Kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn lagðist við höfn í Kollafirði í morgun (14.08.2012) sagði fréttaþulur Stöðvar tvö. Skip leggjast ekki við höfn. Skip koma til hafnar eða í höfn. Kínverski ísbrjóturinn lagðist við akkeri á Kollafirði í morgun. Aukinheldur er engin höfn í Kollafirði.
Leiknum lauk fjögur núll fyrir Völsungum var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (13.08.2012). Fyrir Völsungum? Hversvegna þágufall? Molaskrifari áttar sig ekki á því.
Molaskrifari hélt að það væri misheyrn (12.08.2012) þegar honum heyrðist Hér – hikk- á rúv konan í Ríkissjónvarpinu kynna heimildamynd sem fjallaði m.a. um það hvernig jörðin virkaði. Þetta var ekki misheyrn því sama orðalag er í prentaðri dagskrá Ríkissjónvarpsins í dagblöðum. Molaskrifara þykir þetta ekki vel orðað. Hvernig virkar jörðin? Hefði ekki verið nær að tala til dæmis um eðli jarðar? Molaskrifari nefndi þetta á fésbókinni. Hagyrðingurinn séra Hjálmar Jónsson svaraði fljótt:
Íslenskunni ógnar vá
og engar varnir styrkar.
Hlakka ég til að horfa á
,,hvernig jörðin virkar”.
Snorri Emilsson sendi Molum línu og vitnar í fyrirsögnina Hraðasti maður frá upphafi í Sunnudagsmogga (12.08.2012) og segir: ,,Mín málkennd segir mér að þetta orð, hraði, sé ekki notað á þennan hátt í efsta stigi, er það ekki rétt hjá mér?
Ofangreinda fyrirsögn sá ég í sunnudagsblaði moggans 12.08.2012 bls. 38 í grein um spretthlauparann Usain Bolt. Í inngangi að greininn er síðan réttilega talað um sprettharðasta hlauparann. Þessa ambögu var ég reyndar búinn að heyra áður frá íþróttafréttaritara RÚV þegar þessi sami Bolt sigraði í 100 metra spretti og skrifaði það á fljótfærni og mismæli, enda heyrði ég það ekki aftur. Þegar ég síðan sá þetta endurtekið sem fyrirsögn í Mogganum langaði mig að koma þessu á framfæri og var afar ánægður að sjá að þú heldur úti þessu bloggi.” Molaskrifari þakkar bréfið er Snorra sammála um að ekki er hægt að tala um hraðasta manninn.
Á tveimur stöðum í Morgunblaðinu (14.08.2012) er kvartað undan óstöðvandi málæði í útsendingu Ríkissjónvarpsins frá lokaathöfn Ólympíuleikanna. Það er réttmæt gagnrýni. Starfsmenn íþróttadeildar Ríkissjónvarpsins mættu hafa í huga að þögnin getur verið gulls ígildi og það þarf ekki sífellt að segja okkur hvað við sjáum. Molaskrifari horfði talsvert mikið á efni frá OL. Oftar en ekki horfði hann á norrænu stöðvarnar eða BBC ekki síst vegna hins endalausa blaðurs á ríkisrásinni íslensku. Stundum voru lýsingar þar þó til fyrirmyndar eins og hér hefur verið nefnt , t.d. þegar verið var að lýsa fimleikum og þar mætti einnig bæta dýfingum við.
Það var engu líkara en rekinn væri áróður fyrir því í fréttum Ríkissjónvarps (14.08.2012) að bjórdrykkja verði leyfð á knattspyrnuleikjum. Hvað gengur mönnum til?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG
Skildu eftir svar