Nýtt orð heyrði ég í auglýsingu á Útvarpi Sögu. Það var orðið „Konuapótek”. Tónninn í auglýsingunni var kannski ekki beint að frábiðja sér heimsóknir karla í þessa lyfjabúð í Reykjavík, en það jaðraði við það. Líklega mundi einhversstaðar rekið upp ramakvein,ef auglýst væri „Karlaapótek”.
Margar auglýsingastofur eru ekki vandar að virðingu sinni þegar kemur að málnotkun. Nægir þar að nefna rugl sparisjóðsins Byrjar, eða Byrs, um eitthvað sem þeir í auglýsingum kalla „fjárhagslega heilsu” og notkun Toyota á enskuslettunni að „smæla”. Á leið um Kringluna í dag rak ég augun í auglýsingu frá fyrirtæki,sem selur nikótíntyggigúmmí. Á auglýsingaspjaldinu stóð: „100 krónur af hverjum seldum pakka í mars rennur til átaksins…”. 100 krónur rennur ekki . 100 krónur renna til góðs málefnis.
Í fréttum Stöðvar 2 var talað um mál, „sem hafa verið að koma til rannsóknar”. Af hverju ekki mál sem hafa komið til rannsóknar ?
Það hríslaðist tvisvar um mig aulahrollur er ég horfði og hlustaði á sjónvarpsfréttir RÚV klukkan 1900 í kvöld. .Það er eins og fréttamenn geti ekki notað sögnina að vinna án þess að bæta við „hörðum höndum”. Það er ágætt að nota orðatiltæki en ofnotkun þeirra er afleit. Í kvöld var unnið hörðum höndum að málefnum Baugs og hörðum höndum að lagfæringum eftir bruna í Síðumúla,muni ég rétt.
Löngu fyrir daga sjónvarps gerðu snillingar af fréttastofu útvarpsins (gott ef það voru ekki Stefán Jónsson, Thorolf Smith og Jón Múli) grín í gamanþætti á gamlárskvöld að ofnotkun orðsins lyftistöng. Þeim tókst í spjalli sínu að koma því inn í aðra hverja setningu. Þeir gengu þannig frá þessu orði að þegar ég fór að fást við fréttaskrif gat ég eiginlega aldrei fengið mig til að tala um til dæmis að nýtt frystihús væri mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið á Grjóteyri. Í minningunni finnst mér að þeir hafi í raun verið að nota orðið um brennivínsflösku, sem auðvitað getur verið lyftistöng, en getur líka dregið menn niður í svaðið.
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
doddý skrifar:
12/03/2009 at 15:46 (UTC 0)
.. mér finnst líka leiðinlegt þegar allir eru aðillar. kv d
Íris skrifar:
12/03/2009 at 15:46 (UTC 0)
Ánægjulegt að rekast á þessa mola um málfar.
Í síðustu viku heyrði ég lesna auglýsingu í útvarpi allra landsmanna. Auglýst var laus til umsóknar staða málfarsráðunauts!! Ætli fráfarandi ráðunautur sé farinn til annarra starfa?