«

»

Molar um málfar og miðla 990

Molalesandi bendir á frétt á visir.is (23.08.2012):,,Bolt gæti farið í 400 metra og langstökk. Hraðasti maður allra tíma, Jamaíkumaðurinn Usain Bolt, er þegar byrjaður að hugsa um Ólympíuleikana í Ríó árið 2016…
Hefði ekki verið fallegra að segja „fljótasti maður“ eða kannski „sprettharðasti“ maður…allra tíma? En það er samt kauðalegt. Best hefði verið t.d.: Sigurvegarinn í 100m og 200m hlaupi á Ólympíuleikunum, en sleppa þessu allra tíma.” Þetta hefur verið nefnt hér áður. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Á sínum tíma fannst Molaskrifara ekki mikið til þátta Ríkissjónvarpsins um Hornafjörð og Vestmannaeyjar koma. Þar var stundum eins og umsjónarmaður þáttanna skipti meira máli en þær breytingar sem gera átti á bæjarmyndinni. Nú hefur komið í ljós, að sögn Fréttablaðsins, að kostnaður bæjaryfirvalda á Höfn við gerð þáttanna varð meira en fjórfaldur miðað við það sem samþykkt var , – ekki þrjár milljónir heldur tæplega 14 milljónir! Bæjarstjóri segir að efnislega að bæjarráðinu hafi verið stillt upp við vegg. Ekki sýnist hlutur Ríkissjónvarpsins í þessu máli vera góður. Allt í skötulíki. En líklega verður umsjónarmaður verðlaunaður með enn fleiri og veglegri verkefnum í útvarpi og sjónvarpi.

Molalesandi sendi þetta (23.08.2012): ,, Nú er mjög algengt að talað sé um að ,,draga út vinningshafa“ í hinum og þessum leikjum. Er ekki nær að tala um að ,,draga út nafn vinningshafa“?
Í auglýsingu Express-ferða sem nú gengur manna á milli á Facebook er auglýst:,Vinningshafinn verður dreginn út á mánudaginn! Sé fyrir mér að fyrirtækið dragi með sér vinningshafann til útlanda.” Molaskrifari er sammála. Það er hálfánalegt að tala um að draga úr vinningshafa.

Af mbl.is (22.08.2012): Ekki verur annað sagt en að þessi stutta frétt um hvalreka á Landeyjafjöru sé svolítið undarlega skrifuð: ,,Hvalreka bar í Landeyjafjöru um sexleytið í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli var um risavaxið dýr að ræða. Að sögn vakthafandi lögreglumanns bar nokkuð sterkan fnyk frá hræinu og var atvikið tilkynnt til viðeigandi stofnunar sem væntanlega mun fjarlægja dýrið á næstu klukkustundum”.
Vindurinn úr dönskum vindmyllum, segir í ágætri fyrirsögn í viðskiptablaði Morgunblaðsins (23.08.2012). Fréttin er um að danska fyrirtækið Vestas sem framleiðir vindmyllur til raforkuframleiðslu eigi í rekstrarerfiðleikum.
Fram kom í fréttum Morgunblaðs (22.08.2012) og Ríkissjónvarps (23.08.2012) að sex nígerískar konur hafi leitað hælis á Íslandi frá áramótum og einhverjar munu hafa verið komnar áður. Algengt er að konurnar séu með kornabörn eða séu barnshafandi. Konan sem rætt var við í Ríkissjónvarpinu gaf loðin eða engin svör um hvernig hún hefði komist til Íslands og ekki fengu áhorfendur að sjá framan í hana. Eru fréttamenn Ríkissjónvarps þau börn að halda að þetta sé tilviljun? Konurnar allar frá sama landinu. Svona margar á svona skömmum tíma? Yfirgnæfandi líkur hljóta að vera á því að þetta sé skipulagt. Ný gerð af Nígeríusvindli. Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra hefur skrifað um þetta á heimasíðu sinni http://www.bjorn.is/ Ekki er ósennilegt að þessar konur hafi greitt glæpamönnum fúlgur fjár fyrir að komast til Íslands. Þetta hlýtur að kalla á nánari athugun.
Lesandi benti á þetta af mbl.is og bætti því við að veiðifréttir á mbl.is gætu sjaldnast talist til þess sem best væri skrifað þar á bæ ! (23.08.2012) Þrátt fyrir að laxastiginn við Árbæjarfoss sé lokaður er svæðið ofan við Gutlfoss og alveg langt uppeftir ánni gífurlega spennandi veiðisvæði fyrir stóran urriða. Stóru urriðarnir eru sem sagt á veiðum þarna !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

5 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Ja, hérna ! Manni verður orða vant.

  2. Sigurður Karlsson skrifar:

    Þú hefur greinilega ekki séð fréttina um hvalrekann fyrr en búið var að lagfæra hana dálítið. Svona var upphafið kl. 21:33:

    Hvalreka bar á strendur Landeyjafjöru um sexleytið í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli var um risavaxið dýr að ræða og reyndist ekki unnt að bjarga lífi hvalsins.

  3. Eiður skrifar:

    Í Fréttablaðinu 22. ágúst segir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn: ,,Þertta gerist með miklum hraða í aðdraganda þessara þátta. Bæjarrráðinu var stillt upp með vonda valkosti skömmu fyrir töku þáttanna um það hvort þeir eigi að fram eða hvort menn ættu hreinlega að sleppa þessu“.
    Nú er spurt: Hver stillti bæjarráðinu upp með þessa vondu valkosti? Var það ekki Ríkissjónvarpið? Var það einhver annar? Eru svona vinnubrögð til fyrirmyndar?

  4. Eiður skrifar:

    Biðst velvitrðingar á að hafa haft Ríkissjónvarpið fyrir rangri sök . Dró kannski heldur of víðtækar álykltanis af frétt Fréttablaðsins. Er samt á því að þetta hafi verið misheppnaðir þættir.

  5. Þórhallur Gunnarsson skrifar:

    Sæll Eiður,

    Í bloggfærslu þinn í dag segir þú eftirfarandi:

    “Nú hefur komið í ljós, að sögn Fréttablaðsins, að kostnaður bæjaryfirvalda á Höfn við gerð þáttanna varð meira en fjórfaldur miðað við það sem samþykkt var , – ekki þrjár milljónir heldur tæplega 14 milljónir! Bæjarstjóri segir að efnislega að bæjarráðinu hafi verið stillt upp við vegg.”

    Síðan bætir þú við: “Ekki sýnist hlutur Ríkissjónvarpsins í þessu máli vera góður. Allt í skötulíki.”

    Eiður, hvernig getur þú sagt að hlutur RÚV hafi ekki verið góður og í skötulíki? Mér þætti vænt um að þú kynntir þér málið ofurlítið áður en þú staðhæfir slíkt.

    Í fyrsta lagi komu bæjaryfirvöld ekki að gerð þáttanna. Þau fjármögnuðu hinsvegar þær breytingar sem gerðar voru á hafnarsvæðinu á Höfn og báru því alla ábyrgð á þeim framkvæmdum.

    Hvað varðar áætlanir bæjarfélagsins vegna framkvæmdanna er rétt að vísa í yfirlýsingu bæjarstjórans sem vitnað er til í Fréttablaðinu í gær.

    Í fréttinni segir:
    „Í yfirlýsingu sem Hjalti bæjarstjóri sendi í gær undirstrikar hann að RÚV beri enga ábyrgð á framkvæmdum bæjarins vegna þáttagerðarinnar. „Framkvæmdir sem ráðist var í í tengslum við upptöku á sjónvarpsþætti RÚV eru á ábyrgð starfsmanna sveitarfélagsins en ekki á ábyrgð RÚV eða annarra,“ segir Hjalti.“

    Það er einnig rétt að halda því til haga að kostnaður RÚV við þáttagerðina var undir áætlunum.

    Kveðja,
    Þórhallur Gunnarsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>