Stöð tvö. Ekki vandað orðfæri.
• Í bókmenntaþættinum Skorningum (12.08.2012), Sherlock Holmes í gegnum tíðina var okkur sagt að þessi fræga sögupersóna fagnaði hundrað þrítugasta og fimm ára afmælisdegi sínum. Líklega þarf að gera meiri kröfur til þeirra sem annast bókmenntaþætti í Ríkisútvarpinu. Skrítið að enginn skuli hafa heyrt þessa villu áður en þátturinn var sendur út. Eftir að hafa heyrt þetta slökkti Molaskrifari á útvarpinu, en sér að Sigður Hreiðar hefur hlustað og skrifaði hann eftirfarandi á Fésbókina um þennan sama þátt: ,,Lesari vandaði sig að tala um „hómó seipíens“. Ég hélt að homo sapiens væri latína og ekki borin fram upp á ensku. Svolítið aftar í lestrinum þéraði tiltekin stúlka Sérlokk í einu orðinu en þúaði í öðru. — Til allrar guðslukku erum við Ísslíngar lausir við þéranir, en séu þær notaðar ber að vera sjálfum sér samkvæmur þar um “. Molaskrifari segir: Ekki er þetta gott til afspurnar hjá þeim Efstaleitismönnum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar