«

»

Molar um málfar og miðla 993

Enskan sækir allsstaðar á. Fram kom í fréttum nýlega að þess séu dæmi að grunnskólabörnum sé tamara að tjá hugsun sína með enskum orðum en íslenskum. Við þessu þarf að bregðast. Það eiga stjórnvöld að gera. En þar er sofið á verðinum. Hægt væri að beita Ríkisútvarpinu meira og betur í þessum efnum. Þar sofa menn hvað fastast.
Í sunnudagsmogga (26.08.2012) er heilsíðu auglýsing frá Grillhúsinu. Fyrirsögnin er: Life is beautiful. Af hverju ávarpar Grillhúsið okkur ekki á íslensku? Verið er að auglýsa það sem veitingastaðurinn kallað Alvöru helgar-Brunch. Auglýsingamenn og veitingamenn eru á góðri leið með að festa enska orðið brunch (breakfast og lunch) í málinu. Það er hið mesta óþurftarverk. Í auglýsingunni er talað um ristabrauð sem er barnamál. Það heitið ristað brauð. Prófarkalestur hefur verið slæmur eða enginn, – (sneiðar af ferksum ávöxtum). Talað er um börn undir tólf ára. Átt er við börn yngri en tólf ára. Í sama blaði er stór auglýsing sem er öll á ensku. Látum það vera. Þar er erlend stofnun að auglýsa eftir starfsfólki. Sök sér.
Þessi sunnudagsmoggi er annars óvenjulega læsilegur, margt góðra greina og þrjár opnur með frábærum ljósmyndum Eðvarðs Sigurgeirssonar sem með myndavélum sínum, kyrrmyndum og kvikmyndum var sannarlega einn merkasti sagnaritari liðinnar aldar og listamaður eins og fleiri í hans fjölskyldu. Það hefur gengið í arf.
Lesandi benti á undarlegt orðalag á visir.is (25.08.2012): Árið 1969 átti Armstrong fyrsta mannlega fótinn sem nokkurn tíma komst í snertingu við tunglið. Hann bendir á að hér hefði farið vel á að segja: Steig fyrstur manna fæti á tunglið. Rétt er það. Ef að líkum lætur hefur blaðamaður verið að spara sér vinnu og notað þýðingarvél Google eða sambærilegt tól. Þetta er með ólíkindum.
Úr fréttum Stöðvar tvö (26.08.2012): … að erlend kona sem verið hafði farþegi með honum (rútubílstjóranum)væri saknað. Hér hefði átt að segja, að erlendrar konu sem verið hefði farþegi með honum væri saknað. Nokkuð vantaði á málfræðikunnáttuna bæði hjá þeim sem skrifaði þetta og sömuleiðis hjá fréttaþulnum sem las þetta án þess að depla auga.
Þannig var tekið til orða í morgunfréttum Ríkisútvarps (27.08.2012) að fellibylurinn Ísak stígi á land í Flórída. Það orkar tvímælis að segja að fellibylur stígi á land, eðlilegra hefði verið að segja, til dæmis, – þegar fellibylurinn Ísak nær landi eða kemur að landi.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (27.08.2012) var sagt frá því að Landhelgisgæslumenn hefðu bjargað tugum flóttafólks á Miðjarðarhafi. Fjörutíu til fimmtíu manns frá Landhelgisgæslunni tekur þátt í … Fjörutíu til fimmtíu manns frá Landhelgisgæslunni taka þátt í …. eða tóku þátt í. Myndir af óviljaverki gamallar konu ..hefur farið með ógnarhraða um netheima. Myndirnar hafa farið um netheima. Það var þessi frétt sem umsjónarmaður morgunþáttar Rásar tvö sagði að væri um konuna sem klúðraði Jesúmyndinni! Í þessum morgunþætti var einnig talað um bar sem væri staðsettur á Costa del sol. Orðinu staðsettur er nær alltaf ofaukið. Barinn er á Costa del sol. Halda mætti að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins , – sé hann enn við störf, sé í afarlöngu sumarleyfi. Í dagskrárkynningu Rásar tvö var sagt (27.08.2012): Sviðið er staðsett á besta stað í bænum. Nóg væri að segja: Sviðið er á besta stað í bænum.
Ferskur fiskur olli lokunum á Reykjanesbrautinni, segir í fyrirsögn á visir.is (27.08.2012). Hversvegna fleirtala? Ferskur fiskur olli lokun á Reykjanesbrautinni.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð. Síðuskrifari áskilur sér rétt til fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. – . ESG

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>